Jenson Button sendiherra Rolls-Royce

Button hafði madeirarauðan Rolls-Royce Ghost til afnota á kappaksturshelginni í …
Button hafði madeirarauðan Rolls-Royce Ghost til afnota á kappaksturshelginni í Barein.

Jenson Button, Formúlu-1 ökumaðurinn vinsæli sem varð heimsmeistari ökumanna árið 2009, hefur verið ráðinn sendiherra breska eðalbílasmiðsins Rolls-Royce. Hann segir að hlutverkið útheimti „hörkupúl“.

Á tíu kappaksturshelgum þarf Button auk starfsins hjá keppnisliði McLaren að sinna kynningarakstri fyrir Rolls-Royce. Breski bílasmiðurinn er í eigu þýska lúxusbílasmiðsins BMW og því er spurt hvernig það megi vera, að keppinautur liðs á mála hjá Mercedes valdi að starfa fyrir Rolls-Royce.

Þar togast reyndar engir hagsmunir lengur á þar sem Mercedes-Benz gafst í fyrra upp á smíði stóru lúxusbílanna Maybach sem var helsti keppinautur Rolls-Royce.

Ökumannsstarf í Formúlu-1 er afar líkamlega og andlega krefjandi. Milli þess að aka formúlubíl sínum verður það því fremur sem afslöppun fyrir Jenson Button að keyra gesti og gangandi um í hinum ýmsu eðalmódelum Rolls-Royce, eins og Wraith, Phantom Drophead Coupé og Ghost.

„Ég er yfir mig ánægður með að njóta hins allra besta í breskri lúxusbílasmíði á ferðalögum mínum um heiminn í ár. Sérstaklega hlakka ég til að keyra Wraith sem er stórkostleg viðbót við flota Rolls-Royce, fallegur og töfrandi í akstri,“ segir Button um sitt nýja starf.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: