Karen skilar inn tímaskýrslum

Karen Kjartansdóttir.
Karen Kjartansdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ráðgjafarfyrirtækið Langbrók ehf. hefur nú sent Orkustofnun (OS) sundurliðaðar tímaskýrslur síðustu mánaða vegna starfa Karenar Kjartansdóttur sem samskiptastjóra stofnunarinnar.

Því hlutverki hefur hún sinnt í verktöku fyrir hönd Langbrókar, sem hún er einn eigenda að, en upp á síðkastið hefur hún einnig lagt orkumálastjóra lið við forsetaframboð.

Líkt og Morgunblaðið greindi frá á laugardag hefur Karen fengið greiddar 12.764.265 krónur fyrir þau störf síðan samningur var um það gerður í fyrravor án auglýsingar eða útboðs.

Sá samningur var fyrir skömmu endurnýjaður til annars árs, en áhöld eru um heimildina til þess.

Reglan er sú að ríkið ráði fólk til slíkra starfa í fulla vinnu, en verktöku ekki beitt nema í þeim mun afmarkaðri verkefni og þá til mun skemmri tíma. Samskiptastjóra OS er hins vegar að finna í skipuriti stofnunarinnar, en hann starfar að sögn stofnunarinnar á ábyrgð orkumálastjóra.

Samningurinn í gildi

Karen fór í leyfi sem samskiptastjóri á föstudag, en samningurinn er áfram í gildi og sinna aðrir starfsmenn Langbrókar verk­efnum fyrir OS á meðan. Hún hafði fram að því tekið dyggan þátt í kosningastarfi forsetaframboðs Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, en að sögn framboðsins hafa þau störf verið unnin í sjálfboðaliðveislu.

Halla Hrund tilkynnti framboð sitt hinn 7. apríl, en var farin að huga að framboði nokkrum vikum fyrr. Orkumálastjóri tilkynnti svo hinn 12. apríl að hún færi í launalaust leyfi frá þeim degi og fram á kjördag, 1. júní.

Að sögn Langbrókar fylgdu tímaskýrslur eða annað verkbókhald ekki með fyrri reikningum, líkt og áskilið er í samningi, vegna mistaka. Þau eru sögð mega reka til þess að Langbrók hafi flutt verkbókhaldið yfir í nýtt tímaskráningarkerfi, Harvest, og þetta af vangá staðið út af. Karen hefur áður sinnt ýmsum almannatengslum og var einnig framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar árin 2018-2021.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert