Aðalfundur nýstofnað Veiðifélags Stóru–Laxár samþykkti í lok apríl nýja nýtingaráætlun fyrir vatnasvæðið. Þar er stöngum fjölgað um tvær og veiðitími framlengdur til 15. október með rannsóknarveiðum út sama mánuð.
Í nýtingaráætluninni sem send hefur verið Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu kemur einnig fram að ein silungastöng fylgi hverri jörð og heimilt sé að veiða silung frá 1. apríl og fram til 1. júní.
Við þetta bætist rannsóknaáætlun sem miðar að því að hægt verði að veiða til rannsókna fram til loka október. Í rannsóknaráætlun sem unnin hefur verið fyrir veiðifélagið kemur fram að æskilegt sé að stunda vísindaveiðar út október og taka stikkprufur í nóvember til að meta betur „hrygningartíma þessa seint hrygnandi hluta stofnsins. Æskilegt væri að taka stikkprufur í nóvember til að kanna ástandið þá og einnig að kanna hrygningu á efri svæðum yfir sama tímabil,“ segir í rannsóknaráætlun fyrir Stóru–Laxá sem Erlendur Steinar Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur vann.
Undanfarna áratugi hefur verið veitt á tíu stangir í Stóru–Laxá. Nú verður breyting á, svo fremi að Fiskistofa samþykki nýtingaráætlunina. Farið verður í tólf stangir og verða viðbótarstangirnar tvær á svæði 5, eins og það er kallað, á efsta svæði árinnar. Orðrétt segir í nýtingaráætluninni.
„Í Stóru-Laxá eru veiðisvæðin fimm og laxaveiðistangirnar 12. Neðsta svæði, 1 og 2 er veitt saman frá landamerkjum Iðu að vestan og Litlu-Laxár að austan að Rauðuskriðum og þar eru 4 stangir. Svæði 3 er frá Rauðskriðum til og með Undirgangi og þar eru leyfðar 2 stangir. Svæði 4 nær frá og með Bláhyl að og með Gljúfraopi í Laxárgljúfrum og eru þar leyfðar 4 stangir. Gljúfrin (svæði5) ná frá Gljúfraopi að Fögrutorfu og þar eru leyfðar 2 stangir. Í Stóru-Laxá eru 0,20 laxveiðistangir á hvern km. Fjöldi silungastanga er ein stöng fyrir landi hverrar jarðar og óheimilt að færa stangir milli jarða.“
Þegar lagðar eru fram nýtingaráætlanir eins og öllum veiðifélögum ber að gera lögum samkvæmt, leitar Fiskistofa álits Hafrannsóknastofnunar áður en áætlunin er samþykkt.
Varðandi veiðitímann þá segja lög um lax– og silungsveiði að laxveiði skuli fara fram á tímabilinu frá 20. maí til 30. september á hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils. Þetta er 17. grein laganna og þar má einnig lesa að Fiskistofu er heimilt að lengja veiðitímabil í 120 daga og allt til 31. október og að heimilt sé að lengja veiðitíma um fimmtán daga á þeim svæðum þar sem öllum laxi er sleppt. Í nýtingaráætlun Veiðifélags Stóru–Laxár er vitnað til þess að öllum laxi sé sleppt og bent á umrædda sautjándu grein laganna.
Aðalfundurinn var haldinn 29. apríl og þar voru einnig samþykktar samþykktir félagsins. Veiðifélag Stóru–Laxár er því formlega stofnað en eins og Sporðaköst greindu frá í síðasta mánuði sagði félagsskapurinn sig úr Veiðifélagi Árnesinga þar sem Stóra–Laxá var deild í því félagi en starfar nú sem sjálfstætt félag.
Leigutaki Stóru–Laxár er félag sem Finnur B. Harðarson landeigandi á svæðinu veitir forystu. Finnur hefur beitt sér af krafti í málefnum svæðisins og barist ötullega gegn því sem hann kallar „villta vesturs ástand“ víða á vatnasvæði Veiðifélags Árnesinga.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |