Illlæsilegar merkingar fyrir læsa bíla

Til að búnaðurinn virki þurfa línurnar að vera réttar. Hér …
Til að búnaðurinn virki þurfa línurnar að vera réttar. Hér eru þær kolrangar og búnaðurinn les þær ekki. mbl.is/Malín Brand

Nýjasti tækni- og öryggisbúnaður í bílum virkar ekki hér á landi vegna þess hve lélegar yfirborðsmerkingarnar eru.

Mið- og kantlínum er verulega ábótavant og því er ekki hægt að treysta á að fullkominn öryggisbúnaður sem fáanlegur er í æ fleiri bíla virki þegar til kastanna kemur.

Bílablað Morgunblaðsins gerði ásamt Ólafi Guðmundssyni hjá FÍB nákvæma athugun á því hvernig „læsir bílar“ læsu helstu vegi á Suðurlandi og voru niðurstöður þeirrar athugunar sláandi.

Fengnir voru tveir bílar sem búnir eru Active Lane Keeping Assist sem lætur ökumann vita ef hann er að fara yfir á öfugan vegarhelming eða ef hann er að fara út af. Hægt væri að kalla búnaðinn „veglínulesara“ þar sem bíllinn, búinn myndavélum, les yfirborðsmerkingu vega. Veglínurnar, þ.e. miðlínur og kantlínur, eru lesefnið, ef svo má að orði komast.

Býsna fullkominn búnaður

Fengnir voru að láni tveir bílar sem eru með veglínulesara. Nissan Note annars vegar, sem er ódýrasti bíllinn með þessum búnaði hér á landi, og hins vegar Mercedes-Benz GL-350 sem er með sama búnaði en lætur ökumanninn vita með öðrum hætti þegar hann „fer yfir strikið“.

Búnaðurinn, ásamt Active Blind Spot Assist sem lætur vita ef bíll er í blinda punkti ökumanns, var í fullkomnu lagi og ekkert upp á hann að klaga. Það sást vel á þeim vegum sem eru rétt merktir að ekki er það búnaðurinn sjálfur sem er vandamálið.

Vandinn er hins vegar sá að línurnar á veginum rugla búnaðinn því þær eru of, þunnar, mjóar og ógreinilegar.

Nú skyldi maður ætla að vegir hér á landi væru ekki opnaðir og taldir nothæfir fyrr en búið væri að ganga frá öllum öryggisatriðum og þar með talið réttum merkingum á vegum. Ekki frekar en íbúðablokk gæti kallast tilbúin án handriðs í stigagangi eða eitthvað í þá veru. Þá er nærtækt að skoða nýjasta veginn á Íslandi. Suðurstrandarveginn sem nær frá Þorlákshöfn til Grindavíkur. Sá vegur var formlega opnaður 21. júní 2012.

Áhugavert er að sjá að einungis er á honum miðlína og sums staðar er býsna langt á milli línanna. Hvergi eru kantlínur á veginum, nema á elsta hluta vegarins við Þorlákshöfn. Kanturinn er ekki vel sýnilegur og aðeins um 6,6 metrar af sjálfum kantinum yfir vegöxlina og út í úfið hraunið. Er ásættanlegt að vegir séu sagðir tilbúnir og opnaðir þegar einfaldar öryggismerkingar á borð við kantlínu vantar?

Endurskoðunar er þörf

Aðspurður segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, að í niðurskurðinum hafi verið farið út í það að mjókka línur og þær annaðhvort málaðar eða gerðar úr plastefni.

Málningin er notuð á umferðarminni vegi og er 0,2 millimetrar á þykkt. Á hringveginn er notaður plastmassi sem er bræddur og sprautað út 200°C heitum og bráðnar ofan í veginn. Þykkt plastmassans er frá 0,7 mm til 1,5 mm á þykkt.

Guðmundur Finnur Guðmundsson, verkefnastjóri yfirborðsmerkinga hjá Vegagerðinni, telur að fleira geti haft áhrif á að línurnar séu illsjáanlegar víða.

Bæði eru vegirnir ekki eins góðir og víða erlendis, það sé ekki malbikað nema rétt út fyrir borgarmörkin og þar taki klæðning við sem er með mun grófara yfirborði en malbikið.

„Auk þess er stöðug krafa um betri snjómokstur og þá er það línan sem finnur fyrir því,“ segir Guðmundur og bætir því við að nagladekk eigi líka sinn þátt í að fara illa með yfirborðsmerkingar veganna.

Það breytir því hins vegar ekki að bílar með þessari nýjustu tækni sem ætlað er að auka öryggi vegfarenda til muna eru komnir til landsins og fáanlegir í dýrum sem ódýrum útfærslum. Framtíðin er meðal annars fólgin í mun betri tæknibúnaði bíla og ef íslenskir vegir eru ekki nægilega vel merktir til að hægt sé að nýta þann búnað hlýtur að mega leggja til að yfirborðsmerking verði endurskoðuð til þess að mæta kröfum um öryggi.

malin@mbl.is

Búnaðurinn tekur í taumana ef ökumaður er á leið út …
Búnaðurinn tekur í taumana ef ökumaður er á leið út af veginum.
Kantlínur eru vart sýnilegar á Reykjanesbrautinni. Búnaðurinn í þessum bíl …
Kantlínur eru vart sýnilegar á Reykjanesbrautinni. Búnaðurinn í þessum bíl getur ekki lesið veginn þar sem ekkert er „lesefnið“. mbl.is/Malín Brand
Nýjasti vegurinn er Suðurstrandarvegur. Hann er tilbúinn en án kantlína.
Nýjasti vegurinn er Suðurstrandarvegur. Hann er tilbúinn en án kantlína.
Einn hættulegasti vegkafli landsins er á Suðurlandsvegi í Ölfusi. Þar …
Einn hættulegasti vegkafli landsins er á Suðurlandsvegi í Ölfusi. Þar sárvantar yfirborðsmerkingar og er ólæsilegur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka