Sígildur blæjubíll endurfæðist

„Fólk sem ekur alla jafna um á löglegum hraða á …
„Fólk sem ekur alla jafna um á löglegum hraða á ekki eftir að kvarta undan kraftleysi í vélinni.“ Ljósmynd/Youssef Diop

Kannski er það einhver lútersk hagsýni sem gæti skýrt hvers vegna blæjubílar eru svona sjaldséðir á íslenskum götum. Það viðrar sjaldan nógu vel til að fella blæjuna niður, og þakbúnaðurinn saxar á plássið í skottinu.

„Af hverju ekki að sleppa þessu bara?“ segir Íslendingurinn við sjálfan sig, heftur og bældur sem hann er.

Ítalinn, aftur á móti, lætur alla skynsemi lönd og leið. Lífið er til þess gert að njóta þess, finna vindinn í hárinu, sólina á eyrunum og spana um sveitirnar. Hvað með það þótt tveggja sæta blæjubíll sé eitthvert það ópraktískasta farartæki sem kaupa má – hann er þeim mun skemmtilegri. „La vita è bella!“ segir Ítalinn, setur upp sólgleraugun, hnýtir peysuna um herðarnar og heldur af stað í bíltúr.

Það er til lækning við því að vera niðurbrotinn Íslendingur, bugaður af norðanbyl og kreppu. Lækningin heitir Fiat 124 Spider.

Nútíma klassík

Fiat hóf smíði á þessu litla leikfangi á síðasta ári og endurlífgaði þar með markaðinn fyrir netta og ódýra tveggja sæta ítalska blæju-sportbíla. Nýi bíllinn er arftaki Fiat 124 Sport Spider sem framleiddur var á árunum 1966 til 1985, og var að margra mati með snotrari bílum sem runnið hafa af ítölsku færibandi. Til marks um vinsældirnar hefur enginn annar Fiat selst eins vel á Bandaríkjamarkaði og gamla 124-týpan.

Nýi 124 Spiderinn er líka í meira lagi huggulegur, en er reyndar smíðaður alla leið austur í Japan, í verksmiðju Mazda í Hiroshima. Kemur það til af því að bíllinn byggir að miklu leyti á Mazda MX-5 sportbílnum. Deila þeir flestu nema ytra byrðinu og vélinni en bílablaðamenn virðast almennt vera á þeirri skoðun að Fiatinn sé skemmtilegri í akstri, þótt báðir hafi sína styrkleika og veikleika.

Undir húddinu er 1,4 lítra bensínvél sem skilar 140 ítölskum hestöflum, nema ef keypt er bandaríska útgáfan sem er 20 hestöflum sterkari. Þetta þýðir að 124 Spider er engin raketta en bíllinn er þó alveg nógu öflugur og kjörinn til notkunar á þröngum og bugðóttum ítölskum sveitavegum. Fólk sem ekur alla jafna um á löglegum hraða á ekki eftir að kvarta undan kraftleysi í vélinni.

Gott farangursrými

Að utan er Fiat 124 Spider glæsilegur, þó án þess að hrópa á athygli. Útlitið er sportlegt en um leið aðgengilegt og fágað og díóðuljós gefa fallegan augnsvip. Blæjuna þarf að fella handvirkt, sem hjálpar væntanlega til að halda verðinu og þyngdinni niðri, og spara pláss í skottinu sem annars færi í að geyma mótora og arma. Kemur skottið enda á óvart, djúpt og mikið og á að rúma tæplega 140 lítra af farangri og innkaupapokum.

Ökumaður situr mjög þægilega en það gæti valdið lágvöxnum lesendum vandræðum að ekki virðist hægt að stilla hæð sætisins.

Ég gat látið hægri framhandlegginn hvíla þægilega á púða og gripið um leið um gírstöngina, nema að þá hætti mér til að reka handlegginn utan í stóran stjórntakkann fyrir leiðsögukerfið sem liggur mitt á milli púðans og gírstangarinnar. Þetta ætti ekki að vera vandamál á sjálfskiptu útgáfunni.

Þá er geymslupláss í farþegarýminu af mjög skornum skammti; ekkert hanskahólf, örlítið farsímabox undir framhandlegnum og smátt hólf á milli sætisbakanna.

Fyrir einstaklinga og pör

Fiat 124 Spider er bíll til að njóta hversdagsins, kjörinn fyrir heimili þar sem börnin eru ekki enn komin, ekki væntanleg, eða þá flogin úr hreiðrinu. Hann er sportlegur án þess að vera bandbrjálað tryllitæki, auðvelt er að setjast inn í hann og stíga út, og jafnvel með þakið uppi hefur ökumaður nokkuð gott útsýni í allar áttir. Sætin duga vel fyrir langar keyrslur og þó vegar- og vélarhljóð berist inn í farþegarýmið, er það samt ekki þannig að yfirgnæfi prýðilegt hljóðkerfið.

„Er Fiat farið að gera svona fallega bíla?“ spurði einn …
„Er Fiat farið að gera svona fallega bíla?“ spurði einn af umbrotsmönnum blaðsins við frágang greinarinnar. Baksvipurinn er ekki amalegur.
Ökumaður situr í þægilegu sæti. Leiðsögukerfinu má stjórna bæði með …
Ökumaður situr í þægilegu sæti. Leiðsögukerfinu má stjórna bæði með snertiskjá og með stýripinna.
Fiat 124 Spider er fullur af fegrandi smáatriðum eins og …
Fiat 124 Spider er fullur af fegrandi smáatriðum eins og þessu.
Meðalstóri bakpokinn góði hverfur hér um bil ofan í djúpt …
Meðalstóri bakpokinn góði hverfur hér um bil ofan í djúpt skottið.
Þakið er fellt og sett upp handvirkt og tekur það …
Þakið er fellt og sett upp handvirkt og tekur það enga stund.
Vel hefur tekist til við að beina vindinum frá farþega …
Vel hefur tekist til við að beina vindinum frá farþega og ökumanni þegar blæjuþakið er niðri.
Útlitseinkennin hafa haldið sér þrátt fyrir að langt hlé hafi …
Útlitseinkennin hafa haldið sér þrátt fyrir að langt hlé hafi verið gert á framleiðslunni. Myndin sýnir fagurrauðan Fiat 124 Spider árgerð 1970. Ljósmynd/Wikipedia - Lothar Spurzem (CC)
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: