mán. 20. maí 2024 18:22
Sveinn Margeir Hauksson kemur KA í forystu í dag.
Jekyll og Hyde á KA-velli

Tvö neðstu liðin í Bestu-deild karla í fótbolta áttust við í 7. umferð deildarinnar í dag. KA tók á móti Fylki á KA-vellinum. Heimamenn í KA unnu 4:2 í leik þar sem hvort lið sýndi einn góðan hálfleik og annan virkilega slæman. KA er nú með fimm stig. Fylkismenn eru langneðstir með eitt stig.

KA-menn byrjuðu leikinn mjög vel og áttu Fylkismenn í vök að verjast lengi vel. KA skoraði strax á 3. mínútu og fylgdi markinu eftir með þungun sóknum en herslumun vantaði upp á að skapa annað mark. Fylkismenn komust smám saman til sjálfs síns en KA sá um að skora mörkin. Daníel Hafsteinsson skoraði um miðjan hálfleikinn og kom KA í 2:0. Undir lok fyrri hálfleiks fékk KA gott færi þegar Sveinn Margeir Hauksson slapp einn í gegn.

Aron Snær Guðbjörnsson gerði sitt besta til að toga hann niður í tvígang en Sveinn Margeir stóð það af sér og komst inn á vítateiginn. Þrumuskot hans small í þverslánni og var Aron Snær stálheppinn að sleppa með spjald. KA fékk svo víti örstuttu síðar og steig Hallgrímur Mar Steingrímsson fram til að taka vítaspyrnuna.

Ólafur Kristófer Helgason varði með glæsibrag en það dugði skammt. Daníel Hafsteinsson komst fyrstur í frákastið og afgreiddi boltann í netið. Staðan var 3:0 í hálfleik og Fylkismenn í virkilega vondri stöðu.

Hvað fram fór í búningsklefa Fylkismanna í hálfleik verður fróðlegt að vita. Liðið gerði þrjár breytingar og kom út á völlinn með allt annað hugarfar. Fylkir hreinlega átti upphafskafla seinni hálfleiks og náði strax að skora.

Matthias Præst náði góðu skoti út við stöng og boltinn fór inn. KA-menn virtust slegnir og náðu engum takti í leik sinn. Fylkir hélt áfram að hamra járnið og linnti ekki látum fyrr en það kom annað mark. Kortéri fyrir leikslok skallaði Aron Snær Guðbjörnsson í markið eftir sofandahátt hjá KA.

Áfram héldu Fylkismenn að sækja en KA reyndi að hanga á sínu. Rétt fyrir leikslok náðu heimamenn að klára leikinn með góðu marki úr skyndisókn. Ásgeir Sigurgeirsson slapp þá einn í gegn og gerði engin mistök. Lokatölur því 4:2.

Það er eiginlega með ólíkindum hve mikil breyting varð á báðum liðum í hálfleik. KA-menn réðu lögum og lofum nánast allan fyrri hálfleikinn og spiluðu af festu og öryggi. Í seinni hálfleiknum litu heimamenn út eins og taugahrúgur og náðu varla sendingu á samherja. Að auki var samskiptaleysi mikið og bægslagangur á köflum.

Þessu má svo snúa við með Fylkismennina. Klaufagangur þeirra og andvaraleysi í fyrri hálfleik kom þeim í vonda stöðu en í seinni hálfleik voru þeir ekki langt frá því að vinna 0:3 stöðu upp í jafntefli.

Það er því erfitt að taka út leikmenn og hrósa þeim sérstaklega en Hans Viktor Guðmundsson var einna öflugastur hjá KA á meðan Orri Hrafn Kjartansson og Matthias Præst voru sprækastir Fylkismanna.

til baka