Vantar fólk: „Þetta er gaman en það er ekki nóg“

Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Hérastubbs í Grindavík.
Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Hérastubbs í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldsumbrotin og náttúruhamfarirnar í og við Grindavík hafa svo sannarlega sett strik í reikninginn varðandi rekstur fyrirtækja í Grindavík.

Hérastubbur bakarí er fjölskyldufyrirtæki í Grindavík sem Sigurður Enoksson og faðir hans, Enok Bjarni Guðmundsson, opnuðu árið 1995.

Sigurður, sem spjallaði við mbl.is í bakaríinu, hefur nokkrum sinnum þurft að skella í lás og segir óljóst með áframhaldandi rekstur síns fyrirtækis miðað við óbreytt ástand.

„Síðasta hálfa mánuðinn höfum við reynt að vera með bakaríið opið en þetta er ekki alveg að gera sig. Það vantar fleira fólk inn í bæinn og að hann verði opnaður. Að öðrum kosti þarf ég væntanlega að skella í lás fyrir fullt og allt,“ segir Sigurður.

Kveðst hann hafa reynt eftir fremsta megni að halda starfseminni gangandi í Grindavík en hafa neyðst til að loka bakaríinu trekk í trekk. Fyrir tveimur vikum síðan gerði hann fjórðu tilraunina til að opna en þá hafði verið lokað síðan í febrúar.

Þetta þarf að borga sig

„Það var ekkert í boði annað en að loka þar sem það var ekki kjaftur í bænum. En ég tók þá ákvörðun í byrjun maí að opna bakaríið á nýjan leik. Það gefur manni svo mikið að koma hingað og baka. Þetta er gaman en það er ekki nóg. Þetta þarf að borga sig,“ segir Sigurður.

Hann segir skorta meira upplýsingaflæði og kallar eftir meira aðgengi að bænum. Hann segir sitt fyrirtæki og fleiri í bænum vilja opna bæinn fyrir fólki og ferðamönnum.

„Við erum ekkert að kveinka okkur en það þarf eitthvað að gera svo allir verði sáttir. Ég hef sagt það og ég segi það aftur. Fólkið sem skuldar ekkert – það er ekkert gert fyrir það. Ég skil það vel að það sé verið að hjálpa þeim sem skulda en við eigum öll að vera jöfn.“

Þrír starfsmenn en voru þrettán

Hérastubbur bakarí er opið frá klukkan 7-13 alla daga og segir Sigurður að það komi 20-30 viðskiptavinir á dag. Hann segist einnig baka fyrir fyrirtæki í Reykjavík en kaffihús í höfuðborginni hafa verslað við hann. Í dag starfa aðeins þrír í bakaríinu að honum meðtöldum en alls voru 13 við störf áður en náttúruhamfarirnar hófust.

Sigurður og fjölskylda hans leigja íbúð í Kópavogi en húsnæði þeirra í Grindavík varð fyrir skemmdum í jarðhræringunum miklu í nóvember. Hann reiknar með því að fara í uppkaup í næsta mánuði en fjölskyldan flutti frá Grindavík þegar bærinn var rýmdur hinn örlagaríka dag 10. nóvember.

„Við fluttum fyrst til systur konu minnar í Reykjavík þar sem við vorum í fimm vikur en síðan fengum við boð um leiguíbúð í Kópavogi þar sem við höfum verið síðan,“ segir bakarameistarinn, sem dvelur í leiguhúsnæðinu ásamt eiginkonu sinni og yngsta syni þeirra.

Sigurður verður á Emirates-leikvanginum í Lundúnum á sunnudaginn þar sem …
Sigurður verður á Emirates-leikvanginum í Lundúnum á sunnudaginn þar sem hann vonast til þess að hans menn hampi Englandsmeistaratitlinum. AFP

Heldur í vonina um að Arsenal verði meistari

Bakarameistarinn á sér fleiri áhugamál en bakstur og þar kemur fótboltinn sterkur inn. Sigurður er formaður Arsenal-klúbbsins á Íslandi og hann ætlar að vera á Emirates-leikvanginum í London á sunnudaginn þegar hans menn í Arsenal taka á móti Everton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar. Sigurður er ársmiðahafi og fer reglulega á leiki sinna manna.

Arsenal heldur í veika von um að hampa Englandsmeistaratitlinum en fyrir lokaumferðina eru „Skytturnar“ tveimur stigum á eftir ríkjandi meisturum Manchester City sem mætir West Ham á heimavelli á sama tíma.

„Miði er möguleiki,“ segir Sigurður, spurður hvort hann geri sér vonir um að Arsenal vinni sinn fyrsta meistaratitil í 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert