Númer eitt, tvö og þrjú er að bjarga lífum

Björgunarsveit við æfingar í Siglufirði. Félagið vinnur nú að því …
Björgunarsveit við æfingar í Siglufirði. Félagið vinnur nú að því að greina þarfir sveitanna og móta áætlanir um endurnýjun flotans. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður R. Viðarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir að Íslendingar geti verið stoltir af forvarnastarfi sæfarenda hér við land, þótt alltaf megi gera betur. Fram undan er endurnýjun björgunarskipaflotans og segir hann það sína skoðun að áfram eigi að þróa og búa til stærri og öflugri björgunarbáta hér á Íslandi.

Í samtali við 200 mílur segir hann starf sveitanna við björgun á sjó í raun fara fram í umboði Landhelgisgæslunnar.

Áhafnir skipaflotans í raun stærsta björgunarsveitin

„Við erum með okkar stjórnkerfi, sem við vinnum eftir, og gerum það í umboði Landhelgisgæslunnar. Við förum þannig með tæknilega stjórn á því hvernig við nýtum okkar liðsafla, þó svo að Landhelgisgæslan fari með heildarstjórn aðgerða á sjó,“ segir Sigurður.

„Eins og björgunarskip okkar eru staðsett í dag, miðað við ganghraða og fleiri þætti, teljum við okkur geta brugðist við á hafsvæðinu í kringum Ísland, svonefndu VHF-svæði, á fimm til sex tímum í það mesta.“

Sigurður segir þyrlur Landhelgisgæslunnar eðlilega vera ætíð fyrsta kost við björgunaraðgerðir.

„En ef þeirra nýtur ekki við, einhverra hluta vegna, held ég að við séum í flestum tilfellum næsti viðbragðsaðili á staðinn. Auðvitað geta skip á sjó verið nær vettvangi og þannig eru áhafnir alls skipaflotans í raun stærsta björgunarsveitin, ef því er að skipta, því oft eru önnur skip fyrstu aðilar á vettvang,“ segir hann.

Sigurður segir að félagið telji sig hafa nokkuð góða útbreiðslu.
Sigurður segir að félagið telji sig hafa nokkuð góða útbreiðslu. mbl.is/Sigurður Bogi

Á réttri leið í öryggismálum

Aðspurður segir hann þróun öryggismála hjá sæfarendum hér við land hafa verið góða síðustu ár.

„Fækkun slysa og banaslysa á sjó frá því sem áður var sýnir að við erum á réttri leið í öryggismálum sæfarenda þótt auðvitað sé alltaf hægt að gera betur,“ segir Sigurður.

„Við fylgjumst með systursamtökum okkar, meðal annars í Bretlandi, þar sem komin er hátt í tvö hundruð ára hefð fyrir því að reka björgunarskip. Og þeir státa sig af því að þeir fara í þetta mörg útköll á ári og bjarga þetta mörgum og koma þetta mörgum til aðstoðar – þeir eru mjög stoltir af þessum tölum.

En svo heyra þeir að hérna á Íslandi líði jafnvel heilt ár án þess að nokkur láti lífið við störf á sjó. Þá fara menn að velta því fyrir sér: Við erum alltaf að eyða peningum í að bjarga fólki, af hverju eyðum við ekki peningum í forvarnir, svo við þurfum ekki að bjarga þessu fólki? Við sjáum þessa þróun og þetta er það sem er rætt úti í heimi. Á sama tíma getum við verið stoltir af því forvarnarstarfi sem hér fer fram.“

Gamall floti og hæggengur

Spurður hvernig viðbragðstími björgunarsveitanna sé í samanburði við nágrannalönd kveður Sigurður hann mjög góðan.

„En okkar takmörk í dag eru fyrst og fremst þau að flotinn okkar er orðinn tiltölulega gamall. Þótt bátarnir séu flestir hverjir í mjög góðu ásigkomulagi, það er stóru björgunarskipin, þá eru þau nokkuð hæggeng miðað við það sem gengur og gerist í dag. Í okkar framtíðarsýn er þess vegna stefnt að því að geta endurnýjað þennan flota með nýrri og hraðskreiðari skipum og bátum á næstu tíu til fimmtán árum.“

Um þessar mundir vinnur félagið að því að greina þarfir sveitanna og móta áætlanir um endurnýjun flotans.

„Við liggjum núna yfir þeim möguleikum sem eru í boði. Við þurfum auðvitað að spyrja okkur: Eigum við alla tíð að kaupa það sem aðrir eru hættir að nota eða eigum við að smíða nýtt? Allt kostar þetta peninga og vissulega eru notaðir bátar ódýrari en aftur á móti þarf að reikna með rekstrarkostnaði. Þetta er það sem við erum að skoða, hvað er hagkvæmast og hvað er raunhæft í stöðunni.“

Björg, eitt björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, tekur bát í tog og …
Björg, eitt björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, tekur bát í tog og dregur hann til hafnar. mbl.is/Alfons

Góð reynsla sveitanna af nýju íslensku björgunarbátunum

Slysavarnafélagið sér spennandi tíma fram undan í þróun skipa.

„Við sjáum systursamtök okkar í Evrópu þróa gríðarlega öflug og vönduð björgunarskip. Svo má ekki gleyma því að hérna í Kópavogi er skipasmíðastöðin Rafnar að gera virkilega spennandi hluti. Ég segi að auðvitað væri langskemmtilegasti kosturinn að geta farið út í frekari þróun björgunarskipa með þeim, svo ég tali nú bara frá mínu hjarta.“

Rafnar hefur þegar afhent tveimur björgunarsveitum báta, Hjálparsveit skáta í Kópavogi og Björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði.

„Þar eru menn afskaplega ánægðir með bátana og mér finnst að við Íslendingar eigum áfram að standa saman og þróa stærri og öflugri báta. Það er mín skoðun, en verkefni sem þetta er auðvitað óheyrilega dýrt. Það fer þó eftir því hvernig á það er litið; hvað er dýrt og hvað er ekki dýrt? Hvers virði eru sjómennirnir okkar? Allt er þetta auðvitað gert til að auka öryggi sæfarenda.“

Sigurður R. Viðarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Sigurður R. Viðarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Þétt keðja hringinn um landið

Spurður hvort aðbúnaður sveitanna sé misjafn eftir landsfjórðungum segir Sigurður að félagið telji sig hafa nokkuð góða útbreiðslu.

„Við getum horft á þetta frá tveimur mismunandi sjónarmiðum. Annars vegar eru það björgunarskipin, þessi stærri skip, sem eru að öllu jöfnu klár til að fara og vinna við erfiðar aðstæður,“ svarar hann og bætir við að þau séu alls þrettán talsins.

„Svo eru björgunarsveitirnar sjálfar margar hverjar með mjög öfluga og hraðskreiða harðbotna báta, sem eru að sigla á jafnvel þrjátíu til fjörutíu hnúta hraða, þótt það sé kannski ekki við erfiðustu aðstæður. Samanlagt myndum við orðið ansi þétta keðju björgunarskipa og -báta hringinn um landið. Þess vegna teljum við að það eigi aldrei að vera langt í okkar viðbragð.“

Endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans hefur haft það í för með sér að stærri skip en áður stunda nú veiðar við strendur Íslands. Spurður hvort sú þróun feli í sér áskoranir fyrir björgunarsveitirnar segir Sigurður að Landsbjörg hafi aðallega gefið sig út fyrir að veita lífbjargandi þjónustu.

„Það er meginmarkmiðið með björgunarskipunum. Við teljum okkur geta sinnt því hlutverki. Það eru jú dæmi um að við höfum komið stórum flutningaskipum til aðstoðar og bjargað þeim frá bráðum vanda. En við erum ekkert að fara að draga stóran frystitogara af Halamiðum og til hafnar,“ segir hann léttur í bragði.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að bjarga lífum. Ef við getum bjargað verðmætum líka þá er það bara í kaupbæti.“

Greinin var birt í heild sinni í sérstöku sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins, sem út kom föstudaginn 17. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,77 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 236,08 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,94 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 178,87 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Beta SU 161 Handfæri
Þorskur 1.324 kg
Ufsi 90 kg
Samtals 1.414 kg
23.4.24 Júlía SI 62 Grásleppunet
Grásleppa 700 kg
Þorskur 240 kg
Skarkoli 34 kg
Steinbítur 6 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 983 kg
23.4.24 Marvin NS 550 Grásleppunet
Grásleppa 1.083 kg
Þorskur 118 kg
Skarkoli 76 kg
Samtals 1.277 kg
23.4.24 Jón Hildiberg RE 60 Grásleppunet
Grásleppa 806 kg
Þorskur 208 kg
Steinbítur 8 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 1.023 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.4.24 456,77 kr/kg
Þorskur, slægður 23.4.24 532,04 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.4.24 236,08 kr/kg
Ýsa, slægð 23.4.24 143,44 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.4.24 177,94 kr/kg
Ufsi, slægður 23.4.24 227,61 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 23.4.24 178,87 kr/kg
Litli karfi 19.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.4.24 Beta SU 161 Handfæri
Þorskur 1.324 kg
Ufsi 90 kg
Samtals 1.414 kg
23.4.24 Júlía SI 62 Grásleppunet
Grásleppa 700 kg
Þorskur 240 kg
Skarkoli 34 kg
Steinbítur 6 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 983 kg
23.4.24 Marvin NS 550 Grásleppunet
Grásleppa 1.083 kg
Þorskur 118 kg
Skarkoli 76 kg
Samtals 1.277 kg
23.4.24 Jón Hildiberg RE 60 Grásleppunet
Grásleppa 806 kg
Þorskur 208 kg
Steinbítur 8 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 1.023 kg

Skoða allar landanir »