sun. 19. maí 2024 19:48
Katrín Jakobsdóttir.
Frambjóðendur svara: Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, fram­bjóðandi til embætt­is for­seta Íslands, segist hafa langa reynslu og þekkingu af stjórnmálum og skilji gangvirki samfélagsins vel. Hún hafi þurft að takast á við erfið verkefni á borð við heimsfaraldur og eftirköst hruns, og taka erfiðar ákvarðanir.

Þá segist hún vita hvað það þýðir að gegna áhrifastöðu í samfélaginu og þekki einnig vel þau mörk sem þarf að virða gagnvart Alþingi og stofnunum samfélagsins.

Það mik­il­væg­asta við embætti for­seta Íslands að mati Katrínar er að forseti sé fulltrúi þjóðarinnar allrar og þurfi að sýna henni hollustu. Þá telur hún að forsetinn þurfi að treysta sér til að tala til allra landsmanna og fyrir hönd þeirra, innanlands sem erlendis. 

Morg­un­blaðið gef­ur öll­um fram­bjóðend­um tæki­færi til að svara sjö spurn­ing­um og birt­ir svör hvers fyr­ir sig á mbl.is. Svör­um fram­bjóðend­anna verður síðan safnað og þau birt í Morg­un­blaðinu svo les­end­ur geti hag­an­lega borið þau sam­an.

Íslend­ing­ar ganga að kjör­borðinu 1. júní og kjósa sér sjö­unda for­seta lýðveld­is­ins. Morg­un­blaðið og mbl.is fylgj­ast vel með og færa ykk­ur helstu frétt­ir af kosn­inga­bar­átt­unni.

Hér á eft­ir fara svör Katrínar við spurn­ing­um mbl.is og Morg­un­blaðsins:

 

Hvað finnst þér mik­il­væg­ast við embætti for­seta Íslands?

„Forseti er fulltrúi þjóðarinnar allrar og þarf að sýna henni hollustu. Hann á að vera sameinandi afl og stuðla að samheldni og trausti, um leið og fjölbreytni og það sem aðskilur okkur fær að njóta sín. Forsetinn þarf að treysta sér til að tala til allra landsmanna og fyrir hönd þeirra, innanlands sem erlendis. Sá eða sú sem gegnir embættinu á að beita sér fyrir því að áhrifa Íslands gæti sem víðast, með því að ná eyrum jafnt þjóðarleiðtoga sem annarra á alþjóðlegum vettvangi þegar þörf krefur. Forseti á að næra ræturnar sem við eigum sameiginlegar en einnig að tala um þau tækifæri sem við eigum á ólíkum sviðum. Það skiptir máli að forseti tali skýrt fyrir þeim gildum sem við höfum flest verið sammála um, lýðræði, mannréttindum, jafnrétti og friðsamlegum lausnum og ekki einungis hér heima, heldur tali um þau skýrri röddu á alþjóðavettvangi. Forsetinn á að standa í stafni en ekki síður þarf hann að vera sá sem þjóðin getur hallað sér að þegar á móti blæs.“

Hvað hef­ur þú helst fram að færa til embætt­is­ins um­fram aðra fram­bjóðend­ur?

„Ég ákvað þegar að ég lagði af stað í mína baráttu að ég myndi ekki fara í samanburð við aðra, heldur ræða einungis um það sem ég hefði fram að færa. Ég hef langa reynslu og þekkingu af stjórnmálum, skil gangvirki samfélagsins vel, hef þurft að takast á við erfið verkefni eins og heimsfaraldur og eftirköst hruns og taka erfiðar ákvarðanir. Eg veit því hvað það þýðir að gegna áhrifastöðu í samfélaginu og þekki einnig vel þau mörk sem þarf að virða gagnvart Alþingi og stofnunum samfélagsins. Ég tel að reynsla mín á alþjóðavettvangi vegi sömuleiðis þungt. Ég hef átt mikil og jákvæð samskipti við erlenda ráðamenn en ég hef líka þurft að taka upp símann fyrir hönd Íslands í flóknum aðstæðum og mér finnst mikilvægt að forseti geti gert það ef á móti blæs í samskiptum landsins við önnur ríki. En fyrst og fremst vil ég vinna samfélaginu gagn og tel að ég geti gert það.“

Á maki for­seta að hafa form­lega, launaða stöðu?

„Ég sé ekki ástæðu til þess í ljósi þess að hlutverk maka forseta er hvergi formlega skilgreint.“

Á for­seti að vera virk­ur þátt­tak­andi í þjóðmá­laum­ræðu?

„Forseti getur lagt góðum málefnum lið með rödd sinni og á ekki að vera skoðanalaus en hann þarf að gæta þess að hann talar ætíð fyrir hönd þjóðarinnar og embættisins.“

Hvað vægi þyngst í ákvörðun um að synja lög­um staðfest­ing­ar: rök stjórn­ar­and­stöðu, mót­mæli, ráðgjöf eða eig­in dómgreind?

„Ég hef sagt að ef forseti á að beita málsskotsréttinum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Málin þurfa að vera stór, horfa þarf til þess hvort þau hafa langtímaáhrif á samfélagið, hvort þau varða einhver grundvallargildi samfélagsins og hvort um þau er djúpstæður ágreiningur milli þings og þjóðar. Forseti þarf að meta hvort þessi viðmið eiga við og í hversu miklum mæli. Til þess nýtir hann eigin dómgreind, leitar ráðgjafar sérfræðinga og hlustar á raddir samfélagsins. Ég tel að það gegni engum sérstökum tilgangi að setja þessi atriði sem nefnd eru í einhverja forgangsröð.“ 

Hver eru brýn­ustu viðfangs­efni Íslend­inga nú og hvað hef­ur for­seti til þeirra mála að leggja?

„Það er mikilvægt að við hugum að rótum okkar, að menningu okkar, sögu og tungu. Við stöndum til dæmis frammi fyrir nýjum áskorunum hvað varðar tungumálið okkar. Við erum öll umkringd ensku málumhverfi sem gerir það að verkum að við nýtum ensku æ meira. Við verðum að svara því hvort við erum tilbúin að bregðast við og leggjast saman á árar í sókn fyrir íslenska tungu þannig að við notum áfram tungumálið okkar á öllum sviðum samfélagsins. Það verður ekki heldur framhjá því litið að við lifum viðsjárverða tíma. Stríðsátök í heiminum nú eru fleiri en þau hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Við stöndum frammi fyrir umhverfisvá og við sjáum að víða er grafið undan lýðræði og mannréttindum. Þar held ég að mín reynsla og þekking nýtist, úr störfum mínum bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, til að rödd Íslands heyrist skýrt og við getum lagt okkar af mörkum til að tala fyrir lýðræði, frið, jafnrétti og mannréttindum og gegn þeirri skautun sem víða einkennir umræðuna. Það er einnig mikilvægt að stuðla að þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, hvort sem er í menningarstarfi, íþróttastarfi, björgunarsveit eða öðru samfélagsstarfi. Öflug þátttaka ýtir bæði undir samheldið samfélag og getur gefið hverjum og einum svo mikið.“ 

Hver er hæfi­leg­ur tími í embætti fyr­ir for­seta?

„Fyrir mitt leyti væru átta til tólf ár hæfilegur tími.“

til baka