Heimsins minnsta jeppavél var kynnt til sögunnar er Ford EcoSport jepplingurinn var frumsýndur við setningu Samveldisleikanna í íþróttum í Glasgow í Skotlandi.
Ford er einn helsti styrktaraðili leikanna og lagði mótshöldurum til á tólfta hundrað bíla svo framkvæmd leikjahaldsins og flutningar þeirra vegna mætti vera sem liðugust.
Það eru sem sagt ekki bara íþróttamenn sem metin setja því Ford EcoSport mun búinn heimsins minnstu jeppa bensínvél. Slagrýmið er aðeins einn lítri. Aflið er þó ekki í lægri kantinum heldur býður hún upp á 125 hestöfl, eða 13 hestum meira en 1,5 lítra bensínvélin. Þá fer hún með 4,5 lítra á hundraðið.
Ford EcoSport er enn sem komið er eingöngu smíðaður í Indlandi og verður í sömu útgáfu fyrir öll heimsins lönd. Hann er, að sögn Ford, tæknilega vel búinn og er í samkeppni á bílamarkaði teflt fram jepplingnum Nissan Juke.