Spyker í þrot

Spyker C8 Aileron á ferð.
Spyker C8 Aileron á ferð.

Hollenski sportbílasmiðurinn Spyker hefur verið lýstur gjaldþrota. Dýrkeyptur málarekstur varð honum að falli.

Spyker var lýstur gjaldþrota í gær en hann hélt um árið út liði til keppni í formúlu-1 og átti um tíma sænska bílsmiðinn Saab.

Forstjóri Spyker, Victor Muller, segir að gjaldþrotið ekki gera endanlega útaf við bílsmiðinn. Hann sagðist vona að skiptaráðandi gæti fundið leiðir til áframhaldandi reksturs er gera myndi Spyker kleift að mæta aftur til leiks með byltingarkennda rafbíla.

Fyrir hálfum mánuði fékk Spyker greiðslustöðvun til tveggja vikna til að finna nýtt fjármagn til að borga skuldir sínar. Það tókst ekki í tæka tíð. Bílsmiðurinn hefur átt í miklum fjárhagsörðugleikum sem urðu aðeins ennþá verri eftir kaupin á Saab frá General Motors 2010 á 1,5 milljarð dollara.

Tveimur árum seinna varð Saab gjaldþrota eftir að General Motors lagðist gegn aðkomu kínverskra fjárfesta til að koma í veg fyrir að þeir gætu nýtt sér framleiðslu- og bíltækni GM í bílsmiðju Saab. Stefndi Spyker General Motors vegna þessa; hélt því fram að GM hefði rekið Saab í þrot og krafðist þriggja milljarða dollara í bætur.  Tapaði Spyker því máli bæði í undirrétti og fyrir áfrýjunardómi.

Liður í erfiðleikum hollenska sportbílasmiðsins er þó ekki bundinn við þetta mál eingöngu. Staðreyndin er sú, að eftirspurn eftir annars ágætum bílum hans hefur ekki getað talist mikil. Þannig mun Spyker til að mynda aðeins selt þrjá bíla árið 2012, samtals að verðmæti 700.000 evrur. Tapaði Spyker það árið sex milljónum evra á rekstri sínum.

Spykar var stofnað árið 1880 af tveimur bræðrum,  Jacobus og Hendrik Jan Spyker. Sérhæfði það sig í og smíðaði það einhverja hina allra fyrstu lúxusbíla. Sömuleiðis framleiddi fyrirtækið flugvélamótora en lagði upp laupana árið 1925.

Victor Muller brúkaði síðan þetta nafn á fyrirtæki sem hóf göngu sína árið 2000. Lét það um skeið formúlu-1 til sína taka og einnig sólarhringskappaksturinn í Le Mans í Frakklandi.

Óneitanlega smíðaði Spyker flotta bíla en eftirspurn hefur þó verið …
Óneitanlega smíðaði Spyker flotta bíla en eftirspurn hefur þó verið takmörkuð.
mbl.is