Ég á ekki enn Íslendinga að vinum

Skóli fyrir alla? | 18. október 2020

Ég á ekki enn Íslendinga að vinum

Ungmenni á Íslandi, og þar skiptir uppruni ekki máli, hafa áhuga á að tengjast ungmennum af öðrum uppruna vinaböndum. Aftur á móti er algengara að þau eigi vini af sama uppruna. Ungmenni af erlendum uppruna upplifa hinsvegar gjá á milli hópa og þau ná ekki þessari dýpri vináttu við íslenska samnemendur sína sem er svo mikilvæg heldur telja þau sig þurfa að samlagast. Þetta er meðal þess sem doktorsrannsóknir þeirra Anh-Dao Tran og Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur sýna fram á.

Ég á ekki enn Íslendinga að vinum

Skóli fyrir alla? | 18. október 2020

mbl.is/Hari

Ungmenni á Íslandi, og þar skiptir uppruni ekki máli, hafa áhuga á að tengjast ungmennum af öðrum uppruna vinaböndum. Aftur á móti er algengara að þau eigi vini af sama uppruna. Ungmenni af erlendum uppruna upplifa hinsvegar gjá á milli hópa og þau ná ekki þessari dýpri vináttu við íslenska samnemendur sína sem er svo mikilvæg heldur telja þau sig þurfa að samlagast. Þetta er meðal þess sem doktorsrannsóknir þeirra Anh-Dao Tran og Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur sýna fram á.

Ungmenni á Íslandi, og þar skiptir uppruni ekki máli, hafa áhuga á að tengjast ungmennum af öðrum uppruna vinaböndum. Aftur á móti er algengara að þau eigi vini af sama uppruna. Ungmenni af erlendum uppruna upplifa hinsvegar gjá á milli hópa og þau ná ekki þessari dýpri vináttu við íslenska samnemendur sína sem er svo mikilvæg heldur telja þau sig þurfa að samlagast. Þetta er meðal þess sem doktorsrannsóknir þeirra Anh-Dao Tran og Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur sýna fram á.

Þær eru báðar nýdoktorar og aðjúnktar við menntavísindasvið Háskóla Íslands og kynntu niðurstöður doktorsrannsókna sinna á Menntakviku menntavísindasvið Háskóla Íslands nýverið.

Fyrirlestur þeirra bar heitið Ég á ekki enn Íslendinga að vinum. Reynsla ungmenna af erlendum uppruna af vinatengslum. Blaðamaður mbl.is hlýddi á fyrirlestur þeirra og ræddi við þær um félagslega stöðu ungmenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. 

Vinatengsl mikilvæg og geta unnið gegn fordómum

Anh-Dao segir að í gagnrýnum fjölmenningarfræðum sé áhersla lögð á réttindi minnihlutahópa og gagnrýna sýn á samfélög og skólakerfi. Þar sé viðurkennd mismunun og staðalímyndir sem eru til staðar í samfélögum. Í gagnrýnum fjölmenningarfræðum er lögð áhersla á að vera gagnrýnin á raunveruleika og taka þátt í að umbreyta öllum birtingarmyndum fordóma og mismununar, einkum í menntastofnunum.

Eða eins og Eyrún bendir á: „Vinatengsl milli fólks af ólíkum uppruna geta aukið samkennd og unnið gegn fordómum.”

Eyrún segir að ekki séu til margar rannsóknir á þessu sviði hér á landi en þær bendi til þess að ungmenni af erlendum uppruna kjósi frekar að sækja stuðning til vina sem hafa sama uppruna og að þeim geti þótt erfitt að eignast íslenska vini.

Upplifa frekar stríðni, einelti og útilokun

Eyrún María Rúnarsdóttir en nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla …
Eyrún María Rúnarsdóttir en nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

„Þrátt fyrir að rannsóknirnar séu ekki margar vitum við samt að ungmenni af erlendum uppruna upplifa frekar stríðni, einelti og útilokun en krakkar af íslenskum uppruna. Þykir erfitt að eignast vini og þá sérstaklega íslenska vini. Þau eru líklegri til að finnast bekkjarfélagar óvinsamlegir og þar með hafi þau síður stuðning þeirra en íslensk ungmenni,” segir Eyrún. 

Rannsókn Eyrúnar er megindleg og gerð hjá aldurshópnum 14-16 ára en ungmennin hjá Anh-Dao voru eldri. Hún gerði eigindlega rannsókn í tveimur framhaldsskólum og ræddi þar við 13 nemendur af víetnömskum uppruna á aldrinum 18-25 ára. Eins tók hún viðtöl við átta kennara og fjóra stjórnendur í skólunum tveimur. 

Anh-Dao segir að viðmælendur hennar af víetnömskum uppruna hafi talað um að svo virtist sem íslenskir skólafélagar þeirra hafi lítinn áhuga á að kynnast þeim og þeir séu ekki vinalegir við fólk af erlendum uppruna. Þegar þau tali um vini þá eru íslenskir krakkar ekki þar á meðal. Anh-Dao segir að þetta hafi hún séð sjálf í heimsóknum í framhaldsskólana og hópaskiptingin sé nánast áþreifanleg.

Eyrún segir að þetta sé í samræmi við hennar gögn en samkvæmt þeim upplifa unglingar af erlendum uppruna að þau fái minni tilfinningalegan stuðning frá vinum sínum en unglingar af íslenskum uppruna. Þegar þau fái stuðning þá sé hann frá öðrum af erlendum uppruna.

„Hér skiptir ekki máli hversu lengi þau hafi búið hér á landi, því þrátt fyrir langa búsetu er gjáin enn of djúp fyrir tilfinningalegan stuðning. Þegar ég spurði þau hvort þau höfðu áhuga á að breyta þessu sagði mikill meirihluti þeirra hafa áhuga á að eignast vini frá öðrum löndum en þau eru sjálf frá,“ segir Eyrún þannig að viljann skorti ekki. 

„Heldur virðist sem það myndist einhver veggur,“ bætir hún við en tekur fram að hópurinn sem hún hafi rætt við hafi verið blandaður, það er frá mörgum löndum.

Náin vinátta skiptir svo miklu máli

Anh-Dao Tran er nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Anh-Dao Tran er nýdoktor og aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Anh-Dao segir að þeir stjórnendur og kennarar sem hún ræddi við segi þetta eðlilegt þar sem krakkarnir vilji tala saman á sínu tungumáli.

„Það truflaði mig að starfsfólki í skólum fyndist þetta eðlilegt. Að nemendahópurinn skiptist upp með þessum hætti – nemendur með íslenskan bakgrunn og hinir. Það er ekki eðlilegt fyrir krakkana með erlendan uppruna og auðveldar þeim ekki að læra íslenska tungu og kynnast íslenskri menningu. Eða eins og við vísum til í nafninu á fyrirlestri okkar á Menntakviku. Þau upplifa sig enn ekki þar. Þau hafa ekki ennþá fengið að kynnast Íslendingum sem er eitthvað sem þau vonast til að gerist,“ segir Anh-Dao.

„Náin vinátta skiptir svo miklu máli því það er þar sem þú færð raunverulegan stuðning og þá viðurkenningu sem þú þarft til þess að geta blómstrað,“ segir Eyrún.

Heyrum þetta alls staðar

Anh-Dao segir að það skorti á að tengja þessa krakka saman. „Krakkar af erlendum uppruna eiga stundum erfitt með að hafa frumkvæði að því að kynnast og á meðan þau eru ekki boðin heim til annarra krakka verður aldrei þessi mikilvæga nána tenging til sem þau svo sannarlega þurfa á að halda. Það vantar upp á að þau séu boðin velkomin,“ segir Anh-Dao.

„Við heyrum þetta alls staðar sem við komum,“ segir Eyrún og vísar þar til rannsókna sem eru unnar í skólum. „Íslenskir krakkar tala líka um þetta og þau taka eftir þessu. Eiga ekki endilega lausn á þessu og eiga heldur ekki auðvelt með að eiga við þetta ein,“ segir Eyrún og segir að það eigi heldur ekki að vera á þeirra ábyrgð einvörðungu að tengja hópa saman.

Anh-Dao segir að þrátt fyrir að talað sé um að íslenskan sé lykillinn þá er það ekkert endilega einfalt. „En svo sjáum við líka að þó þau séu komin með íslenskuna þá gengur það heldur ekki.“

Aðlögun á að vera á báða bóga

Frístundastarf og íþróttir eru oft ákveðinn aðgöngumiði þegar kemur að …
Frístundastarf og íþróttir eru oft ákveðinn aðgöngumiði þegar kemur að vináttu og tengslum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Anh-Dao vísar í rannsókn Nínu Magnúsdóttur en þar kemur fram að þrátt fyrir að þau kunni íslensku þá tryggir það ekki aðgang að íslenskum vinum.

Nína tók viðtöl við 17 stálpaða grunnskólanema, 9 framhaldsskólanema og fjóra kennara. Niðurstaðan var að íslenskan væri erfiður þröskuldur fyrir mjög marga innflytjendur, að skólar og kennarar legðu sig fram um að liðsinna innflytjendabörnum eftir megni og að nemendur sjálfir lýstu því sem stærsta þröskuldinum að eiga litla aðild að samfélagi íslenskra samnemenda sinna, líkt og ráða má af heiti meistararitgerðar Nínu: „Allir vilja eignast íslenskar vinir.“ 

Sjá nánar hér

Einn viðmælenda Anh-Dao lýsti stöðu ungmenna af víetnömskum uppruna á Íslandi: „Við komum hingað, við verðum að samlagast því hvernig fólk lifir hér. Við getum ekki haldið öllu víetnmönsku… hvernig við tölum, klæðum okkur og höfum hárið á okkur.”

„Tillagan er ekki að aðlagast heldur samlagast að breyta sér í Íslendinga. Einkenni fjölmenningarsamfélags er ekki þessi leið og þetta er ekki góð leið til að tilheyra fjölmenningarsamfélagi. Við verðum að hugsa um þetta og erum við fjölmenningarsamfélag?  Aðlögun á ekki bara að vera í aðra áttina heldur á báða bóga,“ segir Anh-Dao og bætir við: „Er það þetta sem við viljum? Að allir séu eins. Að útiloka fjölbreytileikann á sama tíma og samlögun er ekki hluti af ríkjandi stefnu á Íslandi.“

Breiður hópur af ólíkum uppruna

Eyrún segir að allaf verði að hafa í huga að um breiðan hóp af ólíkum uppruna er að ræða og alls ekki eigi að setja alla undir sama hatt. „Einstaklingsmunur er alltaf hluti af þessu. Sumir krakkar sem eru mjög opnir og félagslyndir og eiga opna foreldra eiga oft auðveldara með að komast inn í hópinn. Eins eru íþróttir og tómstundastarf ákveðinn aðgöngumiði,“ segir Eyrún.

Anh-Dao tekur undir þetta og að staða foreldra og viðhorf þeirra hafi mikið að segja. „Foreldrar sem ekki eru með góða íslenskukunnáttu eiga mjög erfitt með að hjálpa börnum sínum við námið. Ekki síst núna á Covid-tímum þar sem mikill hluti náms við framhalds- og háskóla fer fram í fjarkennslu. Eins er erfiðara fyrir þau að fá aðstoð frá kennurum. Sum þeirra geta leitað til eldri systkina sem hafa lokið námi en það á eðlilega ekki við um alla.

Foreldrarnir eru kannski heldur ekki að ýta undir það það krakkarnir taki þátt í til að mynda fótboltastarfi þar sem þau hafa ekki félagslegan og menningarlegan bakgrunn á því sviði. Að fara út um allt land að fylgjast með krökkunum keppa og verða hluti af hópi foreldra á hliðarlínunni,“ segir Anh-Dao.

Að sögn Eyrúnar vanmetum við oft þátt foreldra barna af erlendum uppruna og hversu erfitt það er fyrir þá að tvinna ólíka hluti saman þar sem þeir vinni oft miklu meira en almennt gerist í íslensku samfélagi og eru ekki með þetta tengslanet sem getur skipt sköpum þegar kemur að íþrótta- og félagsstarfi.

„Foreldrar kynnast gjarnan í gegnum íþróttaiðkun barna sinna og hanga til dæmis saman á hliðarlínunni en þú ferð ekki til þess að standa einn og það er sama með börnin – þau eru ekki að fara að taka þátt til að vera ein út í horni. Foreldrarnir eru eins og krakkarnir,“ segir Eyrún. „Á sama tíma megum við ekki gleyma því að við erum að tala um börn og getum ekki ætlast til þess að þau brúi bilið á milli hópa. Það er miklu frekar hlutverk foreldranna og annarra fullorðinna í umhverfinu. Að grípa inn og bjóða börn af erlendum uppruna velkomin.“

Eða eins og Anh-Dao segir þá segir íslenskukunnáttan ekki allt þegar kemur að tengslum milli ungmenna. „Ef við tölum um tungumálið þá má á sama tíma spyrja sig að því hvers vegna börn af erlendum, en ólíkum, uppruna geti verið saman. Ég spurði hvernig þau gætu talað saman og þau sögu það skiptir engu máli og hlógu. Þau nota íslensku, ensku og líkamstjáningu til að tala saman sín á milli.“

Heilmikil tækifæri í frístundastarfi

Kennarar í framhaldsskólum segja að það sé ekki í þeirra verkahring að grípa inn þegar kemur að tengslum milli nemenda og Eyrún tekur undir þetta. Auðveldast sé að grípa inn þegar þau eru lítil og hlúa að þeim strax í leikskóla en þá komi að þeim hópi sem líður sennilega verst – þau sem koma hingað til lands seint. „Krakkar sem eru að koma hingað á unglingastigi þegar stutt er í framhaldsskólann er sennilega sá hópur sem eigi erfiðast uppdráttar og eigi erfiðast með skólann,“ segir Eyrún.

Eyrún segir að heilmikil tækifæri séu frístundastarfi til þess að bæta stöðu barna af erlendum uppruna en þau geti ekki öll nýtt sér þá þjónustu sem þar er í boði. Ákveðin sóknarfæri þar en samt sé skólinn í lykilaðstöðu enda séu öll börn þar.

Anh-Dao segir að kennarar og stjórnendur hvetji krakka af erlendum uppruna til að taka þátt í félagsstarfi til að kynnast öðrum en mjög erfitt sé að fá þau til að mæta eftir skóla því mörg þeirra eru að vinna. Þau hjálpi líka mikið til heima hjá sér, til að mynda að gæta yngri systkina.

„Ég var með nemanda af erlendum uppruna í námi hjá mér í háskólanum í fyrra sem ekki fékk að vera með í hópnum. Þetta er því vandamál sem nær yfir öll skólastig,“ segir Anh-Dao og sumir viðmælendur blaðamanns sem eru í háskólanámi taka undir þetta.

Íslensku nemendurnir vilja ekki vinna með þeim í hóp þar sem þau skrifi ekki nægjanlega vel á íslensku. Finnst of tímafrekt að aðstoða þau og þetta geri þeim erfitt fyrir með að halda áfram í háskólanámi segir Anh Dao og bætir við að þegar við vinnum saman verði til eitthvað ómetanlegt þar sem allir leggi sitt af mörkum og komi með ólíka sýn að verkefninu. Þetta gerist jafnvel í áföngum sem kenndir eru á ensku að sögn viðmælenda mbl.is. 

Hver er ábyrgð skólans?

Á sama tíma og brottfall er mikið meðal nemenda af erlendum uppruna í framhaldsskólum eru þau ekki bara að leita að menntun heldur leita leiða til að komast inn í samfélagið.

Í fyrirlestrinum á Menntakviku vísaði Anh-Dao í ummæli eins af nemendunum sem hún ræddi við í sinni rannsókn. Hann segir að hann hafi farið í skóla til að skilja íslenskt samfélag en telji að hann geti það ekki vegna þess hve djúp gjáin er á milli erlendra nemenda og innlendra. „Mér finnst eins og þau vilji ekkert með mig hafa. Þess vegna held ég mig bara frá þeim.”

Ég vil skilja. Ég vil skilja Íslendinga. Ég vil skilja hvernig þeir lifa lífi sínu. Mig langar til að verða hluti af samfélaginu en ég skil ekki til hvers er ætlast af mér.”

Hópaskiptingin er stundum nánast áþreifanleg.
Hópaskiptingin er stundum nánast áþreifanleg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær Anh-Dao og Eyrún luku fyrirlestri sínum á Menntakviku með þessum orðum:

Skóli ætti að vera góður staður til að læra á samfélagið og þá spyr maður sig áfram er eðlilegt að unglingar hópi sig saman eftir tilteknum hópum (uppruna, kynhneigð, stétt, fötlun) í skólanum?

Ef við erum ekki tilbúin til að fallast á það þá er eðlilegt að spyrja sig hver sé ábyrgð skólans til að skapa samgang, að byggja brýr milli einstaklinga og hópa.

mbl.is