sun. 19. maí 2024 22:00
Ástin spyr stundum um aldur.
Ein sem gafst upp á yngri körlum

„Í augnablikinu er í tísku fyrir konur að slá sér upp með yngri mönnum. Kate Moss, Madonna, Sienna Miller - allar eru þær með töluvert yngri körlum. Ég gerði það líka þegar ég var á fertugsaldri. Nú er ég 43 ára og er algerlega komin yfir það,“ segir Katie Glass í pistli á The Times. Hún veltir fyrir sér þeim kostum og göllum sem fylgja því að vera með yngri mönnum.

Yngri menn voru jákvæðari

„Ástæða þess að ég fór á stefnumót með yngri mönnum var einföld. Þeir voru skemmtilegri og myndarlegri. Að vera með yngri manni passaði vel við óreiðukenndan persónuleika minn. Svo fannst mér yngri karlar vera lausari við fordóma, jákvæðari og bjartsýnni en gamlir nöldurseggir. Það að þeir litu vel út var bara bónus.“

„Mér fannst ég líka svalari þegar ég var með yngri mönnum. Það hélt mér á tánum með hvað var í tísku. Um tíma var ég í sambandi með ungum listamanni sem kynnti mér fyrir fullt af ungum listamönnum sem ég hafði aldrei heyrt um.“

„Það er ákveðinn léttleiki sem fylgir því að vera í sambandi með yngri manneskju. Það er minni samkeppni því maður er staddur á mismunandi stað í lífinu. Maður getur hvatt hvort annað áfram frekar en að hugsa um það sem hefur ekki náðst í lífinu.“

Minni skuldbinding

„Þegar ég var að einbeita mér að ferlinum fannst mér gott að vera með yngri manni. Ég var til dæmis í sambandi við fótboltamann sem kom og fór og mér fannst það frábært. Hann vildi heldur ekki vera fastur og honum fannst konur á hans aldri vilja negla hann niður.“

„Þegar ég lít til baka þá sé ég að það var annað og meira sem heillaði mig við yngri menn. Þegar ég var ung þá fannst mér ég vera notuð af eldri körlum sem girntust mig. Það var ákveðið öryggi í því falið að vera með yngri mönnum. Svo fannst mér þetta kveikja í femínistanum í mér. Mér fannst líka ekki vera valdaójafnvægi, kannski var ég ekki nógu rík í það.“

Ekki dans á rósum

„En þetta var ekki allt dans á rósum. Við áttum oft í samskiptaörðugleikum og ég þurfti oft að fletta upp merkingu slangursins sem þeir notuðu. Það er líka leiðingjarnt til lengdar að vera að endurupplifa allt. Maður er svolítið búinn með sumarfríin á Ibiza. Svo þurfti ég alltaf að borga fyrir allt. Þeir höfðu ekki efni á mat, drykk eða frí. Þá er alltaf hætt við því að fara að mæðra manninn.“

„Mikilvægasta sambandið var með manni sem var sjö árum yngri en ég. Við fundum sannarlega fyrir aldursmuninum. Ég var að nálgast fertugt og vildi gera annað en að djamma. Hann var ekki reiðubúinn í það. Svo þegar við hugsuðum um barneignir þá þýddi það að það var að hrökkva eða stökkva. Aldurinn minn leyfði ekkert hangs.“

„Það var gaman að vera með yngri mönnum þegar ég var þrítug en ekki gaman um fertugt. Maður vill eldast með reisn og það er ekkert varið í að sjá karla að reyna að halda í við ungu kærusturnar sínar.“

Góð tilfinning að vera með eldri mönnum

„Nú er ég meira með eldri mönnum. Það er mjög góð tilfinning að vera yngri manneskjan í sambandinu. Ég fór á stefnumót með fimmtugum manni sem kallaði mig gullfallega sem fékk mig til þess að roðna. Þá er það líka góð tilbreyting að þeir eru færir um að sjá um mann. Ég þarf ekki alltaf að vera sú sem gerir allt og græjar. Ég get leitað ráða og þeir passa upp á mig þegar við förum út á lífið.“

til baka