Sola hættur eftir óvænt tap

Vlado Sola er hættur.
Vlado Sola er hættur. AFP/PETER KNEFFEL

Vlado Sola, landsliðsþjálfari Svartfellinga í handbolta, sagði starfi sínu lausu eftir tap gegn Ítölum í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ítalir eru á leið á sitt fyrsta heimsmeistaramót síðan í Kumamoto í Japan árið 1997.

Ítalir lögðu Svartfjallaland í tvígang í undankeppninni, fyrri leiknum lauk með sex marka sigri Ítala á heimavelli þeirra og þeir unnu aftur í gær í Podgorica, 34:32.

Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Svartfellinga sem áttu gott Evrópumót þar sem þeir töpuðu með einu marki gegn Íslandi og unnu Serba. Sola fékk nýjan samning eftir mótið en hann hætti störfum strax að leik loknum í gær.

„Ég á alla sök á þessu tapi, allt sem fór úrskeiðis er mér að kenna. Ég átti engin svör,“ sagði Sola og sagði starfi sínu lausu á blaðamannafundi eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert