Brunnu lifandi til bana í bílnum

Rússneska umferðarlögreglan er máttlítil gagnvart umferðarmenningunni í landinu.
Rússneska umferðarlögreglan er máttlítil gagnvart umferðarmenningunni í landinu.

Ekki fer gott orð af umferðarmenningunni í Rússlandi en þar í landi biðu 28.000 manns bana í umferðinni í fyrra. Í gærkvöldi brunnu tveir ungir Rússar lifandi til bana eftir umferðarslys við Pétursborg.

Sex ungmenni voru á ferð í öflugri Mercedes-Benz bifreið er hinn átján ára gamli ökumaður missti stjórn á henni á 200 km/klst ferð í beygju. Hafnaði bíllinn utan vegar eftir nokkrar veltur og kviknaði í honum.

Fjórum ungmennum tókst að skríða út úr flakinu en máttu síðan horfa á félaga sína tvo brenna til bana, að sögn lögreglu. Samkvæmt frumrannsókn hennar voru ökumaður og fareþgar allir undir áhrifum áfengis þegar slysið átti sér stað.

Miðað við fjölda ökutækja á hvern íbúa er manntjón í umferðinni hlutfallslega einna langhæst í Rússlandi. Kemur áfengi mjög oft við sögu ásamt því sem lítil virðing er borin fyrir umferðarreglum.

mbl.is

Bloggað um fréttina