Landrisið gæti hafa stöðvast og gosið virðist eflast

Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst 16. mars.
Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst 16. mars. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að svo virðist vera sem virkni í eldgosinu við Sundhnúkagígaröðina hafi aukist í nótt og merki séu um að landris hafi stöðvast.

„Mér sýnist hafa bætt aðeins í gosið í nótt. Neðra geymsluhólfið er orðið fullt og þá fer það kvikumagn sem var að flæða inn í það bara beint upp,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Þorvaldur segir að kvikuflæðið úr dýpra geymsluhólfinu hafi hingað til skipst um það bil til helminga milli grynnra kvikuhólfsins og eldgossins og því fari nú flæðið úr þremur rúmmetrum á sekúndu upp í fimm til sex rúmmetra á sekúndu.

Landris hætt og grynnra hólfið fullt

„Mér sýnist að landrisið sé hætt. Það er augljóst að grynnra geymsluhólfið er orðið fullt og getur ekki tekið við meiru nema það bresti.“

Þorvaldur segist sjá fyrir sér tvær sviðsmyndir. Önnur sé sú að flæðið fari annað hvort framhjá eða gegnum grynnra geymsluhólfið og það fari ekkert að streyma úr því. Gosið haldi því áfram sínum dampi.

Hann segir að ef þessi sviðsmynd gangi eftir þá verði ekkert landsig í Svartsengi og að kvikan kólni og storkni.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. mbl.is/Arnþór

Gæti haldist opin

Hin sviðsmyndin að mati Þorvaldar er sú að gosrásin gæti haldist opin og gígaröðin lengst. Hann segir að ef þessi atburðarás gerist þá ætti að verða landsig á næstu dögum.

Eldgosið hefur nú staðið yfir frá því 16. mars og er magn kviku sem bæst hefur við kvikuhólfið frá því gosið hófst komið yfir tíu milljónir rúmmetra. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið frá Svartsengi þegar hún hefur verið á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert