„Waku waku“ í vínhöfuðborg heimsins

Það er ekki að ástæðulausu að Suzuki Swift er í …
Það er ekki að ástæðulausu að Suzuki Swift er í hópi vinsælustu smábíla. Framsætin eru nokkuð rúmgóð en aftursætin ekki heppileg fyrir langan akstur með hávaxna farþega. Þóroddur Bjarnason

Blaðamaður fékk á dögunum tækifæri til að svífa seglum þöndum á splunkunýjum, liprum og léttum Suzuki Swift í uppsveitum Bordeaux í Frakklandi, vínhöfuðborgar heimsins eins og henni er lýst á Wikipediu.

Leiðin lá um hverja vínekruna á fætur annarri en enginn tími gafst þó til að bregða sér í vínsmakk í þetta skiptið enda hefði það líklega ekki farið nógu vel saman með akstrinum.

Þar sem ég ók um sveitirnar voru bændur víða á fjórum fótum í moldinni að búa vínviðinn undir vorið og sumarið. Þeir sinntu honum af mikilli natni enda mikilvægt að tryggja að vínþrúgurnar, sem tíndar eru af trjánum á haustin, verði sem safaríkastar og bragðbestar þegar fullum þroska er náð.

Það er ekkert að því að segja að Swiftinn hafi verið sem eðalvín í akstri á frönsku götunum, a.m.k. miðað við bíl í hans verð- og stærðarflokki; flauelsmjúkur og fallegur á litinn. Það sem strax vakti einnig athygli við bifreiðina var furðugott innrarými og höfuðpláss en skiljanlega í smábíl eins og þessum er plássið fyrir fullvaxna karlmenn af aðeins skornari skammti aftur í en frammi í. Veghljóð var ásættanlegt en ekki var ekið á hraðbrautum heldur misgóðum sveitavegum. Sætin gefa góðan bakstuðning og eru sportleg að auki.

Níu tommu upplýsingaskjárinn var ágætur en ekki sá flottasti sem ég hef séð. Í bílnum er þó hægt að nota Apple Car Play og Android Auto án vandkvæða og miðstöðvarstjórnun er í tökkum fyrir neðan skjáinn.

Ágætt geymslupláss er á miðsvæði milli sæta og pláss þar fyrir tvö glös auk þess sem hægt er að setja flöskur í hurðir.

Segja má að liturinn á bílnum sem ég fékk úthlutaðan hafi verið í góðum stíl við glansandi bláar vínberjaþrúgur héraðsins en fullu nafni heitir hann Frontier Blue Pearl Metallic og er nýr frá framleiðandanum. Aðrir litir voru einnig í boði, misvinsælir meðal blaðamanna. Þar á meðal rjómagulur, eða Cool Yellow Metallic, og sex litir aðrir auk fjögurra tvílitra bíla. Lakkið er borið á í þremur lögum sem eykur dýpt litanna.

Suzuki Swift hefur lengi notið vinsælda á Íslandi og á síðasta ári var hann annar vinsælasti bíll framleiðandans á eftir Suzuki Jimny en 144 Suzuki-bílar seldust á Íslandi í fyrra.

Sjálfvirk hraðastýring og annar öryggisbúnaður aðstoðar ökumann.
Sjálfvirk hraðastýring og annar öryggisbúnaður aðstoðar ökumann. Þóroddur Bjarnason

Öruggari og mengar minna

Á kynningarfund var mætt stór sendisveit frá Japan, þar á meðal maður að nafni Koichi Suzuki, sem mér þótti mjög traustvekjandi. Ekki er þó hægt að slá því föstu að hann sé í hinni eiginlegu Suzuki-bílaætt enda er nafnið annað vinsælasta eftirnafnið í Japan og 1,75 milljónir manna sem bera það.

Koichi hljóp á nokkrum staðreyndum. Hann sagði viðstöddum að Suzuki-fyrirtækið hefði verið stofnað árið 1920 og þar ynnu í dag 70 þúsund starfsmenn. Ársveltan væri 4,6 trilljónir jena, eða tæplega 4.300 milljarðar íslenskra króna. Söluspáin fyrir árið í ár væri 3,1 milljón ökutæki.

Í Evrópu seldust 221 þúsund Suzuki-bílar í fyrra. Mest af Vitara, þá S-Cross og svo Swift. Aðrir seldust minna. Samtals hafa níu milljón Swift bílar selst frá upphafi í heiminum.

Kochi sagði okkur frá kolefnisstefnu félagsins sem stefnir að því að verða hlutlaust að þessu leyti í Evrópu og Japan árið 2050 og árið 2070 í Indlandi, en þetta eru þrjú helstu markaðssvæðin. Koichi bætti við að nýi bíllinn hentaði vel menntuðu barnafólki í stórborgum. Forsvarsmenn Suzuki telja að nýja módelið muni laða að enn fleiri viðskiptavini en fyrri útgáfur hafa gert, enda sé bíllinn öruggari og akstursupplifunin betri. Þá mengi hann minna og sé með nýrri aflrás.

Búið er að koma enn sparneytnari vél fyrir undir húddinu
Búið er að koma enn sparneytnari vél fyrir undir húddinu Þóroddur Bjarnason

Gleði á götunum

Hönnuðurinn Masao Kobori sagði á kynningunni að þetta væri fjórða kynslóð af Swift og miðaði þá við að sú fyrsta hefði komið 2004. Suzuki miðar við það ár því þá var vörumerkið fyrst notað í Japan en Suzuki Swift á sér mun lengri sögu í Evrópu.

Hönnunarforsenda var að bíllinn framkallaði „waku waku“-tilfinningu, eða „gaman gaman“. Hann hjálpaði manni að upplifa heiminn með eigin augum. Aksturinn ætti þannig alltaf að vera spennandi ævintýri. Því er eiginlega ekki hægt að mótmæla.

Markhópur nýja Swiftsins eru þeir sem vilja þægilegt innrarými, hvort sem þeir eru einir á ferð eða með félaga. Fólk sem notar bíla daglega, opnar samfélagsmiðla reglulega, hefur dálæti á hönnun og kann að meta stíl sem getur endurspeglað persónuleika þess.

Góð upplifun er einnig lykilatriði hér; léttleiki, gott grip á veginum og góð stýring.

Í bílnum er hraðastýring (þ.e. cruise control) sem eltir næsta bíl á undan og hefur lágmarksbil á milli bíla á 120 km hraða á klukkustund verið minnkað um 15% í þessum nýja bíl og hámarksbil um 30%. Þá hægir bifreiðin sjálfkrafa á sér í beygjum og er með veglínutækni sem hefur einnig fengið yfirhalningu frá síðasta módeli.

Farþegarýmið er vel heppnað og skemmtilegt áklæði á sætunum.
Farþegarýmið er vel heppnað og skemmtilegt áklæði á sætunum. Þóroddur Bjarnason

Heppilegur í snatt og skutl

Christiano Zanot útlitshönnuður segir að markmiðið hafi verið að fólk yrði yfir sig hrifið af útliti bílsins og sagði hann frá því hve mikið púður hefði verið sett í leitina að hinu hárrétta útliti, þó svo að við fyrstu sýn sjái maður ekki stórkostlegar breytingar á milli þriðju og fjórðu kynslóðar.

Áklæðið á bílnum er með góðri áferð og fallegum smáatriðum. Tveir litatónar eru ráðandi í innrarými bílsins og í sætunum.

Bílinn lét almennt vel að stjórn og varð maður lítið var við hið svokallaða Mild Hybrid-kerfi sem bíllinn er búinn. Kerfið er rafhlaða sem veitir þriggja strokka og 1.200 rúmsentimetra vélinni stundum smá stuðning. Swiftinn minn var beinskiptur en sjálfskipting er einnig í boði.

Mér fannst bíllinn þægilegur, stílhreinn og aðlaðandi og ætti að henta vel í íslenskt snatt, skutl og hvers konar útréttingar innanbæjar sem utan.

Farangursrýmið er 265 lítrar en stækkar í 589 með sætin …
Farangursrýmið er 265 lítrar en stækkar í 589 með sætin felld niður. Þóroddur Bjarnason

Nýr Suzuki Swift

Afl: 82 hestöfl þar af 3 frá rafmótor/108 Nm

Gírkassi: 5 gírar / CVT sjálfskipting

Drægni: 4,4 l/100 km (WLTP)

Heildarþyngd: 949 kg

Lengd: 3.860 mm

Breidd: 1.735 mm

Hæð: 1.495 mm

Farangursrými: 265 l

Umboð: Suzuki bílar hf.

Verð liggur ekki fyrir

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: