Hvetja fólk til að velja heilbrigðari kosti

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærni …
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærni hjá Krónunni, kynntu Heillakörfuna í Nýsköpunarvikunni. Ljósmyndari/Rúnar Kristmannsson

„Markmiðið er að einfalda viðskiptavinum okkar að fá yfirsýn yfir kaupvenjur sínar og vonandi vekja þau til umhugsunar hvort það séu einhver tækifæri til að versla meira lífrænt umhverfisvænt, umbúðarlaust og svo framvegis,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri Krónunnar í samtali við mbl.is um nýja lausn í snjallforriti Krónunnar sem ber heitið Heillakarfan. 

Í Heillakörfunni geta viðskiptavinir safnað stigum með vali á vörum sem uppfylla sjálfbærari og heilbrigðari neysluhætti. Um er að ræða nýsköpunarverk sem Krónan kynnti í Nýsköpunarvikunni, eða Iceland Innovation Week, í gær við góðar undirtektir að sögn Guðrúnar. 

Teymi krónunnar sem tók þátt í að kynna Heillakörfuna í …
Teymi krónunnar sem tók þátt í að kynna Heillakörfuna í Nýsköpunarvikunni. Ljósmyndari/Rúnar Kristmannsson

Festist oft í að velja sömu vörurnar 

Til útskýringar segir Guðrún Krónuna leggja mikið upp úr upplifun viðskiptavina sinna. Þannig blasi grænmeti ávallt fyrst við viðskiptavinunum þegar þeir ganga inn í búðina, börnin geta gripið sér ávöxt og svo er namminu stillt upp aftast í versluninni. 

„Þetta er allt gert til að hvetja fólk til að velja sér heilbrigðari valkosti,“ segir hún og bætir við að komið hafi verið að því að hugsa næstu skref. Þá hafi komið upp sú hugmynd að leikjavæða snjallforrit Krónunnar og hvetja þannig fólk til að skoða heilbrigðari og sjálfbærari kosti. 

Heillakarfan byggir þannig á tilteknum flokkum sem eru ákveðnir úr frá sérstökum vottunum sem ákveðnar vörur eru með. Versli fólk þessar vörur fær það stig í Heillakörfuna og getur síðan borið árangurinn saman við árangur síðasta mánaðar. Þá getur fólk jafnframt farið yfir þær vörur sem það verslaði, kannað hvaða sérmerkingar þær eru með og hvers vegna um er að ræða heilbrigðari eða sjálfbærari kost. 

„Flest okkar viljum taka betri og upplýstari ákvarðanir en valkostirnir eru ótalmargir og oftast höfum við ekki tíma til að átta okkur vel á þeim. Með þessu viljum við auðvelda fólki að taka lítil skref í rétta átt. Af því að maður festist líka svo oft í því að kaupa sömu vörurnar.“

Skoða hvort hægt sé að leikjavæða lausnina enn frekar 

Hvernig voru þessir flokkar valdir og eiga eftir að bætast við fleiri flokkar? 

„Við vildum taka eitt skref í einu, þetta er tilraunaverkefni hjá okkur, og við ákváðum svona fyrst um sinn að horfa til þátta eins og lýðheilsu, umhverfis, endurnýtingu, umbúðalaust, lífrænar merkingar og aðrar sérstakar vottanir sem ákveðnar vörur eru með,“ segir Guðrún og útskýrir að hugsunin með því sé meðal annars að hvetja fólk til að vera oftar með grænmetisrétti. 

„Þó það sé ekki nema einu sinni í viku. Því allt svona skiptir máli í stóru myndinni og getur haft áhrif.“

Er þetta aðallega hugsað til að notandinn geti skoðað þetta með sjálfum sér? 

„Við horfum á þetta sem nýsköpunarverkefni og ákveðna tilraun. Þetta er bara fyrsti fasi en við erum mjög spennt að sjá í hvaða áttir við getum farið með þetta. Hvort við getum til dæmis leikjavætt eða gert þetta meira persónusniðið og þannig hvatt fólk enn frekar til að versla umhverfisvænt og hugsa um hollustuna,“ segir Guðrún sem kveðst fagna öllum ábendingum um hvernig megi gera lausnina betri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert