Súrdeigsbrauð sem allir ráða við að baka

Ómótstæðilega girnilegt súrdeigsbrauð með jalapeno og cheddarosti.
Ómótstæðilega girnilegt súrdeigsbrauð með jalapeno og cheddarosti. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Ef þú miklar fyrir þér að baka súrdeigsbrauð, þá ættir þú að prófa þessa uppskrift sem kemur úr smiðju Hönnu Thordarson keramiker Hún er einföld og góð, eina sem þú þarft að reikna með er að láta deigið hefast í 8 – 10  klukkustundir á svölum stað. Samsetning á þessu brauðið býður upp á spennandi bragðupplifun en brauðið er með jalapeno og cheddarosti. Bakaríið Brikk er með hana í einu brauða sinna og þaðan er hugmyndin að samsetningu Hönnu komin.  Brauðið bakar Hanna í leirpotti en það má líka nota pott sem þolir að vera í heitum ofni.

Gott er að hafa í huga að velja góða tímasetningu þegar baka á súrdeigsbrauðið. Upplagt er að búa til deigið að kvöldi, setja á svalan stað og baka að morgni.  Ísskápur er aðeins of kaldur fyrir það en ef það er eini svali staðurinn þá er ráð að geyma deigið við stofuhita þar til kominn er háttatími og setja það þá í kælinn. Síðan er lag að taka það svo út þegar farið er á fætur og láta deigið jafna sig við stofuhita í nokkrar klukkustundir. Hægt er að sjá myndband hér fyrir neðan hvernig Hanna bakar súrdeigsbrauðið.

Súrdeigsbrauð með jalapeno og cheddarosti

  • 100 g súrdeigsgrunnur
  • 350 g vatn (frekar kaldara en heitara og alls ekki heitara en líkamshitinn)
  • 500 g hveiti
  • 80 – 120 g cheddarostur (skorinn í bita)
  • 3 msk. jalapeno (skorið í bita)
  • 10 g gróft salt
  • 25 g vatn
  • Hveiti til að sigta yfir

Aðferð:

  1. Blandið saman súrdeigsgrunn, vatni, jalapeno og hveiti í skál með sleikju.
  2. Látið deigið látið standa aðeins, blandið síðan salti og 25 g af vatni saman við og hnoðið með blautri hendinni, hægt að sjá myndband hér.
  3. Setjið deigið í box með loki og látið standa í 8 – 10 klukkustundir á svölum stað.
  4. Hvolfið boxinu á hveitistráð borð og látið deigið falla á borðið. 
  5. Dreifið cheddarostbitum yfir hér og þar.
  6. Mótið brauðkúlu.
  7. Hitið ofninn í 250°C (yfir- og undirhiti), látið leirpottinn hitna með ofninum.
  8. Setjið brauðkúluna í pottinn og lokið á, bakið í 30 mínútur.
  9. Takið lokið af og bakið brauðið í 15 mínútur til viðbótar.
  10. Takið brauðið úr pottinum og látið kólna aðeins áður en þið er skerið það og njótið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert