Kjúklingasalat innblásið af Vegamótum á Bíldudal

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er dásemdarkjúklingasalat frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is sem hún segir innblásið frá veitingastaðnum Vegamótum á Bíldudal.

„Í sumar á ferðalagi okkar um Vestfirðina heimsóttum við veitingastaðinn Vegamót á Bíldudal. Þar fékk ég dásamlegt kjúklingasalat í hádeginu sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Ég mundi svona sirka hvað var í því, skoðaði myndina mína og matseðilinn hjá þeim vel og vandlega og ákvað að reyna að herma þetta eftir.“

Kjúklingasalat a la Vegamót

Fyrir 3-4

Kjúklingasalat
  • 4 kjúklingabringur
  • icebergsalat
  • tómatar
  • mangó
  • mangó-chilisósa (sjá uppskrift hér að neðan)
  • 5 msk. Hellmann's-majónes
  • 4 tsk. grænt pestó
  • Til hamingju-chilijarðhnetur
  • salt og pipar eftir smekk
  • ólífuolía til steikingar

Aðferð:

  1. Útbúið mangó-chilisósuna og geymið fram að notkun (þetta mætti þess vegna gera daginn áður en allt í lagi bara rétt áður en þið hefjist handa við eldamennskuna líka).
  2. Berjið kjúklingabringurnar niður til að þynna þær vel, steikið upp úr ólífuolíu stutta stund á hvorri hlið. Saltið og piprið eftir smekk og setjið í 180°C heitan ofn í um 10 mínútur til viðbótar. Útbúið salatið á meðan.
  3. Skerið niður iceberg, tómata og mangó og raðið á fat/í skál.
  4. Hrærið saman majónes og pestó, setjið í lítinn poka og klippið gat á endann, geymið.
  5. Saxið chilijarðhnetur og geymið.
  6. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn má setja vel af mangósósu yfir hvern bita, skera hann niður og raða á fatið, næst má setja smá pestómajónes yfir til skrauts og að lokum strá vel af söxuðum chilihnetum yfir allt.
  7. Gott er að hafa afganginn af mangósósu, pestómajónesi og chilihnetum í skálum til að hver og einn geti skammtað sér að vild með salatinu.

Mangó-chilisósa

  • 2 x þroskað og mjúkt mangó
  • 2 rauð chili (fræhreinsuð)
  • 1 gul paprika
  • 100 ml vatn
  • 100 ml edik
  • 150 g sykur
  • 2 cm rifin engiferrót
  • 2 rifin hvítlauksrif
  • ¼ tsk. salt

Aðferð:

  1. Skerið mangó, chili og papriku smátt og setjið ásamt öllum öðrum hráefnum í pott.
  2. Hitið að suðu og leyfið síðan að malla í um 20 mínútur.
  3. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota, leyfið að kólna niður fram að notkun.
  4. Hægt er að setja í krukku, loka vel og geyma í kæli.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert