Sú fyrsta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

Vivianne Miedema reynir skot að marki PSG í leik Arsenal …
Vivianne Miedema reynir skot að marki PSG í leik Arsenal og PSG í Meistaradeildinni í ágúst. AFP

Knattspyrnukonan Vivianne Miedema, framherji Arsenal á Englandi, skoraði sitt 50. mark í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið fékk Tottenham í heimsókn í dag.

Miedema skoraði annað mark Arsenal á 7. mínútu en leikurinn er ekki búinn og er staðan 3:0, Arsenal í vil, í hálfleik.

Miedema er einungis 24 ára gömul en hún gekk til liðs við Arsenal frá Bayern München sumarið 2017.

Hún hefur verið afar iðinn við kolann þegar kemur að markaskorun í ensku úrvalsdeildinni en hún hefur skorað 50 mörk í 50 leikjum fyrir Arsenal.

Þá er hún fyrsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem nær að skora 50 mörk en deildin var stofnuð árið 2011.

Miedema lék sinn fyrsta landsleik fyrir Holland árið 2013 en hún hefur skorað 69 mörk í 89 landsleikjum fyrir þjóð sína.

Arsenal er með 12 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leiki sína og getur skotist á toppinn í deildinni með sigri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert