Sæbjúgun í sókn

„Við erum búnir að skilgreina okkur mjög vel, hvað við …
„Við erum búnir að skilgreina okkur mjög vel, hvað við getum og hvað ekki, og hvað við höfum raunverulega að bjóða. Evrópusambandinu líkar þetta og vill að þessi þekking fari að flæða um. Það er verið að veðja á okkur í því sambandi.“ mbl.is/Eggert

Það dró heldur betur til tíðinda fyrr í sumar þegar í ljós kom að íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í sjávarútvegi hefði hlotið vænan styrk úr H2020 áætlun Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjórinn Davíð Freyr Jónsson sagði blaðamanni frá aðdraganda styrkveitingarinnar - og framtíð fyrirtækisins, Aurora Seafood. Birtist viðtalið í sérstöku sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins sem út kom 31. ágúst, og fer hér á eftir í heild sinni:

„Það er býsna góð spurning,“ segir Davíð Freyr þegar hann er inntur eftir því hvar hann var staddur þegar hann fékk staðfestingu þess að honum og fyrirtæki hans, Aurora Seafood, hefði hlotnast umræddur styrkur.

Eina þjóðin sem veiðir sæbjúgu svo nokkru nemi

„Ég man að ég sat við tölvuna mína og fékk tölvupóst frá Evrópusambandinu sem ég hreinlega skildi ekki, en virtist þó vera einhver vísbending um það að við hefðum verið að ná einhverjum árangri,“ bætir hann við og kímir. Davíð Freyr segist aðspurður hafa verið nokkuð vongóður um styrkinn fyrirfram. „Jú, verður maður ekki að hafa trú á sér og játa því?“

Það skyldi maður ætla, enda lítið varið í að leggja í aðra eins fyrirhöfn og umrædd umsókn er ef maður eygir enga von um árangur.

Styrknum verður að sögn varið til að þróa og tæknivæða veiðar og vinnslu á sæbjúgum, ásamt því að í honum felst einnig mikilvægt skref í þá átt að hefja vistvænar veiðar á sæbjúgum víðsvegar um Evrópu. Davíð Freyr segir að félagið hafi lagt áherslu á að þróa frekar veiðar og vinnslu á sæbjúgum, en Íslendingar eru sem stendur eina þjóðin í Evrópu sem stundar nýtingu á sæbjúgum svo nokkru nemi. Ástæðuna segir hann aðallega þá að hafsvæðin þar sem helst er að finna sæbjúgu séu norðarlega í Atlantshafinu.

Sæbjúgu í kari. Mynd úr safni.
Sæbjúgu í kari. Mynd úr safni. mbl.is/Albert Kemp

Eftirsótt heilsuvara

„Verð á sæbjúgum hefur hækkað mjög síðastliðin ár og markaðurinn er einfaldlega Kína,“ segir Davíð Freyr um markaðinn um þessar mundir. „90% er Kína og 95% eru Kínverjar búsettir innan eða utan Kína. Annars er neyslan upp á við hér heima, ekki síst í hylkjum við liðverkjum og þessháttar en að langmestu leyti eru þetta Kínverjar. Ástæðan er sú að í kínverskri læknisfræði og trú almennt er þetta vara með margvíslega lækningaeiginleika og er þar af leiðandi eftirsótt. Ein virknin á að vera gegn krabbameini og þar sem krabbameinstíðni hefur farið ört vaxandi í ákveðnum borgum í Kína, ekki síst vegna mengunar, þá má leiða líkur að því að það hafi eitthvað að segja um þessar miklu verðhækkanir á sæbjúgum.

En annars er erfitt að átta sig fyllilega á því enda Kína að mörgu leyti skrýtinn markaður, risastórt land með lítið til af gögnum. Þess utan er mikið af sæbjúgum flutt inn ólöglega til Kína og mikið um svartamarkaðsbrask. Ísland og Kanada eru meðal fárra landa sem mega flytja sæbjúgu inn til Kína. Fríverslunarsamningurinn kemur okkur auk þess í þá stöðu að við erum að flytja inn nánast tollfrjálst meðan Kanadamenn þurfa að greiða um 12%. Við erum með mikinn vind í seglin um þessar mundir.“

Styrkur þegar harðnar á dalnum

Davíð Freyr hefur sjálfur verið viðloðandi sjósókn síðan árið 2010 þegar hann keypti fyrst litla trillu. Til að byrja með stundaði hann veiðar á makríl og gekk býsna vel, að eigin sögn.

„Ég hef legið í jaðrinum á sjávarútveginum, verið að veiða krabba, ígulker, skeljar, til að mynda bláskel, og svo makrílinn fyrir utan sæbjúgun. Áhuginn hefur einhvern veginn verið á þeim tækifærum sem liggja í jaðrinum á sjávarútvegi og þannig hefur lengi verið,“ útskýrir Davíð sem er menntaður með grunn í sálfræði og hagfræði.

„Ég hafði aldrei verið til sjós áður þegar ég keypti skipið en sá þarna ákveðið tækifæri og ákvað að keyra bara á það af fullum þunga. Íslendingar eru mjög góðir í sjávarútvegi, við erum með mjög traustan og sterkan grunn til að spyrna sér af. Auk þess hafði hér nýlega orðið hrun á þessum tíma og krónan því mjög hagfelld og ég vissi að við hefðum nokkur ár til að byggja upp áður en ytri aðstæður snerust við og það færi að harðna á dalnum aftur.“

Styrkurinn sem Aurora Seafood hlaut gerir fyrirtækinu kleift að halda striki sínu áfram, rétt í þann mund sem aðstæður í sjávarútvegi eru að breytast, eins og Davíð Freyr bendir á.

„Það er að harðna á dalnum. Sá tími er kominn og nú þurfa menn að standa í lappirnar. Nú munu lausu trén fjúka á meðan hin sem eru komin með rætur munu standa. Þessi styrkur veitir okkur einfaldlega þessar rætur og gerir okkur kleift að halda okkar þróun áfram gegnum erfiða tíma. Sem er ótrúlega verðmætt.“

Aurora Seafood hefur haft aðsetur og aðstöðu í húsi Sjávarklasans …
Aurora Seafood hefur haft aðsetur og aðstöðu í húsi Sjávarklasans við Grandann í Grindavík. mbl.is/Ófeigur

„Óvenjulegur hugsunarháttur“

Hvað skammtímamarkmiðin áhrærir segir Davíð Freyr að stefnt sé að því að halda áfram á sömu vegferðinni, að veiða og vinna sæbjúgu, ásamt því að reyna að komast lengra, nánar tiltekið í þurrkun á sæbjúgum, með það fyrir augum að komast nær neytendum.

„Það er ljóst að því myndi þurfa að fylgja eftir með markaðssetningu á vörunum. Veiðarnar halda sjálfsagt áfram á sínu róli og hluti af umræddum styrk er ætlaður í það að kynna þessar veiðar fyrir nágrannaríkjunum, og hugsanlega leita möguleika á samstarfi við erlenda aðila um tilraunaveiðar annars staðar.“

Slíkt samstarf fæli þá í sér að kynna möguleikana sem felast í sæbjúgnaveiðum fyrir öðrum og reyna að stytta leiðina fyrir erlend fyrirtæki, ef þau myndu vilja það.

„Við værum þá að aðstoða viðkomandi í að komast inn á markaði, komast í almenna þekkingu um veiðarfærin, hvar við erum að veiða og hvernig við förum að því. Þar erum við að nýta teymið okkar og þá þekkingu sem þar er búin að safnast fyrir, vonandi til gagns fyrir aðra og okkur sjálfa í leiðinni. Ætli Norðmenn sér að hefja af alvöru veiðar á sæbjúgum þá gera þeir það, með eða án okkar hjálpar. Ef til vill getum við aðstoðað þá við að gera það betur og hraðar og verið um leið þátttakendur í því. Af tvennu viljum við frekar vera með þeim í liði en hitt. Ég veit að þetta er ekki almennur hugsunarháttur hérna á Íslandi,“ bætir Davíð Freyr við og hlær.

„En við erum aftur á móti ekki það fjárhagslega sterkir að við munum geta farið í einhverjar gríðarlegar fjárfestingar erlendis, en við höfum töluverða þekkingu og erum búnir að formsetja hana nokkuð vel, sem er auðvitað stór ástæða þess að við fengum þennan styrk. Við erum búnir að skilgreina okkur mjög vel, hvað við getum og hvað ekki, og hvað við höfum raunverulega að bjóða. Evrópusambandinu líkar þetta og vill að þessi þekking fari að flæða um. Það er verið að veðja á okkur í því sambandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 439,92 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 210,06 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 117,89 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 58,75 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 179,96 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Elley EA 250 Grásleppunet
Grásleppa 1.558 kg
Samtals 1.558 kg
24.4.24 Lundey SK 3 Grásleppunet
Grásleppa 899 kg
Þorskur 88 kg
Ufsi 16 kg
Samtals 1.003 kg
24.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 290 kg
Þorskur 45 kg
Skarkoli 33 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 371 kg
24.4.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 866 kg
Ufsi 71 kg
Þorskur 36 kg
Samtals 973 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 24.4.24 439,92 kr/kg
Þorskur, slægður 24.4.24 564,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 24.4.24 210,06 kr/kg
Ýsa, slægð 24.4.24 117,89 kr/kg
Ufsi, óslægður 24.4.24 58,75 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 179,96 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.4.24 Elley EA 250 Grásleppunet
Grásleppa 1.558 kg
Samtals 1.558 kg
24.4.24 Lundey SK 3 Grásleppunet
Grásleppa 899 kg
Þorskur 88 kg
Ufsi 16 kg
Samtals 1.003 kg
24.4.24 Björn Hólmsteinsson ÞH 164 Grásleppunet
Grásleppa 290 kg
Þorskur 45 kg
Skarkoli 33 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 371 kg
24.4.24 Blíðfari ÓF 70 Grásleppunet
Grásleppa 866 kg
Ufsi 71 kg
Þorskur 36 kg
Samtals 973 kg

Skoða allar landanir »