Með ekkert lengur á hornum sér

Sú var tíðin að stóla mátti á fáeina hluti í annars hverfulum heimi fólksbílanna – Subaru er fjórhjóladrifinn, Toyota Land Cruiser selst eins og heitar lummur og Land Rover Discovery skartar yfirbyggingu sem einkennist af 90° hornum. Heiðarlega kassalaga bíll, semsé.

Þetta síðastnefnda krosstré hefir nú brugðist, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, og 5. kynslóð Discovery-jeppans fylgir hinum jeppunum í Land Rover-fjölskyldunni, en þeir hafa allir í auknum mæli fengið mjúkar straumlínur undanfarin misseri. Þetta er óneitanlega djarft skref og sú spurning vaknar hvort ekki hefði verið sterkari leikur, strategískt séð, að hafa einn bíl í vöruvali framleiðandans með þá sérstöðu að skarta harðari línum en restin? Þetta er vitaskuld smekksatriði sem lesendur verða að gera upp við sig sjálfir, enda est de gustibus non disputandum. Kunningi undirritaðs gantaðist löngum með að Discovery-jeppinn hefði bókstaflega allt á hornum sér enda hyrndur á alla kanta, en það er liðin tíð. Hann hefur bara ekkert á hornum sér lengur.

Verklegur á velli

Hornrétt yfirbyggingin á Discovery-jeppanum er semsagt fyrir bí, og á meðan sumir íhaldsmenn gráta máske kantaðar línur forveranna þá verður að segjast eins og er að „Disco 5“ er ólíkt dýnamískari að sjá; dálítið eins og kynslóðin á undan hafi verið sett í öfluga vindvél. Mjúkar línur eru allsráðandi og hann sveigist allur aftur á við, eins og á fleygiferð sé. Sumir eru á móti en ég er með, svei mér þá. Mér finnst þetta einfaldlega ferlega flottur bíll. Framsvipurinn og hliðarsvipurinn eru alltént hörkuflottir – stóri munurinn er afturendinn. Þar munar mest um brotthvarf 90° hornanna og fyrir þá kaupendur sem eru ferkantaðir í eðli sínu verður ekki annað sagt en að nú er Snorrabúð stekkur. Afturljósin eru orðin lárétt liggjandi í stað þess að liggja á hæðina og munar um minna. Það eina sem truflar undirritaðan aftur á móti að ráði er númersplatan; forverarnir voru jafnan útbúnir fyrir kassalaga númersplötu á skotthlerann, staðsett aðeins til vinstri, og það virðist nægilega mikilvægt atriði til að ákveðið hefur verið að halda í það milli kynslóða. Á nýja bílnum er númersplatan aftur á móti ílöng og það fer henni ekki ýkja vel að liggja svona á skjön. Skotthlerinn minnir helst á andlit með munninn beyglaðan til vinstri. En þetta er smekksatriði og óþarfi að eyða meira plássi í það. Heilt yfir er útlitsuppfærslan vel heppnuð og Discovery minnir nú ekki lítið á hinn volduga stóra bróður, Range Rover. Ekki leiðum að líkjast þar.

Innviðir við hæfi aðalsfólks

Fyrir innan er hins vegar varla neitt að deila um því þar er hann heldur betur ríkulega frágenginn í alla staði. Toffíbrúna leðuráklæðið í bílnum sem prófaður var þótti mér feikifallegt og passaði vel við djúpbláa litinn á bílnum. Mælaborðið er haganlega skipulegt og ýmsum búnaði er stýrt gegnum snertiskjá, svo takkar og snerlar eru smekklega af skornum skammti. Uppröðunin er að sumu leyti nýstárleg, til að mynda blasir takkinn fyrir hljóðstyrk ekki við fyrst um sinn því hann er lengst til hægri í innréttingunni, eins og hann sé ætlaður farþega í framsæti en ekki ökumanni. Þangað til undirritaður áttaði sig á þessu notaði hann vitaskuld hækka/lækka hnappana í stýrinu og skaðinn því óverulegur, bara á meðan hægt er að hækka. Ástæðan er sú að Meridian-hljóðkerfið í bílnum er hreint framúrskarandi. Tær hljómur, ljómandi hljóðdreifing og bassi sem lætur mjóhrygginn nötra – allt sem þú biður um þegar vönduð hljóðkerfi í bílum eru annars vegar. Að öðru leyti þarf svosem ekki að fjölyrða um innréttingar og efnisval í Disco 5, það er allt saman fyrsta flokks.

Hins vegar er vert að nefna 3. sætaröðina sem fólgin er í farangursrýminu. Skottið er nefnilega gríðarstórt og fátt sem gefur til kynna að þar sé að finna sæti fyrir fleiri en hina hefðbundnu fimm farþega. En ójú, með því sð styðja á hnappa vinstra megin í skottinu lyftast sætisbök aukasætanna upp úr gólfinu og það eru engir klappstólar og knöpp sæti, heldur þægileg sæti á pari við þriggja sæta bekkinn fyrir framan. Fótarýmið hentar ekki 2 metra háu fólki en plássið er samt sem áður prýðilegt.

Léttur á sér þó hann vigti sitt

Land Rover Discovery 5 er ekki léttur bíll. Reyndar vegur hann heil 2,4 tonn. Það eru þó bara tölur á blaði því hann er merkilega léttur á vegi, höndlar prýðilega og sprettir úr spori ef fæti stigið er niður til hraðaaukningar. Þá urrar hann líka með traustvekjandi hætti, ekki síst ef honum er smellt í Sport-gírinn. Loftpúðafjöðrunin er fyrirtak og það er einfaldlega gaman að keyra þennan veglega jeppa. Talsverður munur er á að aka Disco 4 og hvað þá Disco 3, samanborið við nýjustu kynslóðina og framþróunin jákvæð í alla staði.

Stóra spurningarmerkið lýtur því að útlitsbreytingunni og hvort hinir fastheldnu Discovery-aðdáendur sætti sig við að kantaðri hönnun bílsins hafi verið kastað fyrir róða. Persónulega er ég á því að það hefði ekki sakað að hafa einn ferhyrning í familíunni – allir hinir Land Rover-jepparnir eru rækilega straumlínulagaðir – því nú eiga ferkantaðir kaupendur ekki í nein hús að venda lengur. Hitt er svo annað mál að jeppinn er það góður í akstri, svo rúmgóður og vel búinn, að líkast til mun aðdáendaklúbburinn taka hann í sátt fljótt og vel, líka þeir sem settu fyrirvara við stökkbreytt útlitið.

Bíllinn sem prófaður var er í HSE-útgáfu með 3.0 lítra túrbó-dísilvél, verulega skemmtilegri. Þá kostar hann um 12,7 milljónir en er fáanlegur frá tæplega 9,4 milljónum. Hvor bíllinn fyrir sig eru góð kaup – spurningin er bara hvað þú vilt láta mikinn munað eftir þér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: