Við birtingu sölutalna fyrir liðinn júlímánuð kom í ljós að Audi hefur tekið fram úr BMW sem söluhæsti þýski lúxusbílaframleiðandinn. Þar á eftir kemur svo Mercedes Benz. Sala Audi var 119.600 í júlí, en BMW 113.253 og Benz 97.327 bílar. Aukningin hjá Audi frá fyrra ári nam 12,9% fyrir mánuðinn og er hæsti júlímánuður frá upphafi. BMW var líka með aukningu upp á 4,2% en Mercedes Benz varð að þola söluminnkun um 3,1%.
Audi á von á áframhaldandi velgengni fyrirtækisins á seinni hluta ársins og telur að tilkoma nýs A3-bíls muni hjálpa þar verulega til. Kínamarkaður, sem er sá stærsti hjá Audi, átti stærstan hlut í velgengninni í júlí. Aukningin þar nam 18,4% og af öllmu Audi-bílum seldum í heiminum í júlí seldust 27,5% þeirra í Kína. Sala á Q5-bílnum, sem framleiddur er í Kína, jókst um 80%.
Aukning seldra bíla hjá Audi í Evrópu var 5,5% í júlí og ef allir liðnir mánuðir ársins eru skoðaðir nemur aukningin aðeins 3,1%, en er þó 7,8% í Þýskalandi. Fjórði stærsti markaður Audi er í Englandi og jókst salan þar um 8,8% í júlí og er 5,0% yfir árið. Salan hjá Audi féll á Ítalíu um 10,7% í júlí, 13,5% á Spáni og 1,6% í Frakklandi.
Á þriðja sterkasta markaði Audi, í Bandaríkjunum, varð mikil aukning, 28,0%, og aukningin yfir árið er 18,2%. Heildaraukning í sölu Audi-bíla fyrstu sjö mánuði ársins er 12,4%, en 7,7% hjá BMW og 5,5% hjá Mercedes Benz. Það verður að teljast góður árangur hjá þýsku framleiðendunum, en mörg önnur bílamerki hafa þurft að þola talsverða söluminnkun.
Á síðasta ári seldi BMW 1,38 milljónir bíla, Audi 1,30 og Benz 1,26. Þessar tölur verða hærri fyrir árið í ár, en spurningin er hvort röðin á framleiðendunum verði ekki önnur og efst á blaði verði Audi.