Þegar lúxus er lífsstíll

AMG-gerðin af Mercedes-Benz CLA 220 er bíll fyrir vandláta. Demantagrillið …
AMG-gerðin af Mercedes-Benz CLA 220 er bíll fyrir vandláta. Demantagrillið svokallaða ljær honum óneitanlega rándýran svip og stór loftinntökin fyrir neðan framljósin gefa bílnum svip sem tekið er eftir. Útlitið er framúrskarandi og aksturseiginleikarnir eru einfaldlega í takt við það. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Cla-Benzinn vakti talsverða athygli þegar hann var kynntur til sögunnar á síðasta ári, ekki síst þar sem hann skipar sjaldséðan flokk fernra dyra kúpubaka.

Bíllinn er aukinheldur bráðvel heppnaður í útliti, með svipmikinn og nánast aggressífan framenda, og fékk almennt prýðisviðtökur. Þegar AMG-nafnbótin er sett á bíla frá Mercedes-Benz er svo viðbúið að hjörtu bílaáhugafólks taki aukaslag og svo er með þann ágæta bíl sem hér er tekinn til kostanna.

Vel heppnuð AMG-útgáfa

CLA-bílarnir frá Benz bera það með sér að hafa eytt talsverðum tíma í vindgöngum í þróunarfasanum því straumlínulögun bílsins er sérlega vel heppnuð. Ekki einasta er loftmótstaðan með allra minnsta móti heldur eru línurnar aukinheldur glæsilegar á að líta og prófíll bílsins hefur næstum vökvakennda lögun. Útlit bílsins er allt hið glæsilegasta og ekki spillir AMG-pakkinn fyrir. Rauðir saumar í kolsvartri leðurinnréttingu og stýri ásamt rauðum öryggisbeltum gefa honum einkar gæjalegan svip, og svokallað „demantagrill“ dregur ekki úr tilkomumiklum framsvipnum nema síður sé. Þegar bíllinn er í ofanálag eldrauður blasir við að hér er komið ökutæki sem tekið er eftir. Glápfaktorinn svokallaði var líka með líflegasta móti þann tíma sem bílnum var reynsluekið um borgina og ljóst að þennan bíl kaupir vart nokkur sem almennt kýs að liggja í láginni.

Þá er panoramic-glerþakið feikivel heppnað og rímar fullkomlega við sportlega tilfinningu bílsins. Öryggisbúnaður gerir ökumanni þá ákaflega auðvelt fyrir, hvort heldur er í akstri, þegar bílnum er bakkað eða þegar lagt er í stæði. Bakkmyndavél og nálgunarskynjarar sjá til þess að tilvera ökumanns er með afslappaðasta móti og honum líður almennt vel undir sportlegu „flat-bottom“-stýrinu. AMG-merktar felgurnar setja líka laglegan svip á bílinn.

Fullfágaður, kannski?

Um leið og lúxussveipuð fágunin fer ekki á milli mála má spyrja sig hvort ekki hefði mátt gefa bílnum eilítið meira „úmmphff“ eins og yngri kynslóðin kemst svo skemmtilega að orði. Dísilvélin í bílnum telur reyndar ekki nema 170 hö en togið er fyrirtak og bíllinn rýkur af stað um leið og inngjöfin er stigin. Það væri samt gaman að fá svolítið meira urr þegar slegið er í klárinn. En það er kannski ekki útgangspunktur þeirra sem festa kaup á þessum bíl. Sjö gíra sjálfskiptingin er fín en mætti þó skipta svolítið röskar. Þetta er þó sparðatíningur út af fyrir sig og akstursánægjan af þessum bíl er ótvíræð. Ekki spillir fyrir að eyðslan er ekki nema rétt rúmlega fjórir lítrar á hundraðið í blönduðum akstri og þegar slagrýmið er 2143cc er ekki annað hægt en taka ofan.

Það verður þó að segjast eins og er að farangursrýmið er takmarkað, alla vega opið á skottinu þótt plássið sjálft sé þokkalegt, en hafa ber í huga að þessi bíll er ekki settur á markað til höfuðs skutbílum. Markhópurinn er lífsstílsdrifið fólk sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því að troða barnavagni í farangursrýmið og vill njóta lífsins á bíl sem unun er að keyra, sýna sig og sjá um leið aðra.

Að endingu skal segja hönnuðum Benz til hróss að búið er að draga mælaborð og tækjakost ökumanns í sérlega aðgengilega heild. Stundum, einkum í flaggskipinu úr S-línunni, er takkafjöldinn slíkur (í takt við allan aukabúnaðinn) að helst minnir á stjórnklefa í farþegaþotu. Hér er allt með stílhreinasta móti þótt hvergi hafi verið slegið af lúxusnum og AMG-týpan af Benz CLA er sannkallaður draumabíll þeirra sem vilja flottan og fágaðan borgarbíl sem tekið er eftir.

jonagnar@mbl.is

Flæðandi línur einkenna baksvipinn sem og önnur sjónarhorn og tvöfalda …
Flæðandi línur einkenna baksvipinn sem og önnur sjónarhorn og tvöfalda pústkerfið gefur sönn fyrirheit um að bíllinn hafi kraftinn.
Hliðarsvipurinn er alveg sérstaklega vel heppnaður og prófíllinn með þeim …
Hliðarsvipurinn er alveg sérstaklega vel heppnaður og prófíllinn með þeim flottari hjá Benz síðustu misserin, og er þó af nógu að taka á þeim bænum undanfarið. En CLA-bíllinn er hrein snilld.
CLA-týpan er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem sitja …
CLA-týpan er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem sitja frammi í, ökumann og farþega. Plássið er nægt og hlutir eins og glerþak, tvívirk loftkæling og fleira gerir aksturinn að hreinni ánægju.
Að sjá AMG merkið á Mercedes-Benz jafnast einfaldlega á við …
Að sjá AMG merkið á Mercedes-Benz jafnast einfaldlega á við loforð um skemmtun. Þetta loforð er efnt og vel það.
Stjórntækin eru með einkar þægilegri uppsetningu og efnisvalið til fyrirmyndar. …
Stjórntækin eru með einkar þægilegri uppsetningu og efnisvalið til fyrirmyndar. Rauðir saumar setja punktinn yfir i-ið. mbl.is/Kristinn
Hljómtækjaskjárinn er stór og þægilegur aflestrar og breytist í skjá …
Hljómtækjaskjárinn er stór og þægilegur aflestrar og breytist í skjá fyrir bakkmyndavél þegar sett er í bakkgírinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: