Reiðarslag í Eyjum

Skipstjórinn á Pelagus var hætt kominn á leiðinni í land, …
Skipstjórinn á Pelagus var hætt kominn á leiðinni í land, og sveiflaðist upp og niður allt að því tíu metra. mbl.is/Sigurgeir Jónasson

Strand belgíska togarans Pelagus við Vestmannaeyjar fyrir 35 árum, þar sem fjórir menn fórust, er frásagnarefnið í nýýtkominni Útkallsbók Óttars Sveinssonar. Með góðfúslegu leyfi Óttars er hér stuttlega gripið niður í þá örlagaríku atburðarás sem greint er frá í bókinni:

Um klukkan 03.40
Máttvana í briminu

Skipverjarnir fjórir á Lóðsinum höfðu ekki orðið þess varir þegar gúmbáturinn frá Pelagusi var sjósettur í myrkrinu. Nú ræddu þeir það sín á milli að sigla bátnum að Pelagusi og láta stefnið, sem var klætt hjólbörðum, stuðpúðum, nema við Pelagus. En sjólagið virtist vera of þungt til þess að það gæti gengið með góðu móti og Lóðsinn gæti eitthvað athafnað sig.

Veiðarfæri og laust dót frá Pelagusi flaut um allt á sjónum. Einar skipstjóri hafði ákveðið að bakka bátnum frá strandstaðnum til að vera ekki of nálægt og eiga á hættu að fá veiðarfærin í skrúfuna. Hann ætlaði því að láta skip sitt liggja fyrir utan strandstaðinn, fylgjast vel með, vera í sambandi við björgunaraðila og lýsa svo Pelagus upp eins vel og hægt væri þegar björgunarsveitir kæmu á slysstað.

Klukkan 03.48 bað Einar um samband í gegnum talstöð við Kristin Sigurðsson slökkviliðsstjóra og bað hann að sjá til þess að Hjálparsveit skáta yrði ræst út. Einar sagðist telja að best væri fyrir björgunarmenn að fara leiðina með fram „Haugunum“ og þaðan niður á klappir með fram Eldfelli.

Bart velktist enn um í sjónum og var orðinn vonlítill um að hann héldi þetta út miklu lengur:

„Ég sá að félagar mínir stóðu inni undir hvalbaknum. Þeirkölluðu í mig og nú kom enn ein stór alda – ég hélt dauðahaldi í bandið á bátnum. Það skipti svo engum togum, þessi risaalda skolaði gúmbátnum og mér inn að þilfarinu, stjórnborðsmegin á Pelagusi, alla leið að tæki sem þvoði fiskinn áður en hann var settur niður í lest. Ég sleppti takinu á bátnum og lá nú máttvana í sjónum á þilfarinu.

Gustaaf skipstjóri kom strax og togaði mig til sín inn undir hvalbakinn. Mér létti mikið við að vera kominn aftur til skipsfélaga minna og bað Redgy háseta að lána mér hnífinn sinn til að skera frá mér björgunarvestið. Patrick var hvergi sjáanlegur – ég óttaðist að við ættum ekki eftir að sjá hann aftur á lífi. Þetta var mjög sorglegt, hann var aðeins nítján ára, átti kærustu og þau ætluðu að fara að gifta sig. Hann hafði sagt okkur það.“

Klukkan 03.50 var búið að hafa samband við Kristin Sigurðsson, slökkviliðsstjóra og formann Björgunarfélags Vestmannaeyja. Hann lét konu sína, Guðrúnu Bjarnýju Guðjónsdóttur, hafa samband við Elías Baldvinsson varaslökkviliðsstjóra og biðja um að lögreglan kallaði út bæði og A- og B-flokka slökkviliðsins.

Björgunarfélagsmenn yrðu beðnir um að koma niður í Bása á Básaskersbryggju í aðalstöðvar Björgunarfélagsins þar sem tæki fyrir sjóbjörgun voru geymd. Jafnframt hafði verið óskað eftir því að Hjálparsveit skáta yrði kölluð út.

Lögreglumaður hafði sótt Jón Ísak Sigurðsson hafnsögumann og þeir óku austur á hraun, eins langt og hægt var að komast akandi, að norðurenda Prestavíkur, beint austur af Eldfelli.

Einar á Lóðsinum var áfram í sambandi við skipstjóra Amandine. Hann vildi árétta þau skilaboð til hans að biðja áhöfn Pelagusar að halda kyrru fyrir um borð uns hjálp bærist frá björgunarmönnum úr landi. Áhöfn Lóðsins fannst mjög hart að geta ekkert annað aðhafst til að koma belgísku skipbrotsmönnunum til bjargar.

Pelagus strandaði við Vestmannaeyjar aðfaranótt 21. janúar 1982. Hann rak …
Pelagus strandaði við Vestmannaeyjar aðfaranótt 21. janúar 1982. Hann rak upp í fjöru og lá undir 12-15 metra háum hamravegg í foráttubrimi. mbl.is/RAX

Hvaða leið á að fara á strandstað?

Vestmannaeyjaradíó hafði tilkynnt Kristni slökkviliðsstjóra að hafnsögubáturinn kæmist ekki að Pelagusi og að strandstaðurinn væri fyrir sunnan Prestabót:

„Ég vissi nú hvers kyns var, að skipið væri strandað á mjög slæmum stað þar sem erfitt yrði að koma björgunartækjum á strandstað. Ég hraðaði mér nú að Básum en konan mín hélt áfram að hringja í menn til aðstoðar. Þegar ég kom að Básum voru nokkrir menn komnir þangað.

Þá voru öll tæki sett á bíla og haldið suður að Prestabót. Við höfðum fengið þær upplýsingar að besta leiðin á strandstað væri um Haugana og austur fyrir nýja hraunið. Þrátt fyrir það taldi ég mig vita um bestu leiðina á strandstað og valdi hana. Björgunarsveitir höfðu haft æfingu á þessum stað og þá kynntumst við staðháttum. Enn fremur hafði ég fylgst með þegar þetta hraun varð til og taldi mig því þekkja það.“

Bart Gulpen hafði bjargast með naumindum – það var einskær heppni að bátnum skyldi skola aftur um borð. En Patrick Maes, nítján ára háseti, hafði drukknað. Allir í áhöfninni vissu nú að hann kæmi ekki aftur um borð á lífi.

Skipbrotsmennirnir voru miður sín, en verst leið Roland Billiaerd stýrimanni því að móðir Patricks hafði beðið Roland sérstaklega að gæta hans áður en þeir sigldu að heiman frá Ostende.

Skipstjórinn hafði greinilega tekið ranga ákvörðun þegar hann skipaði mönnum sínum að sjósetja gúmbátinn. Bart skalf á beinunum á feysknu þilfari Pelagusar:

„Ég var gegndrepa og kaldur inn að beini enda var ég bara í peysu, innanundirbuxum og á sokkunum. Ég fékk öðru hverju sjó yfir mig þegar brimið skall á skipinu, lá þarna á þilfarinu fyrir framan dyrnar að bakkanum, þar sem veiðarfærageymslan var inni í hvalbaknum. Ég fór að huga að því að forða mér frá ágjöfinni og komast í skjól.“

Sigurður Þórir Jónsson var 32 ára starfsmaður hjá Vestmannaeyjahöfn, slökkviliðsmaður og í stjórn Hjálparsveitar skáta á eynni:

„Þegar við mættum niður á slökkvistöð um nóttina fengum við að vita hvað hefði gerst. Við vorum ekki vissir um það hvort útkallið væri verkefni fyrir slökkviliðið eða björgunarsveitir, en þar sem Björgunarfélagið var heldur fáliðað var ákveðið að fara á strandstað með þeirri sveit og með þau tæki sem til þurfti. Ég ákvað að renna upp í bækistöð Hjálparsveitarinnar og sækja VHF-talstöð og galla mig upp. Við ókum svo eins langt austur á Urðir og unnt var.“

Bart var að niðurlotum kominn. Hann taldi, eins og fleiri um borð, að í þessum aðstæðum gæti ekkert orðið þeim til bjargar nema kannski þyrla. Þeir þekktu ekki starfshætti íslenskra björgunarmanna sem voru vanir að skjóta línu út í skip á strandstað og nota björgunarstóla til að bjarga skipbrotsmönnum í land.

Sjö menn úr átta manna áhöfninni voru enn á lífi. Daniel Rouzèe, 27 ára vélstjóri, og Roland Billiaerd, 34 ára stýrimaður, sem var mjög vel á sig kominn líkamlega, ákváðu að klifra upp lóðréttan stiga upp á hvalbak skipsins bakborðsmegin, sem sneri næst landi, og var sá staður þar sem brimið gekk minnst yfir.

Gustaaf Brys skipstjóri, 41 árs, ákvað að fara inn í veiðarfærageymsluna undir hvalbaknum og með honum fóru fjórir aðrir skipverjar, þeir Gilbert Stevelinck, sautján ára, Bart Gulpen, sautján ára, Redgy Calcoen, 26 ára og Marcel Anseeuw, 50 ára. Bart var loksins að komast í skjól:

„Mér var óskaplega kalt og nú fór ég inn í veiðarfærageymsluna undir hvalbaknum. Ég var veikur, hafði gleypt mikið af söltum sjó þegar ég var næstum drukknaður stuttu áður, og var kaldur og skjálfandi, í gegnblautri peysu, buxum og á sokkaleistunum. Gustaaf skipstjóri var fyrst inni í bakkanum hjá mér, Gilbert, Redgy og Marcel, en Daniel vélstjóri og Roland stýrimaður fóru upp á hvalbakinn til að kanna hvort björgunarmenn gætu verið á leiðinni. Roland var einstaklega góður sjómaður, sterkur og traustur.“

Fleiri tugir björgunarmanna komu að slysinu þessa örlagaríku nótt.
Fleiri tugir björgunarmanna komu að slysinu þessa örlagaríku nótt. mbl.is/RAX

Um klukkan 4.30
Klöngrast yfir stórgrýtisurð

Um þrjátíu björgunar- og slökkviliðsmenn frá Heimaey höfðu skipt með sér tækjum og búnaði til að bera á slysstað. Kristinn slökkviliðsstjóri var kominn þangað sem bílarnir staðnæmdust:

„Þegar komið var á Prestabót var tækjum skipt niður á mennina sem báru þau áleiðis á strandstað, um 700 metra leið yfir stórgrýtisurð og brunahraun. Í þessum fyrsta leiðangri tel ég að um 30 menn hafi verið mættir, félagar úr Björgunarfélaginu og Slökkviliði Vestmannaeyja. Ég lagði af stað á strandstað þegar öll tæki voru farin nema síðasti kassinn, en í honum var tildráttartaugin.“

Sigurður Þ. Jónsson var á leið á slysstaðinn:

„Við klöngruðumst í myrkrinu yfir nýja hraunið. Það var erfitt yfirferðar og við héldum á línubyssum, björgunarstól og öðrum búnaði. Við vorum ekki vel búnir ljósum en þegar við nálguðumst slysstað sást ljósgeisli frá lóðsbátnum fyrir utan. Áhöfnin virtist vera að lýsa upp strandstaðinn. Okkur gekk sæmilega að finna leið og mér fannst við vera með vel skipað og þjálfað lið.

Það hafði tekið tíma að gera allt klárt í bænum og komast út eftir. Við sáum að stefni skipsins var komið upp í urðirnar en afturendinn sneri út á haf. Heldur meira sást í bakborðssíðuna úr landi. Það var myrkur og fremur hvasst, rigning blönduð særoki og nær engin lýsing um borð – við sáum mönnum bregða fyrir við brúarvæng togarans bakborðsmegin.“

Um borð í Lóðsinum höfðu menn aldrei komið auga á gúmbátinn sem áhöfn Pelagusar hafði sjósett. Ágúst Bergsson vélstjóri rýndi í gegnum myrkrið og ágjöfina út að strandstaðnum:

„Við hefðum örugglega reynt að ná gúmbátnum ef við hefðum séð hann. Þarna voru sjómenn í bráðri lífshættu og við vorum mest að hugsa um hvað við gætum mögulega gert. Auðvitað leið okkur illa yfir því að geta ekki komið til hjálpar en okkur létti dálítið þegar við vissum að björgunarsveitin væri komin og þeir væru að byrja að koma fluglínutækjum fyrir. En Guð minn almáttugur – maður var svo ráðalaus! Það eina sem við gátum gert var að lýsa upp slysstaðinn með kösturunum okkar.“

Björgunarmenn frá Vestmannaeyjum náðu fljótlega að bjarga fjórum skipverjum á …
Björgunarmenn frá Vestmannaeyjum náðu fljótlega að bjarga fjórum skipverjum á land. mbl.is/RAX

Grillir í menn á hvalbaknum

Guðmundur Ólafsson var 23 ára slökkviliðsmaður sem starfaði á verkstæði í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Hann var með fyrstu mönnum á strandstað:

„Lóðsbáturinn lónaði fyrir utan, þeir höfðu kallað og sagt að það væri mjög erfitt og vonlítið að athafna sig við strandstaðinn. Við þurftum að ganga yfir nýja hraunið í kolsvartamyrkri. Þegar við komum á strandstaðinn sáum við að skipið var mjög stutt frá landi og það gaf mikið yfir það. Ég sá nú grilla í menn uppi á hvalbaknum, eina hluta skipsins sem fór ekki algjörlega í kaf þegar brotin riðu yfir skipið.“

Sigurði Þ. Jónssyni fannst erfitt að athafna sig á strandstað:

„Þetta var blautt og svart og erfitt að fóta sig í hrauninu. Við komum nú búnaðinum fyrir á klettum sem stóðu hærra en framendi togarans, um fimmtán metra fyrir ofan sjávarmál. Ég kallaði í Lóðsinn í talstöðinni og þeir lýstu í áttina að okkur. Það hjálpaði, en við fengum auðvitað geislann beint í augun.“

Kristinn Sigurðsson slökkviliðsstjóri hafði lagt af stað frá bílnum áleiðis að strandstað þegar öll tækin sem nota átti við björgunina voru komin af stað með mönnunum yfir hraunið, nema síðasti kassinn, með tildráttartauginni. Björgunarmenn sem komnir voru á strandstaðinn voru í óða önn að setja upp búnaðinn sem þangað var kominn. Slökkviliðsstjórinn var nú einnig kominn á strandstað:

„Skipbrotsmennirnir voru bundnir við hvalbakinn og kölluðu stöðugt á hjálp. „Guð almáttugur. Komið fljótt og bjargið okkur!“ Þetta var hrikaleg aðkoma – sjö til átta vindstig og álandsvindur. Við biðum nú eftir síðasta kassanum og undruðumst hvað tefði hann. Þá komu menn með þau skilaboð að kassanum hefði verið snúið við samkvæmt skipun frá mönnum á hafnsögubátnum, sem töldu að þessi leið væri ófær en þeir gætu komist Haugaleiðina.

Þess vegna hafði verið farið með hann aftur að birgðabílnum og þar var beðið frekari skipana. Nú var ekkert annað að gera en að senda hraðboða að bílnum, þar sem kassinn var, enda ekki tök á að koma boðum öðruvísi til mannanna þar sem ekkert talstöðvarsamband var á milli. Hraðboðinn fór með þau skilaboð að koma ætti þegar í stað með kassann þá leið sem í upphafi var áformuð. Meðan á þessu stóð var allt undirbúið sem hægt var, meðal annars voru tvær línubyssur útbúnar til að skjóta úr ef ekki tækist að hæfa í fyrsta skoti.“

Sigurður Þ. Jónsson, sem starfaði hjá Vestmannaeyjahöfn, þekkti vel áhöfnina um borð í hafnsögubátnum:

„Lóðsinn hafði gefið þær upplýsingar í gegnum loftskeytastöðina að betra væri að fara fyrir sunnan Eldfell og þar niður yfir Páskahraun og svo þaðan niður eftir. Þau skilaboð bárust aldrei til okkar. Hjálparsveit skáta og fleiri komu því seinna á strandstað en þessi fyrsti hópur. Þeir lentu í bölvuðu klöngri á þessari leið, sem var langtum snúnara að fara. Nú fóru menn úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja að gera sig klára til að skjóta línunni um borð. Þrífótur fyrir stólinn var settur upp og gerður klár. Guðjón Jónsson var sá sem átti að skjóta línu um borð.“

Bókin er sú nýjasta í Útkallsbókaröð Óttars Sveinssonar.
Bókin er sú nýjasta í Útkallsbókaröð Óttars Sveinssonar.

Fjórir í miskunnarlausri ágjöf

Strandstaðurinn var við svokallaða Prestabót, milli flugvallarins og Urðarvita. Það voru fimm til sex vindstig, rigning og sunnanog suðaustanbrim, og það braut jafnt og þétt á skipinu. Það rétt grillti í belgísku skipbrotsmennina sem stóðu á hvalbaknum, eina hluta skipsins sem virtist ekki fara algjörlega í kaf í brotunum. Mennirnir hurfu annað slagið sjónum björgunarmanna sem voru uppi á þverhníptum klettunum.

Þegar þrír menn voru komnir upp á hvalbakinn, þeir Roland, Daniel og Redgy, reyndi Marcel Anseeuw, elsti maðurinn um borð, fimmtugur, að komast upp stigann bakborðsmegin. Þetta var mikið hættuspil við þessar aðstæður því að Marcel var þungur, stirður og óttasleginn. Þegar hann var kominn úr skjólinu í veiðarfærageymslunni og út á þilfarið kom þung alda sem kastaði honum til baka.

Marcel brá illilega við þetta. Hann var nú að upplifa sitt annað sjóslys við Ísland. Tuttugu og sex árum áður hafði hann verið skipverji á Vanderweyden, sem fórst við Suðurland. Allri áhöfninni, átján manns, hafði þá verið bjargað.

Nú kraflaði Marcel sig til baka og fór aftur inn í veiðarfærageymsluna. Gustaaf skipstjóri var kominn út úr veiðarfærageymslunni. Hann var nú að missa skip í annað sinn á skipstjóraferli sínum. Tólf árum áður hafði hann misst skip við Skotland, en þá hafði allri áhöfninni, tólf manns, verið bjargað.

Gustaaf fór að stiganum, orðinn mjög kaldur og þrekaður, og las sig upp eftir honum. Marcel hafði hins vegar brostið kjark og ákveðið að fara hvergi. Honum stóð slík ógn af öldunum og ólögunum. Ungu drengirnir, Bart og Gilbert, urðu eftir í bakkanum með Marcel.

Þegar skipstjórinn var kominn upp á hvalbakinn kölluðu hann og þremenningarnir sem þar voru fyrir niður til þeirra sem eftir urðu í bakkanum og hvöttu þá til að koma upp, björgunarmenn væru komnir.

Belgarnir stóðu nú uppi á hvalbaknum og biðu þess að hægt yrði að skjóta línu um borð. Þarna uppi var í raun engan veginn stætt og brimið barði mennina miskunnarlaust svo að þeir voru orðnir gegndrepa og mjög þrekaðir.

Slökkviliðsmanninum Guðmundi Ólafssyni leið ekki vel þar sem hann horfði á skipbrotsmennina uppi á hvalbaknum:

„Mér fannst skelfilegt að bíða þarna þangað til hægt yrði að fara að gera eitthvað til bjargar mönnunum. Þetta var heil eilífð.“

Það hafði reynst vera á misskilningi byggt að leiðin með Haugunum væri greiðfærari fyrir björgunarsveitarmenn, en Einar, skipstjóri á Lóðsinum, hafði reyndar ekki fullyrt að björgunarmenn kæmust ekki yfir Prestabót og að strandstaðnum.

Þegar kassinn með tildráttartauginni kom á strandstaðinn var strax hafist handa við að skjóta línu út í skipið og menn biðu spenntir þegar Guðjón Jónsson miðaði út að skipinu. Hann hleypti af ... endinn skaust yfir hvalbakinn þar sem Belgarnir stóðu. Guðjóni hafði tekist að hitta skipið í fyrstu tilraun, línan lenti rétt framan við frammastrið.

Kristni slökkviliðsstjóra sýndist sem mennirnir fjórir á hvalbaknum hefðu ekki náð í línuna strax vegna þess að þeir höfðu bundið sig við rekkverkið til að koma í veg fyrir að þá tæki fyrir borð í ágjöfunum.

Fimm skipbrotsmannanna, frá vinstri: Redgy Calcoen, 26 ára, Bart Gulpen, …
Fimm skipbrotsmannanna, frá vinstri: Redgy Calcoen, 26 ára, Bart Gulpen, 17 ára, Marcel Anseeuw, 51 árs, en þetta var í annað sinn sem hann komst af í skipskaða við Ísland, Daniel Rouzee vélstjóri og Roland Billiaert stýrimaður, sem sýndi mikið þrek í baráttu skipverjanna fyrir lífi sínu. mbl.is/Sigurgeir Jónasson

Um klukkan 05.00
„Ég kem svo og sæki þig“

Bart Gulpen, sem hafði komist lífs af á svo ótrúlegan hátt eftir að gúmbáturinn var sjósettur, hafði séð á eftir skipstjóra sínum fara út úr veiðarfærageymslunni:

„Gustaaf var farinn út. Áður en hann fór sagði hann við mig: „Vertu kyrr hérna. Ég ætla að athuga hvar hinir eru. Ég kem svo og sæki þig.“ Við svo búið fór hann bara út. Ég átti von á að hann færi að afturskipinu en ég var bara inni í lokuðum bakkanum og sá því ekki neitt. Nú vorum við þrír eftir þar, ég, Gilbert Stevelinck og Marcel Anseeuw – hann var elstur um borð.

Við sögðum ekki neitt, hímdum bara þarna og biðum. Ég vissi ekkert um björgunarmenn eða aðgerðir í gangi. Meðan á þessu öllu stóð hafði ég hvergi séð skipshundinn okkar og ég velti því fyrir mér hvað hefði orðið um hann. Skipið hallaðist mjög í stjórnborða, sjór safnaðist því fyrir þeim megin í geymslunni og þar stóð Marcel. Mjög þögull maður og sérstakur.

Gilbert var mjög grannur og lágvaxinn, hafði orðið sautján ára í vikunni áður. Hann lá uppi á stórri hillu fremst í bakkanum. Ég var bakborðsmegin, sat bara þar. Skipið hossaðist, hristist og valt – alltaf á stjórnborðshliðinni.“

Magnús Þorsteinsson var 27 ára aðalbókari Vestmannaeyjabæjar og félagi í Hjálparsveit skáta. Hann var íþróttamaður og hafði spilað með ÍBV, bæði knattspyrnu og handknattleik. Nú var hann að koma á vettvang:

„Síminn hringdi hjá mér og eftir það söfnuðumst við félagarnir saman niðri í Skátaheimili. Við vorum sendir yfir nýja hraunið, sem var mjög hrjúft og laust í sér þannig að við hvert skref molnaði undan manni. Þetta var mjög erfitt og seinfarið. Ég skildi aldrei hvers vegna við vorum sendir þessa leið. En nú vorum við komnir og þeir voru að byrja að draga björgunarstólinn yfir í skipið.“

Guðmundur Richardsson var 21 árs starfsmaður í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Hann var í slökkviliðinu og einnig í Hjálparsveit skáta. Honum leist illa á aðstæður á strandstað:

„Þegar við gengum yfir hraunið áleiðis að slysstaðnum fundum við sterka olíulykt. Það var staðfesting þess að eitthvað alvarlegt hefði gerst, skip hafði strandað. Þegar við komum á staðinn leist mér ekki á sjónina sem blasti við, það var svo hátt þarna niður að bátnum þar sem við stóðum uppi í klettunum.

Skipið var á fleygiferð í myrkrinu og það valt mikið í briminu. Björgunarfélagið var komið með sínar græjur og Lóðsinn var að reyna að lýsa upp á hvalbak skipsins. Við gátum athafnað okkur með línu á syllu fyrir neðan efstu brún.

Mér fannst vera talsvert langt í bátinn. Eiginlega leist mér ekkert á þetta eins og aðstæður voru og hvernig sjórinn lét, þetta var svo hrikalegt, og veðrið ekki gott. Mikið brim í austanáttinni sem stóð beint upp á land.“

Um klukkan 05.10
Vandræði með björgunarstólinn

Um fimmtíu björgunarmenn voru nú komnir á strandstaðinn. Eftir að tekist hafði í fyrstu tilraun að skjóta línu yfir í Pelagus þurftu þeir að færa sig til með línuna í hraunklöppunum til þess að koma henni nær skipbrotsmönnunum uppi á hvalbaknum.

Þá tókst hraustasta skipverjanum, Roland Billiaerd stýrimanni, að teygja sig eftir línunni innan um brotin og ágjöfina. Hann hélt fast í endann, taugina sem nú var í raun það eina sem gat bjargað lífi hans og félaga hans.

Nú pírði Roland augun í átt að landi. Hvað myndu mennirnir þarna uppi gera núna? Hvað vildu heimamenn, sem höfðu brugðist svo skjótt við og komið til aðstoðar, að hann og félagar hans gerðu næst?

Nú festu Eyjamenn þyngri línu með blökk við skotlínuna í landi. Skipbrotsmönnunum var svo gefið merki um að draga hana til sín. Belgísku fjórmenningarnir á hvalbak Pelagusar voru sumir hverjir, ekki síst skipstjórinn, aðframkomnir af vosbúð, enda dugði klæðnaður þeirra afar skammt í miskunnarlausum áganginum af ísköldu briminu.

Elías Baldvinsson varaslökkviliðsstjóri fylgdist með Belgunum á hvalbaknum:

„Því miður virtust þeir vera óklárir á því hvernig þeir ættu að fara að. Þeir drógu reyndar til sín blökkina með dráttarlínunni en í stað þess að hafa dráttartaugina lausa rígbundu þeir blökkina við rekkverkið framan á hvalbaknum með tvöföldu bandi.

Það var því ekki hægt að draga björgunarstólinn út í skipið. Við reyndum að kalla til skipverjanna á ensku og fá þá til að losa dráttartaugina, en þeir virtust ekkert skilja og svöruðu okkur á frönsku eða flæmsku sem enginn okkar skildi. Það leið óratími, margar mínútur, þar til einn skipbrotsmannanna áttaði sig á því að ekki væri allt með felldu. Þetta var stór maður og greinilega best á sig kominn af skipbrotsmönnum.“

Það var Roland stýrimaður, kraftalegasti skipbrotsmaðurinn, sem nú losaði blökkina og gekk rétt frá henni. Redgy Calcoen háseti virtist eðlilega vera hræddur í þessum hrikalegu aðstæðum. Þetta var nokkuð sem hann hafði aldrei verið nálægt því að reyna áður þó að hann væri reyndur sjómaður.

Fjórmenningunum, sem höfðu eygt litla von um að komast lífs af eftir að togarinn strandaði, hafði fundist stórkostlegt að sjá íslensku björgunarmennina koma á vettvang. En mundi takast að bjarga þeim? Hvernig virkaði eiginlega þessi búnaður? Nú þurftu þeir greinilega að klifra út fyrir rekkverkið, fara ofan í dinglandi björgunarhring og yfir gínandi hyldýpið og ólgandi brimið á milli togarans og hraunhamarsins þar sem björgunarmennirnir höfðu komið sér fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »