sun. 19. maí 2024 17:15
Diddy gekk í skrokk á þáverandi kærustu sinni Cassie Ventura.
Diddy: Hegðun mín er óafsakanleg

Tónlistarmaðurinn og framleiðandinn Sean „Diddy“ Combs kveðst iðrast gjörða sinna eftir að myndskeið úr eftirlitsmyndavélum var opinberað þar sem hann sést ganga í skrokk á þáverandi kærustu sinni, söngkonunni Cassie Ventura, árið 2016.

Myndskeiðið sýnir meðal annars Diddy ganga á eftir Ventura niður hótelgang, grípa í hana og hrinda henni í gólfið og sparka svo í hana þar sem hún liggur. 

Söngkonan höfðaði mál gegn Diddy í fyrra þar sem hún sakaði hann um nauðgun og líkamlegt ofbeldi. 

Diddy neitaði ásökunum og komust þau að samkomulagi utan dómstóla aðeins degi eftir að Ventura höfðaði málið.

View this post on Instagram

A post shared by LOVE (@diddy)

 

https://www.mbl.is/folk/frettir/2024/05/17/myndskeid_diddy_gekk_i_skrokk_a_ventura/

Biðst afsökunar á ofbeldinu í myndskeiðinu

Diddy hefur nú beðist afsökunar á að hafa ráðist á Ventura á hótelganginum, tveimur dögum eftir að CNN birti myndskeiðið sem samanstendur af upptökum úr nokkrum mismunandi eftirlitsmyndavélum.

„Hegðun mín í myndskeiðinu er óafsakanleg. Ég tek fulla ábyrgð á gjörðum mínum í myndskeiðinu,“ sagði hann í yfirlýsingu á Instagram.

„Mér ofbauð hegðun mín þá. Mér ofbýður hegðun mín núna,“ bætti rapparinn við. 

Kvaðst hann jafnframt hafa farið í meðferð og leitað aðstoð sálfræðinga í kjölfarið.

„Ég er staðráðinn í að verða betri maður og bæta mig á hverjum degi. Ég er ekki að leitast fyrirgefningar. Ég iðrast raunverulega.“

til baka