Færri nota einkabílinn í Reykjavík

Fleiri hjóla en áður.
Fleiri hjóla en áður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hlutdeild vistvænna samgangna hefur aukist töluvert í Reykjavík undanfarin ár og æ fleiri bílstjórar og farþegar velja fremur að ganga eða hjóla á ferðum sínum um borgina. Þetta kemur fram í nýrri ferðavenjukönnun sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin létu framkvæma nú í haust.

Hlutdeild þeirra sem nota bíla í Reykjavík hefur lækkað síðastliðin þrjú ár. Árið 2011 fóru 74,8% aðspurðra ferða sinna á bíl eða sem farþegar en 70,4% árið 2014. „Þessar tölur sýna að nú eiga breytingar sér stað í Reykjavík eins og í mörgum öðrum borgum. Skoðanakannanir hafa sýnt aftur og aftur að fólk vill eiga þess kost nota hagkvæma og vistvæna ferðamáta á leiðinni í og úr vinnu. Þess vegna kemur það ekki á óvart að þeim fjölgi sem gera það," segir Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og bætir því við að lykillinn að góðu og manneskjulegu borgarumhverfi séu góðar göngu- og hjólaleiðir ásamt almenningssamgöngum. 

Þetta er í þriðja sinn sem ferðir íbúa höfuðborgarsvæðisins eru mældar í svo viðamikilli könnun, fyrst árið 2002. Úrtakið núna var 12.747, þar af 7.934 í Reykjavík og tóku 42,6% þátt. Framkvæmdatíminn var 8. október - 16. nóvember 2014. Hægt var að svara á vefslóð með veflykli og hringt var út til að bjóða fólki að svara í síma. Capacent Gallup framkvæmdi könnunina.

Fleiri ganga og hjóla

Töluvert fleiri fara nú ferðir sínar fótgangandi í Reykjavík eða 18% árið 2014 miðað við 15,9% árið 2011. Þá hefur hjólreiðafólki fjölgað um 17% á þremur árum. Árið 2011 hjóluðu 4,7% aðspurðra Reykvíkinga milli staða en nú eru það 5,5%. Þá fara nú 6% fleiri með strætó eða 4,8% en árið 2011 fóru 4,5%.

Könnunin staðfestir ákveðna breytingu sem á sér stað um þessar mundir á höfuðborgarsvæðinu í heild sem er að gangandi og hjólandi fjölgar í kjölfar þess að aðstæður til að komast milli staða batna fyrir þennan hóp.

Þau sem kjósa að hjóla til og frá vinnu eða skóla á höfuðborgarsvæðinu í heild, þegar nágrannasveitarfélögin eru tekin með, hefur fjölgað um 20% frá síðustu könnun, frá því að vera 3.8% í 4.5%.

Ferðir í strætisvagni á höfuðborgarsvæðinu í heild eru vinsælastar hjá aldurshópnum 13-17 og 17-24 ára og fara um 23% þeirra daglega í strætó.

Vesturbæingar hvíla bílinn

Þegar Reykjavík er skoðuð eftir hverfum koma fram jákvæðar breytingar  í takt við áherslur í aðalskipulagi Reykjavíkur um að tryggja öruggar, skilvirkar, þægilegar og vistvænar samgöngur fyrir alla. Í því samhengi má nefna lengd sérstakra hjólastíga í Reykjavík hefur aukist úr 14 km árið 2011 í 30 km árið 2014.

Töluverðar breytingar á ferðavenjum hafa orðið í nokkrum hverfum borgarinnar, t.d. hvíla íbúar í Vesturbæ bílinn oftar en þeir gerðu árið 2011, því 73% þeirra fóru þá ferða sinna á bíl sem bílstjórar eða farþegar í bíl en nú um 62%. Fleiri hjóla og ganga en áður.

Segja má að Vesturbæingar nálgist óðfluga markmið aðalskipulags Reykjavíkur um að hlutdeild bílferða af öllum ferðum lækki úr 75% árið 2011 í 58% árið 2030.
 

Íbúar í nágrenni við Laugardal ganga

Í Laugardal og nágrenni fara 21% íbúa ferðir sínar gangandi nú en 16% gerðu það árið 2011. Miðborgarbúar eru einnig duglegir að ganga eða 31%. Markmiðið í aðalskipulagi Reykjavíkur er að hlutdeild gangandi verði 30% árið 2030 í borginni allri.

Íbúar í Hlíðunum hafa tekið við sér hvað hjólreiðar varðar, því 9% þeirra hjóla til og frá vinnu eða skóla í samanburði við 5% árið 2011.


Árbæingar hafa fækkað bílferðum sínum sem bílstjórar eða farþegar úr 77% í 74%

Frétt Reykjavíkurborgar

mbl.is