Hafrannsóknarstofnun telur fullyrðingar um hlutverk hvala í vistkerfinu sem fram koma í greinargerð frumvarps fimmtán þingmanna um bann við hvalveiðum beinlínis rangar eða skorta vísindalegar stoðir.
Er meðal annars í greinargerðinni fullyrt að hvalir framleiða súrefni. Bendir Hafrannsóknastofnun í umsögn sinni vegna frumvarpsins á að hvalir framleiða ekki súrefni.
„Í kaflanum „Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar" koma fram ýmsar staðhæfingar sem eru ekki í samræmi við núverandi stöðu þekkingar á vistfræðilegum áhrifum hvala. Hafrannsóknastofnun tekur undir það að hvalir og önnur spendýr geta gengt mikilvægu hlutverki í vistkerfum sjávar en áhrif stærri hvalategunda á vistkerfi eru almennt illa þekkt og rannsóknaþörf þar að lútandi mikil,“ segir í umsögninni.
„Erfitt er að átta sig á hvað höfundar eiga við,“ skrifar Hafrannsóknastofnun um fullyrðingu höfunda frumvarpsins um að „fjölgun hvala styrkir fiskstofna, stóra og smáa, og loks hvalina sjálfa.“
Bent er í umsögninni á að hvalir sem og önnur sjávarspendýr éta mikið af fiski á ári hverju. „Í nýlegri rannsókn byggðri á stofnstærðum og orkuþörf dýranna var metið að sjávarspendýr við Ísland og austur Grænland éti 13.4 (95% öryggismörk 5.6-25.0) milljónir tonna af bráð á ári hverju. Þó að ýmsar átutegundir séu þarna stór hluti, er ljóst að mikið af þessu magni eru smávaxnar fisktegundir eins og síld, loðna, og sandsíli, auk þess sem fleiri tegundir eru étnar í minna mæli.“
Þá segir að það sé óljóst með hvaða hætti fiskistofnar geti stækkað vegna áhrifa hvala umfram það sem þeir éta á ári hverju.
Fullyrt er í greinargerðinni að „hvalir gegna mikilvægu hlutverki í baráttu gegn loftslagsvá sem er ein helsta ógnin við samfélag okkar.”
Hafrannsóknastofnun segir mikilvægt að byggja aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á þekkingu sem fengist hefur með vísindalegri aðferðafræði. „Ef vistkerfi sjávar eru skoðuð í heild og þar með þau fjölmörgu ferli sem hafa áhrif á flutning og bindingu kolefnis til lengri og skemmri tíma, þá er fátt sem bendir til annars en að hvalir hafi þar hlutfallslega veigalitlu hlutverki að gegna. Mikil óvissa er um flutning og örlög kolefnis frá hvölum.“
Höfundar frumvarpsins benda á að hagfræðingurinn Ralph Chami, fyrrverandi stjórnandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hafi reiknað úr að efnahagslegt virði kolefnisbindingar langreyðar á lífstíð sinni og nemur það um 3,3 milljónir bandaríkjadala.
Hafrannsóknastofnun bendir hins vegar á að fyrri orð sín um að fátt bendi til annars en að hvalir gegna veigalitlu hlutverki þegar kemur að kolefnisbindingu auk þess sem stofnunin efast um vísindalegt gildi greinar Chami. „Við teljum sú heimild sem vísað er til sýni ekki fram á kolefnisbindingu langreiða til lengri tíma og hugsanlegt efnahagslegt virði hennar við Ísland. Grein Ralph Chami er álitsgrein og ekki ritrýnd af sérfræðingum.“
„Með því að kafa niður á sjávarbotn og ferðast um höfin framleiða hvalir næringarrÍk úrgangsský sem styrkja svif og önnur smádýr. [...] Saurlát hvala eru afskaplega mikilvæg fyrir vistkerfi sjávar því að með þeim dreifast næringarefni milli ólíkra laga sjávarins á hátt sem gerist ekki með hafstraumum. Næringarefnin eru mikilvæg lífverum líkt og grænþörungum og bakteríum sem þurfa þessi næringarefni til að geta ljóstillífað. Einna mikilvægast þessu ljóstillífandi lífverum er nitur, fosfór og járn. Við ljóstillífun framleiða þessar lífverur sykrur sem nýtast þeim sjálfum og styrkja alla fæðukeðjuna með því að gagnast þeim lífverum sem nærast á þeim sem neðar eru. Við þetta ferli verður til súrefni sem er nauðsynlegt lífverum sjávar. Þannig styðja hvalir við framleiðslu á lífrænum næringarefnum og súrefni í vistkerfi sjávar,” segir í greinargerð frumvarpsins.
Hafrannsóknastofnun segir enn mikla óvissu um hlutdeild sjávarspendýra í næringarefnabúskapi sjávar og þau ferli sem þar eru að baki eins og í tilfelli kolefnisbúskaps. Þá megi búast við miklum breytileika í þessum efnum milli hafsvæða og þeim mismunandi aðstæðum sem þar er að finna.
„Enn meiri óvissa er um hlutdeild hvala í framleiðslu súrefnis í sjó. Ekki er vitað til þess að rannsóknir hafi verið framkvæmdar við vistfræðilegar aðstæður sambærilegar þeim sem eru við Ísland,“ segir í umsögn stofnunarinnar.
„Óljóst er hvaða ferli er vísað í í fyrstu setningu málsgreinarinnar. Benda má á að bakteríur, að undanskildum blágrænum bakteríum, eru almennt ekki frumframleiðendur og nýta því ekki næringarefni á þann hátt sem frumframleiðendur gera. Þá mætti breyta orðinu „grænþörungum" í orðið „plöntusvifi" til þess að setningin nái til allra sviflægra þörunga. Þá er bent á að orðið „svif" getur átt við ýmsar sviflægar lífverur, bæði frumframleiðendur og neytendur (lífverur sem fá orku með afráni á öðrum lífverum).“
Þá leggur Hafrannsóknastofnun til að umræddum kafla í greinargerðinni verði alfarið sleppr eða hann endurskrifaður í „samræmi við stöðu vísindalegrar þekkingar“.
Flutningsmenn frumvarpsins eru Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Oddný G. Harðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Tómas A. Tómasson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.