Viðgerðarhlé hafa breyst frá 1950

Viðgerðarhlé í Formúlu 1 eru eins og vel æfður, en ótrúlega stuttur, ballett. 20 manna lið sér um að þjónusta bílinn á örfáum sekúndum. Fyrir 60 árum var annað uppi á teningnum. Þá máttu aðeins fjórir vinna við hvern bíl, að bílstjóranum meðtöldum.

Í meðfylgjandi myndbandi eru borin saman viðgerðarhlé frá Indianapolis 500 kappakstrinum árið 1950 (sem taldi til stiga í Formúlu 1, en var tæknilega keyrður eftir öðrum reglum) og Melbourne kappakstrinum í fyrra.

Í þeim fyrri má meðal annars sjá sama manninn skipta um bæði framdekkin á bílnum, einan síns liðs. Hann hamast með hamar á öðru hjólinu í þónokkra stund, áður en það losnar loksins. 

Í seinni kappakstrinum eru þrír menn sem sjá um hvert dekk og það er eins gott að þið einbeitið ykkur vel, ef þið viljið ekki missa af því. 

mbl.is