Nóg að gera hjá lögmönnum GM

Táknmerki Chevrolet á Silverado pallbíl frá General Motors.
Táknmerki Chevrolet á Silverado pallbíl frá General Motors. mbl.is/afp

Bandaríski bílrisinn General Motors (GM) stendur frammi fyrir afar háum lögfræðikostnaði á næstu mánuðum og misserum. Sætir GM rannsókn hjá báðum deildum bandaríska þingsins og saksóknarar í 45 ríkjum af 50 skoða málshöfðun á hendur bílrisanum.

Þessu til viðbótar blasir við GM glæparannsókn á hendur fyrirtækin af hálfu bandaríska dómsmálaráðuneytisins.  

Öll þessi mál snúast um gallaða kveikjurofa sem taldir voru geta verið lífshættulegir og GM hafi vitað um en látið hjá líða að gera eitthvað í málinu í rúman áratug. Um er að ræða galla í a.m.k. 2,6 milljónum bíla sem hafa verið endurkallaðir til úrbóta. Hefur félagið orðið að innkalla 29 milljónir bíla í Norður-Ameríku einnig vegna þessa galla og annarra.

Kostnaður GM er þegar orðin mikill vegna alls þessa og gengið hefur verulega á hagnað þess. Til þessa hefur einni rannsókn verið lokið með 35 milljóna dollara sekt.

Þykir allt benda til að önnur mál og rannsóknir eigi eftir að leiða til milljarða dollara í kostnað og sektir. Þá á GM yfir höfði sér málaferli vegna bóta sem krafist er fyrir manntjón í slysum sem rakin hefur verið til gallaðra kveikjurofa. Af hálfu GM er viðurkennt að 13 manns hafi beðið bana en Þjóðvegaöryggisstofnun Bandaríkjanna (NHTSA) telur að fjöldinn gæti reynst miklu meiri.

Höfuðstöðvar General Motors í bílaborginni Detroit í Bandaríkjunum.
Höfuðstöðvar General Motors í bílaborginni Detroit í Bandaríkjunum. mbl.is/afp
mbl.is