Afturelding mætir FH í úrslitum

Jakob Aronsson og Alexander Petersson eigast við í þriðja leik …
Jakob Aronsson og Alexander Petersson eigast við í þriðja leik liðanna í Mosfellsbæ. mbl.is/Eyþór Árnason

Afturelding vann Val 29:27 í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld en leikið var á Hlíðarenda. Það verða því FH og Afturelding sem mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla. 

Valsmenn byrjuðu fyrri hálfleik af krafti og náðu fljótlega undirtökunum í leiknum. Eftir 11 mínútna leik var munurinn fimm mörk í stöðunni 8:3 en þá tóku Mosfellingar leikhlé enda mikill vandræðagangur í leik þeirra. 

Valsmenn náðu að halda Aftureldingu í baksýnisspeglinum mest allan fyrri hálfleikinn en í stöðunni 11:5 komu fjögur mörk í röð frá Mosfellingum sem breyttu stöðunni í 11:9 og munurinn aðeins tvö mörk. 

Þá tóku Valsmenn aftur við sér og náðu að auka muninn aftur í þrjú mörk áður en hálfleikurinn kláraðist. Staðan 14:11 í hálfleik. 

Markahæstir í liði Vals í fyrri hálfleik voru þeir Agnar Smári Jónsson og Benedikt Gunnar Óskarsson með þrjú mörk hvor. Í liði Aftureldingar Ihor Kopyshynskyi með 4 mörk í fyrri hálfleik. 

Markverðirnir áttu báðir frábæran fyrri hálfleik en Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot fyrir Val, þar af öll 3 vítin sem skotin voru á hann í hálfleiknum. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 7 skot, þar af eitt vítaskot sem var það eina sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik. 

Mosfellingar mættu dýrvitlausir í síðari hálfleikinn og skoruðum þrjú fyrstu mörkinn og jöfnuðu i stöðunni 14:14. Þeir unnu síðan boltann og fengu tækifæri til að komast yfir en það tókst ekki og náðu Valsmenn aftur forystunni í stöðunni 15:14 með sínu fyrsta marki í síðari hálfleik. 

Valsmenn leiddu síðan leikinn með einu marki á meðan Mosfellingar jöfnuðu jafnóðum allt þangað til í stöðunni 21:21 og 12 mínútur eftir af leiknum þá náði Afturelding forystu í leiknum 22:21 og 23:21. Allt í einu voru Valsmenn byrjaðir að elta í leiknum.

Afturelding náði undirtökunum í leiknum og þegar 4 mínútur og 30 sekúndur voru eftir var staðan 26:23 fyrir Aftureldingu og Mosfellingar með boltann.

Mosfellingar misstu boltann og í kjölfarið komu tvö mörk í röð frá Valsmönnum og staðan 26:25. fyrir Aftureldingu. Valsmenn unnu boltann og fengu tækifæri til að jafna leikinn en misstu boltann eftir klaufalega sendingu. Það notfærðu Mosfellingar sér og náðu aftur tveggja marka forskoti í stöðunni 27:25 og 2 mínútur og 25 sekúndur eftir. Valsmenn misstu aftur boltann og Ihor Kopyshynskyi skoraði fyrir gestina. Staðan 28:25 fyrir Aftureldingu. 

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og jafna en það tókst ekki. Fór svo að Afturelding vann að lokum frækin tveggja marka sigur eftir að hafa elt Val nánast allan leikinn. 

Tjörvi Týr Gíslason og Benedikt Gunnar Óskarsson voru markahæstir í liði Vals með 5 mörk. Í liði Aftureldingar var Ihor Kopyshynskyi með 9 mörk. 

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæran dag og varði 17 skot, þar af 4 vítaskot og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 10 skot í marki Aftureldingar, þar af eitt vítaskot. 

Valsmenn hafa þó enn möguleika á titli, sjálfum Evrópubikarnum í handbolta en þeir mæta Olympiakos í fyrri úrslitaleiknum á laugardag.

Valur 27:29 Afturelding opna loka
60. mín. Árni Bragi Eyjólfsson (Afturelding) skýtur yfir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert