Hljóður og bara nokkuð góður

Torfærugeta nýs Touaregs er talsverð enda með sama undirvagn og …
Torfærugeta nýs Touaregs er talsverð enda með sama undirvagn og Porsche Cayenne. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Um síðustu helgi var kynntur til leiks nýr Volkswagen Touareg í Heklu en hann var fyrst kynntur erlendis í nóvember. Andlitslyfting nýs Touareg er ekki mikil en breytingin er samt þónokkur.

Grillið er nýtt, með fleiri láréttum línum í stíl við aðra bíla í VW-fjölskyldunni. Satt best að segja er allir Volkswagen-bílar orðnir svo líkir að það er eins og þeir komi allir úr sama mótinu. Stuðararnir hafa báðir verið endurformaðir og að aftan eru komin ný díóðuþokuljós. Að lokum fær hann nýjar 18-20 tommu álfelgur, fimm nýja liti og nýjar viðar- og leðurútfærslur í innréttingu.

Fjölhæf gormafjöðrun

Undirvagn Touareg er í grunninn sá sami og í Audi Q7 og Porsche Cayenne og vissulega eru þeir hugsanlegir keppinautar við þennan bíl, sérstaklega þegar hann kemur nú betur búinn. Bílarnir sem hingað koma eru á gormafjöðrun þótt vissulega sé hægt að panta loftpúðafjöðrun í dýrari útgáfum. Gormafjöðrunin kemur vel út og var látið reyna á hana í fjölbreyttum aðstæðum eins og grófum vegi og torfærum. Hún er mátulega stinn til að skaða ekki aksturseiginleika hans en tekur vel við grófum vegum eins og götur borgarinnar eru um þessar mundir. Helstu vélarnar sem nú eru í boði eru tvær þriggja lítra V6-dísilvélar og höfðum við bíl með minni vélinni til prófunar. Sú vél er endurhönnuð og uppfyllir nú Euro 6 staðalinn með minni útblæstri og eyðslu. Aðalmunurinn er þó á toginu sem fer úr 400 Nm í 450 Nm og finnst það ágætlega að hér er togmikill bíll á ferðinni. Vélin er samt ekkert sérstaklega kraftmikil og eins og vanti aðeins afl þegar komið er á snúning. Fyrir þá sem vilja meira ættu þeir að skoða 240 hestafla útgáfuna sem er enn meiri torkari með 3,5 tonna toggetu. Vert er að taka fram að vélin er þýðgeng og hljóðlát. Átta þrepa DSG-sjálfskiptingin með tvöfaldri kúplingu hefur fyrir löngu sannað getu sína og er hjónabandið fullkomnað með þessari vél.

Kemur vel út í samanburði

Grunnútfærslan kemur með 18 tommu álfelgum, leiðsögukerfi, 8 tommu snertiskjá, stafrænu útvarpi, blátannarbúnaði og bakkmyndavél með fjarlægðarskynjurum svo að búnaður bílsins er nokkuð góður í grunninn. Ekki skemmir heldur fyrir flott innrétting með efnisvali í svipuðum klassa og systurbílarnir Q7 og Cayenne. Einhverra hluta vegna var uppsetning á snjallsíma ekki möguleg gegnum snertiskjáinn svo að notast varð við flýtihnappa á stýri og minni skjáinn milli mæla til að allt virkaði eins og ætlast er til af löggjafanum. Sætin í bílnum voru leðurklædd sportsæti sem undirrituðum þóttu nokkuð stinn á langkeyrslunni sem var þó bara á Selfoss og aftur til baka að þessu sinni. Helsti keppinautur nýs Touareg er eflaust Land Rover Discover með þriggja lítra TDV6 og Land Cruiser 150, einnig með þriggja lítra dísilvél. Grunnverð hans er 9.740.000 kr. og þess breska 10.990.000 kr. svo að ekki verður kvartað yfir háu verði á VW í þeim samanburði.

njall@mbl.is

Kostir: Fjöðrun, hljóðlátur, verð

Gallar: Stinn sæti

Það er aðallega framendinn sem tekur smávægilegum breytingum í stíl …
Það er aðallega framendinn sem tekur smávægilegum breytingum í stíl við aðra bíla í VW fjölskyldunni, með fleiri línum í grilli og endurhönnuðum stuðara. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Efnisval og öll uppsetning mælaborðs og innréttingar eru til mikillar …
Efnisval og öll uppsetning mælaborðs og innréttingar eru til mikillar fyrirmyndar nema kannski lykillinn sem vildi skjótast út aftur ef honum var ýtt of laust á sinn stað. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Feikigott farangursrými er til staðar í Touareg eins og áður …
Feikigott farangursrými er til staðar í Touareg eins og áður og þægilegir notkunarmöguleikar eins og felling á sætum. Plássið er upp á heila 974 lítra sem er ekkert til að fúlsa við. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Þriggja lítra dísilvélin er togmeiri en áður og fer í …
Þriggja lítra dísilvélin er togmeiri en áður og fer í 450 Nm en er samt þýðgeng og hljóðlát. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: