Flest er rannsakað og niðurstaðan oft sú að ótrúlegt samhengi er milli þeirra þátta sem rannsakaðir eru. Til dæmis að þráður sé algengur á milli stutts nafns og auðs, og er þá vitnað til dæmis til nafnsins Bill Gates.
En samfellan er á fleiri sviðum og nýlega var til að mynda frá því skýrt að rannsóknir hefðu leitt í ljós að því hærri laun sem menn hefðu því oftar stunduðu þeir kynlíf í viku hverri.
Þetta er náttúrlega fánýtur fróðleikur en það er annað í rannsóknum á fari ríkra sem vegfarendur varðar og gerir að verkum að þeir stinga í stúf. Félagsvísindamaðurinn Paul K. Piff við Kaliforníuháskólann í Berkeley tók sér fyrir hendur að rannsaka hvort ríkt fólk hagaði sér öðruvísi undir stýri dýrra bíla en aðrir.
Vettvangur rannsóknarinnar var meðal annars stór og flókin gatnamót og skoðað var meðal annars hvernig ökumenn mismunandi bíla brugðust við gangandi vegfarendum og umgengni ökumanna við umferðarljósin.
Niðurstaðan var sú að ökumenn dýrari bíla eru líklegri til að svína á gatnamótum og snarbeygja í veg fyrir fólk á gangbraut. Ökumenn ódýrari bíla stoppuðu hins vegar alltaf fyrir fólki sem reyndi að komast gangandi yfir gatnamót.