Tilurð og merking bílamerkja

Bílaiðnaðurinn á sér langa og góða sögu uppfinninga og hönnunar og merk bíltegundanna eru mörg hver ein þau best þekktu af öllum vörumerkjum heims. Hugvitssemi er ekki bara sjáanleg í framleiðsluvörunum, heldur einnig í tilurð og útliti merkjanna.

Hér er aðeins fjallað um tilurð nokkurra þeirra og hvað það er sem gerir þau svo sérstök. Flest eru alls ekki teiknuð út í loftið heldur eru hlaðin meiningu og sögu fyrirtækjanna.

Toyota

Það má léttilega færa fyrir því rök að Toyota-merkið sé það best heppnaða í bransanum og ekkert skortir á að heimsbyggðin þekki það vel. Í merki Toyota er bæði að finna falda stafi og falda merkingu í annars einföldu lógói. Ef rýnt er í merkið má finna alla stafi T-O-Y-O-T-A, en líklega hafa ekki margir áttað sig á því fyrr en bent er á það. Önnur falin merking er fólgin í því að merkið sýnir þráð þræddan gegnum nálarauga, sem líklega jafn fáir hafa áttað sig á. Saga Toyota er nefnilega sú að það byrjaði sem framleiðandi vefnaðarvara og því eru ræturnar enn skýrar í merki félagsins. Þarna er hugvitssemin á sínu hæsta stigi.

BMW

Þetta sterka merki þýska bílaframleiðandans þarf eiginlega að fá sérstaka viðurkenningu fyrir tvennt. Það er gríðarlega þekkt um allan heim og að það hefur ekki breyst frá upphafi, sem spannar næstum heila öld. Skilaboðin með hvítu og bláum fjórðungunum er skýr þegar haft er í huga að BMW byrjaði sem flugvélaframleiðandi og þau túlka fyrir vikið þá sjón sem blasir við áhorfanda beint fyrir framan skrúfu á flugvél sem er í gangi. Þegar skrúfan snýst hratt verður til sjónræn blekking sem túlkuð er svo vel í merki BMW. Merkið er hinsvegar svo einfalt, litsterkt og fallega hannað að engin ástæða hefur þótt að breyta neinu í því frá upphafi.

Subaru

Merki Subaru er athyglivert fyrir merkinguna sem í því felst. Subaru var reyndar fyrsti japanski bílasmiðurinn til að nota japanskt orð á heiti fyrirtækisins. Subaru er japanska orðið fyrir Sjöstirnið, þekkt stjörnumerki sem sést einkar vel hér á landi ef nóttin er björt og er ekki langt frá Orion. Á ensku er Sjöstirnið þekkt sem „Seven Sisters“. Hinsvegar eru aðeins sex stjörnur í merki Subaru, fimm þeirra tákna fimm mismunandi deildir Subaru og ein, sú stærsta, táknar móðurfyrirtækið í heild.

Smart

Hér ríkir einfaldleikinn og innsæið og skilaboðin geta ekki verið skýrari en í merki Smart. C stendur fyrir „Compact“ eða samþjappað, sem lýsir bílum þeirra vel og örin vísar í framsýna hugsun þeirra og kaupenda á bílum þeirra. Þetta tvennt lýsir fyrirtækinu eins vel og einfaldlega og hægt er.

Alfa Romeo

Í merki Alfa Romeo er fólgið margt úr sögu þess svæðis sem bílasmiðurinn er frá og er slíkt nokkuð sérstakt. Fer sagan ærið langt aftur í tíma eða frá tímum krossfaranna. Hægra megin er snákur eða dreki í óðaönn að éta einn af höfuðandstæðingum Mílanóbúa, „Saracens“, eða múslima sem ágirndust land þeirra og herjuðu mjög á Ítalíu forðum. Vinstra megin er síðan herfáni Mílanó, en þaðan er jú Alfa Romeo.

Audi

Í merki Audi er eins og í mörgum öðrum merkjum bílaframleiðenda fólgin saga fyrirtækisins. Hringirnir fjórir tákna þau fjögur fyrirtæki sem sameinuðust við framleiðslu Audi-bíla. Hringirnir eru bundnir saman sem táknar hversu traustum böndum þessi fyrirtæki bundust við að framleiða vel heppnaða vöru, sem sannarlega hefur tekist. Hringirnir fjórir tákna líka þau fjögur dekk sem bílar standa á og er mjög viðeigandi fyrir bílaframleiðanda.

Rover

Enn er farið langt aftur í söguna með merki breska framleiðandans Rover. Í merki þeirra er víkingaskip seglum þöndum. Víkingar voru bæði á Norðurlöndum og á Bretlandseyjum og áræði þeirra, ævintýraþrá og hugrekki á að tákna það sem Rover stendur fyrir. Vonandi táknar víkingaskipið ekki fyrir suma rán, nauðganir, ambátta- og þrælatöku og gegndarlausa drykkju. Kannski skýrir það út litla velgengni framleiðandans á undaförnum árum!

Volvo

Nafnið Volvo kemur úr latínu og merkir „ég velt“. Þetta nafn er afar lýsandi fyrir sænska bílaframleiðandann sem framleiðir bíla sem öðrum bílum fremur geta oltið án þess að skaða farþega þeirra. Hringur merkisins ásamt örinni er einnig einkennismerki stáliðnaðarins, en stál er og hefur verið meginuppistaða bíla, hvað sem síðar verður. Einnig er hringurinn ásamt örinni tákn fyrir karla og ber því með sér karlmennskulegan styrk.

Opel

Merki Opel hefur ávallt byggst á hring eða stafnum o. En það sem inni í honum hefur verið hefur breyst talsvert í áranna rás. Fyrst var loftfar inni í hringnum sem táknaði framleiðsluvöru þeirra þá og þýska verkfræðigetu. Það þróaðist síðan í útlínur bíls, af eðlilegum ástæðum. Það breyttist síðan í eldingu svo ekki þyrfti að vera að breyta merki fyrirtækisins í hvert skipti sem framleiðsluvörur þess breyttust. Merkið táknar einnig hraða og kraft sem á vel við bílaframleiðanda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Loka