Unglingar unnu við hlið fanga

Bjarney Ágústsdóttir, Svanhildur Hauksdóttir, Jóhanna Þórðardóttir og Þórdís Þórðardóttir rífa …
Bjarney Ágústsdóttir, Svanhildur Hauksdóttir, Jóhanna Þórðardóttir og Þórdís Þórðardóttir rífa hér upp saltfisk í stórri stæðu. Alltaf nóg að gera í frystihúsinu.

Þegar vantaði fólk í frystihúsið til að bjarga verðmætum voru börn sótt í skólann og fangar á Litla-Hraun. Lífið var fiskur hjá þeim sem bjuggu á Eyrarbakka.

„Þessar myndir eru dýrmæt heimild um horfinn heim og horfið fólk. Frystihúsið setti heldur betur svip sinn á þorpið, það var þungamiðjan hér í fimmtíu ár og ríflega það,“ segir Magnús Karel Hannesson sem sendi nýlega frá sér ljósmyndabókina Frystihúsið, en hún hefur að geyma ljósmyndir sem hann tók í frystihúsinu á Eyrarbakka á árunum 1976 til 1978.

„Ég er fæddur og uppalinn hér á Bakkanum og bjó við hliðina á frystihúsinu. Ég á góðar minningar tengdar þessu húsi og þessi herskari fólks sem vann í frystihúsinu setti mikinn svip á þorpið. Ég sé ljóslifandi fyrir mér konurnar í hvítum sloppum ganga heim í hádeginu frá þessu húsi, en þá tíðkaðist það að þær færu heim til að elda mat handa börnunum og jafnvel bóndanum. Þær ruku svo aftur í frystihúsið eftir klukkutíma hádegishlé.“

Krakkarnir slitu humar

Ekki voru öll há í loftinu sem unnu í frystihúsinu, …
Ekki voru öll há í loftinu sem unnu í frystihúsinu, en hin eldri tóku vel á móti þeim.

Magnús segir að vinnan í frystihúsinu og hið daglega líf þorpsbúa hafi verið ein heild, þetta hafi allt runnið saman. „Þegar ég var að alast upp tengdust langflest heimili þorpsins frystihúsinu á einn eða annan hátt, þetta var vinnustaður nánast allra. En fangelsið var vissulega líka stór vinnustaður hér á Eyrarbakka,“ segir Magnús og bætir við að stundum hafi verið hóað í fangana þegar mikill fiskur barst að landi og vantaði fólk í frystihúsið til að bjarga verðmætum.

„Vistmennirnir í fangelsinu voru fyrir vikið hluti af samfélaginu. En það var líka hversdagslegt að hóað væri í okkur krakkana úr skólanum á þessum sömu dögum sem mikið lá við. Eftir á að hyggja var þetta einstakt; að við unglingarnir værum að vinna með föngunum, en það gekk alltaf vel. Og fangarnir komu ekki aðeins í frystihúsið til að vinna heldur voru þeir líka ráðnir á báta,“ segir Magnús og bætir við að honum sé í fersku bernskuminni þegar fangar mættu í jólamessuna í Eyrarbakkakirkju á aðfangadagskvöld.

„Þeir sátu á ákveðnum stað uppi á lofti í kirkjunni. En þessi ágæti siður er fyrir margt löngu aflagður.“

Jóhanna Guðjónsdóttir Öfjörð og Kristín Vilhjálmsdóttir gera að fiski.
Jóhanna Guðjónsdóttir Öfjörð og Kristín Vilhjálmsdóttir gera að fiski. Ljósmynd/Magnús Karel Hannesson

Magnús fæddist 1952 og hann var farinn að vinna í frystihúsinu 12 ára, rétt eins og flestir krakkar í þorpinu.

„Við krakkarnir fengum fyrst að vera á humarvertíðinni á sumrin, vorum látin slíta humar, það var nógu létt fyrir okkur. Á þessum árum kom humarinn í land með haus og hala, en hausinn var alltaf slitinn frá og sendur í gúanóið, í fiskimjölsverksmiðjuna. Seinna fóru sjómennirnir að slíta humarinn úti á sjó, en nú þykja mest verðmæti í því að fá humarinn heilan í land og sem fallegastan.“

Þegar Magnús er spurður hvernig stemningin hafi verið í frystihúsinu á þeim árum sem hann vann þar segir hann hana hafa verið góða. „Í endurminningunni var þetta frekar jákvæður vinnustaður, þótt auðvitað hafi fólk orðið þreytt og pirrað, eins og gengur og gerist á öllum vinnustöðum. Þarna vann fólk á öllum aldri og eldra fólkið tók vel á móti okkur krökkunum sem komum þangað til vinnu og af þeim lærðum við handtökin.“

Þegar Magnús kom svo í frystihúsið rúmlega tvítugur maður til að taka myndir naut hann góðs af því að vera strákur úr þorpinu sem fólk þekkti. „Fyrir vikið var fólk afslappað þegar ég nálgaðist það með myndavélina, og það endurspeglast í myndunum.“

Engan óraði fyrir breytingum

Ragnar Böðvarsson, Pétur Sigurðsson og Ingvar Halldórsson.
Ragnar Böðvarsson, Pétur Sigurðsson og Ingvar Halldórsson. Ljósmynd/Magnús Karel Hannesson

Magnús segist hafa tekið myndir alla tíð, alveg frá því hann fékk instamatic-filmuvél í fermingargjöf.

„Þetta hefur fylgt mér í gegnum lífið, ætli ég flokkist ekki sem áhugaljósmyndari. Ástæðan fyrir því að ég fór í frystihúsið að taka myndir á áttunda áratugnum er sú að mig langaði til að eiga þetta fólk á mynd. En mig óraði ekki fyrir að þessi heimur myndi hverfa, þá hélt maður að fiskvinnsla í frystihúsinu yrði til eilífðar í plássinu. En það hafa orðið miklar breytingar í sjávarútvegi og fiskvinnslu undanfarna áratugi, sem hafa haft gríðarleg áhrif á hin minni þorp alls staðar á landinu. Kvótakerfið og tækniþróunin spila þar stærstan þátt. Á þessum árum sem ég tók þessar myndir sá hvorki ég né aðrir þær breytingar fyrir.“

Í frystihúsinu á Eyrarabakka.
Í frystihúsinu á Eyrarabakka.

Mjög margir þeirra sem eru á myndum Magnúsar í bókinni eru horfnir úr þessu jarðlífi og fyrir vikið eru myndirnar afar dýrmætar, ekki aðeins fyrir þorpið og lífið þar heldur einnig fyrir þá sem tengjast þessu fólki. „Þetta fólk setti ekki aðeins svip sinn á samfélagið með því að stunda verðmætasköpun í frystihúsinu heldur byggði það líka upp samfélagið með sínum hætti. Konurnar í frystihúsinu sinntu samfélagsþjónustu mikið á kvöldin og um helgar, þær voru í kvenfélaginu og karlarnir dunduðu við búskap meðfram sinni vinnu, voru með kindur og hesta. Svo fátt eitt sé nefnt.“

Bókin fæst í Laugabúð á Eyrarbakka. Einnig er hægt að panta hana á Facebook-síðu búðarinnar eða með því að senda póst á netfangið: magnus.karel@eyrarbakki.is.

Í frystihðúsinu á Eyrarbakka.
Í frystihðúsinu á Eyrarbakka.
Olga Ingimarsdóttir í Garðbæ flink að stála.
Olga Ingimarsdóttir í Garðbæ flink að stála.
Ingvar Halldórsson í Hliði flakar hér fisk.
Ingvar Halldórsson í Hliði flakar hér fisk.
Magnús við frystihúsið sem hefur verið breytt í hostel og …
Magnús við frystihúsið sem hefur verið breytt í hostel og íbúðahótel.
Kápa ljósmyndabókar Magnúsar Karels Hannessonar.
Kápa ljósmyndabókar Magnúsar Karels Hannessonar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,69 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,60 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,00 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,36 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 2.714 kg
Þorskur 637 kg
Steinbítur 25 kg
Rauðmagi 16 kg
Samtals 3.392 kg
24.4.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 16.635 kg
Ýsa 451 kg
Steinbítur 211 kg
Ufsi 34 kg
Hlýri 26 kg
Keila 14 kg
Karfi 4 kg
Langa 3 kg
Samtals 17.378 kg
24.4.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.843 kg
Steinbítur 344 kg
Keila 55 kg
Ýsa 54 kg
Ufsi 35 kg
Karfi 16 kg
Hlýri 4 kg
Langa 2 kg
Samtals 2.353 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 436,69 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 566,23 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 213,60 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 118,02 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 168,00 kr/kg
Ufsi, slægður 24.4.24 205,91 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 24.4.24 228,36 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 6,89 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Tryllir GK 600 Grásleppunet
Grásleppa 2.714 kg
Þorskur 637 kg
Steinbítur 25 kg
Rauðmagi 16 kg
Samtals 3.392 kg
24.4.24 Sunnutindur SU 95 Línutrekt
Þorskur 16.635 kg
Ýsa 451 kg
Steinbítur 211 kg
Ufsi 34 kg
Hlýri 26 kg
Keila 14 kg
Karfi 4 kg
Langa 3 kg
Samtals 17.378 kg
24.4.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.843 kg
Steinbítur 344 kg
Keila 55 kg
Ýsa 54 kg
Ufsi 35 kg
Karfi 16 kg
Hlýri 4 kg
Langa 2 kg
Samtals 2.353 kg

Skoða allar landanir »