Tilbreyting að vera hvött til að ferðast innanlands

Sigrún Birta hefur verið landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði síðastliðin tvö sumur.
Sigrún Birta hefur verið landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði síðastliðin tvö sumur. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Birna Steinarsdóttir, sem nýlega var kjörin formaður Ungra Vinstri grænna, hefur unnið sem landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði síðastliðin tvö sumur. Hún er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði en þar er gestastofa austurhluta Suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs einmitt staðsett. 

„Ég er ótrúlega þakklát að fá að starfa við stofnun eins og þjóðgarð í minni heimabyggð, að geta komið heim eftir nám og unnið við það sem ég er að læra er ekki sjálfsagt,“ segir Sigrún í viðtali við mbl.is. Hún leggur stund á landfræði í Háskóla Íslands. 

Hvernig var sumarið í Vatnajökulsþjóðgarði?

„Sumarið var mjög sérstakt. Það var ekki mikið að gera á sviðum sem það var mjög mikið að gera árið áður. Við reyndum þó að gera okkar besta að hafa eitthvað fyrir stafni. Skipulögðum fræðslugöngur, barnastundir og tókum þátt í ýmsum verkefnum á svæðinu. Það sem mér fannst þó standa upp úr var að við gátum gefið okkur meiri tíma per gest og þ.a.l. gefið þeim betri þjónustu.

Sigrún segist vera þakklát fyrir að geta starfað í grein …
Sigrún segist vera þakklát fyrir að geta starfað í grein tengdri náminu sínu en hún leggur stund á landfræði. Ljósmynd/Aðsend

Sumarið var þrátt fyrir þetta mjög skemmtilegt, fengum marga góða sólardaga og gerðum mikið af skemmtilegum hlutum. Minna álag vegna gesta í þjóðgarðinn gaf okkur tækifæri til að laga og breyta til í garðinum til hins betra.“

Hvað er það besta við landvarða starfið?

„Náttúran. Að fá að vinna út í náttúrunni við að vernda hana og gefa á sama tíma öðrum tækifæri til að njóta hennar er mjög gefandi. Það er einmitt það frábæra við þjóðgarða sem stofnun. Þjóðgarðar gefa okkur þetta tækifæri að bjóða fólki að njóta náttúrunnar án þess að hún verði fyrir mikilli röskun. Þeir gefa okkur líka vettvang til að fræða fólkið sem ferðast um garðinn, það er oft sem við getum frætt gestina um náttúruna og menningu svæðisins.“

En það versta?

„Það versta er að þurfa að takast á við ókurteisa gesti þjóðgarðsins sem virða engin mörk, hvorki náttúrunnar né okkar. Sem betur fer eru mjög fá tilvik um slíkt.“

Ljósmynd/Aðsend

Náðir þú að ferðast mikið í sumar?

„Já, heppilega hafði ég skipulagt mín sumarfrí fyrri part sumars. Við fjölskyldan fórum í langa helgarferð á Foss á Síðu sem eru heimaslóðir mömmu minnar. Einnig náðum við kærastinn minn að ferðast um Norður og Austurland með tjaldið og ferðagjöfina. Fórum bara þangað sem okkur langaði þann daginn. Það endaði þannig að við fórum á Egilstaði, Ásbyrgi, Siglufjörð, Hofsós, Hrísey og Borgarfjörð eystri á tæpri viku. Þræddum sundlaugar, náttúruperlur og pizzastaði. Það var æðislegt.“

Hvað stóð upp úr í sumar?

„Í vinnunni stóð upp úr allt það skemmtilega fólk sem ég hitti og spjallaði við, hvort sem ég þekkti þau fyrir eða ekki. Það var augljóst að fólk hafði áhuga á að skoða landið og var mjög áhugasamt um það.

Það var líka skemmtileg tilbreyting að vera hvött til að ferðast um Ísland þetta sumarið. Það sem stóð upp úr þar var klárlega Siglufjörður, stóðst allar væntingar og gott betur.“

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert