Mútuðu japanskri mafíu

Baltasar og tökulið hans lentu í ýmsum ævintýrum í Japan. …
Baltasar og tökulið hans lentu í ýmsum ævintýrum í Japan. Hér sést hann með leikkonunni Kōki sem er stórstjarna í heimalandinu. Ljósmynd/Lilja Jóns

Eftir að hafa barist í gegnum vorslydduna fann blaðamaður réttan inngang í RVK Studios í Gufunesi þar sem hans beið leikstjórinn Baltasar Kormákur. Tilefnið var að ræða um Snertingu, nýjustu kvikmynd Baltasars sem frumsýnd verður hér á landi 29. maí. Sagan er hugarfóstur Ólafs Jóhanns Ólafssonar en saman unnu þeir Baltasar að kvikmyndahandritinu eftir samnefndri bók. Aðalhlutverk eru meðal annars í höndum Egils Ólafssonar og Pálma Kormáks, sonar Baltasars, en Pálmi átti þar frumraun sína í leiklist. Baltasar getur ekki beðið eftir að sýna Snertingu sem hann segir dramatíska ástarsögu með dassi af húmor.

Að díla við mafíuna

Baltasar segir tökur hafa gengið vel, en þær fóru fram í Japan, á Englandi og Íslandi.

Spurður hvort eitthvað hafi komið á óvart eða farið úrskeiðis segir Baltasar frá því að það hafi komið á óvart hversu erfitt hafi verið að taka upp í Tókýó. Hann segir þau hafa verið búin að skipuleggja fjölda tökustaða en þegar til kom gekk ekkert upp.

Egill Ólafsson leikur eitt aðalhlutverka í Snertingu sem frumsýnd verður …
Egill Ólafsson leikur eitt aðalhlutverka í Snertingu sem frumsýnd verður þann 29. maí. Ljósmynd/Baltasar Breki Samper

„Við þurftum að byrja alveg upp á nýtt. Þetta er ein erfiðasta borg sem ég hef skotið í. Það má hvergi setja þarna niður þrífót. Við vorum að taka upp í einhverju mafíósahverfi og þurftum að díla við mafíuna,“ segir hann og hlær.

Þurftuð þið að múta þeim?

„Já, já, þeir eiga þessi hverfi. Við þurftum að borga,“ segir hann kíminn.

„Svo voru þessi inniskóamál; maður þurfti nýja inniskó til að fara á klósett og aðra til að fara eitthvað annað. Inniskóareglurnar þeirra eru eitthvað það flóknasta sem ég hef lent í á ævinni,“ segir Baltasar.

„Það þýðir ekkert að brussast inn á parketið á Timberlandinu,“ segir hann og hlær.

Fleiri hindranir urðu á vegi Baltasars og tökuliðsins í Japan, en ein sena gerist um borð í hraðlest; svokallaðri Bullet train sem þeysist á milli Tókýó og Hírósíma á ofsahraða.

„Við þurftum að stelast til að taka upp í „Bullet train“ því það var vonlaust að fá leyfi. Við tókum upp í einum klefanum með verði sitt hvorum megin til að vakta. Svo var bara allt rifið upp úr töskum; vélar, batterí og ljós, og svo skotið. Þetta var eina leiðin,“ segir hann og segir þau hafa æft allt vel fyrir fram.

„Birtan er svo erfið í lestinni en þar eru halógenljós í loftinu. Við þurftum líka að hylja þau með svörtu teppi, fleiri metra langt,“ segir Baltasar og segir hafa verið mikinn hasar að ná þessu skoti.

Áttu von á lögsókn frá Japan?

„Nei, ég held ekki. Nema þeir lesi Moggann,“ segir hann og hlær.

Ítarlegt viðtal er við Baltasar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert