„Ég reyni að ögra sjálfri mér og geri allt það sem gerir mér gott“

Hildur er ótrúlega hæfileikarík ung kona.
Hildur er ótrúlega hæfileikarík ung kona. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Kaldalóns lifir og hrærist í listinni. Hún er hæfileikarík á mörgum sviðum og nýtur sín hvergi betur en í skapandi umhverfi. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hildur, sem fagnaði 22 ára afmæli sínu nýverið, tekið þátt í þó nokkrum sviðsuppfærslum, talað inn á teiknimyndir, bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndir, stigið ballettspor og hannað og saumað óteljandi flíkur. Sköpunargleði Hildar á sér engin takmörk og segir hún það frelsandi tilfinningu að fá að tjá hugmyndir sínar og hugsjónir á ýmsan máta. 

„Allt frá blautu barnsbeini hef ég haft mikla þörf fyrir að skapa. Ég var sífellt syngjandi og dansandi sem krakki, dansaði og söng heima í stofu og bara hvar sem er. Móðir mín ákvað því að skrá mig í ballett, það var byrjunin á þessu öllu saman.“

„Í kjölfarið fór boltinn að rúlla“

Hildur hefur talsett teiknimyndir frá unga aldri og segir það virkilega gaman. „Ég byrjaði ung í leiklist og fékk fljótlega mikinn áhuga á talsetningu eða um leið og ég áttaði mig á því að alvöru fólk væri að tala fyrir persónurnar á sjónvarpsskjánum,“ segir Hildur og hlær. 

„Fyrsta hlutverkið datt óvænt upp í hendurnar á mér þegar ég var aðeins átta ára gömul. Ég var hluti af hópi stúlkna sem var fenginn til að syngja upphafslagið fyrir bandarískan barnaþátt, titlaður Super Sproutlet Show, en hann var einskonar „spin-off“ af Latabæ en náði aldrei sömu vinsældum. 

Hildur er mögnuð söngkona.
Hildur er mögnuð söngkona. Ljósmynd/Aðsend

Um leið og tökum á laginu lauk var ég beðin um að talsetja eina senu þar sem upprunalega hljóðupptakan hafði klúðrast. Handritið var á ensku og ég skildi ekki eitt orð af því sem ég átti að segja en mér tókst einhvern veginn að talsetja senuna. 

Ég heillaðist fljótt af þessu listformi og endaði á að fara á talsetningarnámskeið hjá Stúdíó Sýrlandi og var fljótlega boðuð í prufu. Í kjölfarið fór boltinn að rúlla. Ég var með mjög skræka rödd, alveg fullkomna til að talsetja barnaefni,“ útskýrir Hildur. Í gegnum árin hefur hún talsett barnaþætti á borð við Vinabæ Danna tígurs, Nellý og Nóru, Kartöflukrílin, KiokuTöfratú og Finnboga og Felix. „Það var algjör draumur að fá að talsetja Finnboga og Felix, þátturinn hefur lengi verið í miklu uppáhaldi.“

„Ég reyni að ögra sjálfri mér“

Hildur segist alltaf hafa verið feimin og hlédræg en í gegnum sköpun hafi hún fengið einstakt tækifæri til að kynnast sjálfri sér og upplifa aðra hlið. 

„Listin hefur gefið mér nýtt líf. Ég er allt önnur manneskja þegar ég fæ tækifæri til að tjá mig á listrænan máta. Fyrir mér er þetta útrás, alveg nauðsynlegur hluti lífsins. Ég reyni að ögra sjálfri mér og geri allt það sem gerir mér gott.“

Hildur fór með hlutverk í sýningunni We Will Rock You …
Hildur fór með hlutverk í sýningunni We Will Rock You sem var sýnd í Háskólabíói. Ljósmynd/Aðsend

Hildur er nýbyrjuð að talsetja aftur eftir nokkurra ára hlé. 

„Þetta var í raun ekki mín ákvörðun. Ég var einfaldlega orðin of gömul til að túlka krakkakarakterana sem ég hafði lengi ljáð rödd mína. Ég eltist og röddin líka en á þessum ákveðna tímapunkti treysti ég mér ekki til að yngja upp röddina til að hljóma eins og ég gerði í byrjun. 

Pásan gerði mér gott. Ég fékk tækifæri til að þjálfa upp hæfileikann og uppgötva ýmsa nýja hluti. Ég tók meðal annars þátt í öllum nemendasýningum Verzlunarskóla Íslands, fór á fullt að hanna boli sem ég sel í gegnum samfélagsmiðla, skráði mig í Söngskóla Sigurðar Demetz og bætti ýmsu í bunka áhugamála.

Um þessar mundir er ég að sýna söngleikinn Oklahoma ásamt samnemendum mínum úr Söngskóla Sigurðar Demetz. Við frumsýndum verkið þann 8. maí síðastliðinn á Nýja sviði Borgarleikhússins og hvet ég að sjálfsögðu alla til að mæta.“

Hvað varð til þess að þú byrjaðir aftur að talsetja?

„Sko, áhuginn var alltaf til staðar og mig langaði alltaf að byrja aftur. Ég fékk ákveðna hugljómun þegar ég fór í bíó á mynd sem að kærastinn minn talaði inn á og ákvað í framhaldi að senda póst á talsetningarfyrirtæki og minna á mig, sem ég gerði. 

Ég var beðin um raddsýnishorn og sendi inn stutt hljóðbrot af mér að stæla raddir teiknimyndamæðgnanna Marge og Lisu Simpson úr hinni sívinsælu bandarísku þáttaröð The Simpsons. Nokkrum mánuðum seinna var ég boðuð í prufu og var svo heppin að hreppa hlutverkið,“ útskýrir Hildur. 

„Það er líka gaman að segja frá því að margir telja að það sé ég sem tala fyrir Lisu Simpson í The Simpsons Movie frá árinu 2007 en það var leikkonan Álfrún Örnólfsdóttir sem talsetti karakterinn. Ég var bara fimm ára gömul þegar kvikmyndin kom út,“ segir hún og hlær.

@hildurkaldalons

Grísinn dátt, galar kátt, grenitrénu uppí hátt. Getur hann prílað í trjám? auðvitað ekki, hann er grís..... hann eeeeeer samt algjör ofurgrís

♬ original sound - Hildur Kaldalóns

„Það varð ákveðinn vendipunktur“

Hildur upplifir sig öruggari í dag og leyfir sér að hafa gaman og njóta. 

„Þegar ég var yngri var ég mjög hrædd við að gera mistök og upplifði mig oft sem aðhlátursefni. Þessar hugsanir eru enn til staðar en ég er ekki jafn dómhörð við sjálfa mig og ég var á tímabili.

Í dag leyfi ég mér að gera mistök, enda mannlegt að gera mistök, og kýs að hlæja og hafa gaman af þeim. Það varð ákveðinn vendipunktur hjá mér þegar ég áttaði mig á þessu.“

Hildur hannar undir merkinu Kadalo Collections.
Hildur hannar undir merkinu Kadalo Collections. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerist á talsetningardögum?

„Ég er yfirleitt að talsetja fyrir hádegi og reyni að fara á fætur tveimur tímum áður en tökur hefjast. Ég drekk mikið vatn og hita röddina vel upp svo hún sé tilbúin í að tækla verkefni dagsins.

Í tökum er ég bæði með heitt og kalt vatn hjá mér sem ég drekk á milli taka til að koma í veg fyrir að röddin verði rám. Það getur tekið á að að tala með breyttri rödd í tvo tíma samfleytt. Þrátt fyrir það eru talsetningardagar mjög góðir fyrir mig þar sem ég drekk aldrei jafn mikið vatn og á þeim dögum.“

Hver finnst þér vera besti talsetjari á Íslandi?

„Sigríður Eyrún Friðriksdóttir leik- og söngkona er algjörlega frábær talsetjari.  Ég hef verið mjög heppin að fá að vinna með henni í ýmsum verkefnum, bæði í talsetningu og öðru. Sigga Eyrún er ekki aðeins frábær talsetjari heldur einnig frábær „raddmamma“, ég hef lært mjög mikið af henni.

Ég verð líka að nefna Felix Bergsson og Þórhall Sigurðsson, algjörar goðsagnir í íslenska talsetningarheiminum,“ segir Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál