Annar uppljóstrari tengdur Boeing látinn

Boeing 737 MAX þota.
Boeing 737 MAX þota. AFP/Jason Redmond

Joshua Dean, fyrrverandi gæðaeftirlitsmaður hjá Spirit AeroSystems, sem framleiðir íhluti fyrir Boeing, lést þriðjudagsmorgun 45 ára að aldri. Var hann einn sá fyrsti til að saka yfirmenn Spirit um að hundsa alvarlega galla við framleiðslu á 737 MAX þotunni.

Dean, sem hafði verið við góða heilsu og þekktur fyrir að lifa heilbrigðu líferni, lést nokkuð skyndilega vegna sýkingar sem var fljót að breiðast. Hafði hann legið þungt haldinn á spítala í tvær vikur áður en sýkingin dró hann til dauða.

Seattle Times greinir frá.

Er þetta í annað sinn á skömmum tíma sem uppljóstrari í tengslum við framleiðslugalla á Boeing 737 MAX þotunni lætur lífið. Í mars fannst John Barnett, sem starfaði fyrir Boeing í 32, látinn. Hafði hann vakið athygli á ýmsum vanköntum er vörðuðu gæðamál. Er Barnett sagður hafa framið sjálfsvíg.

Alvarlegt og gróft misferli

Áður en Dean lést hafði hann gefið vitnisburð í lögsókn gegn Spirit og auk þess lagt fram kvörtun til bandarískra flugmálayfirvalda um „alvarlegt og gróft misferli af hálfu gæðastjórnar yfir 737 framleiðslulínunni“ hjá Spirit.

Fyrrverandi gæðaeftirlitsmaðurinn var rekinn frá Spirit í apríl á síðasta ári.

Dean, sem taldi uppsögnina ólögmæta og til þess gerða að hefna fyrir það að hann skyldi vekja athygli á hugsanlegum öryggisbrestym, lagði í kjölfarið fram kvörtun til vinnumálaeftirlitsins.

Lá þungt haldinn

Carol Parsons, frænka Dean, sagði frænda sinn hafa farið á sjúkrahús í Wichita, þar sem hann bjó, vegna öndunarerfiðleika fyrir tveimur vikum. Hann var settur í öndunarvél og fékk síðar lungnabólgu og alvarlega bakteríusýkingu.

Ástand hans fór hratt versnandi og var hann fluttur með þyrlu frá sjúkrahúsinu í Wichita á aðra heilbrigðisstofnun í Oklahoma skömmu eftir að hann var lagðuðr inn.

Dean lá þungt haldinn í tvær vikur áður en hann lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert