1.502 látnir í 1.374 banaslysum

Skráin mun nýtast í starfi að umferðaröryggismálum
Skráin mun nýtast í starfi að umferðaröryggismálum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Orðið hafa 1.374 banaslys í umferðinni frá upphafi bílaaldar, eða í tæp 100 ár, og í þeim hafa látist 1.502 einstaklingar. Þetta má lesa úr banaslysaskrá sem Óli H. Þórðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Umferðarráðs, hefur tekið saman.

Skráin mun nýtast í starfi að umferðaröryggismálum, segir Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri umferðarslysa.

Óli hóf vinnu við banaslysaskrána í byrjun árs 2007, eftir að hann lét af störfum hjá Umferðarráði og hefur því unnið að verkefninu í átta ár. Hann gat þess raunar í gær að hann hefði óvart byrjað á öðru verkefni þegar hann var að leita að heimildum um banaslysin, það sem hann kallar drög að umferðarsögu Íslands. Einhver tími hefur farið í það enda segist hann hafa fundið margt áhugavert sem tengist umferðarsögunni. Hefur Óli hug á að vinna áfram að sögunni en tekur fram að ekki séu áform um að gefa hana út á bók.

Hann hefur haft aðstöðu hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, nú Rannsóknarnefnd samgönguslysa, en hefur unnið sjálfstætt að verkefninu, án þess að fá greitt fyrir vinnuna.

Óli segir að mesta vinnan hafi farið í leit að heimildum um banaslys fyrir árið 1968. Í einstaka tilvikum hafi hann notað heila viku til að afla upplýsinga um eitt slys. Auk dagblaða og lögregluskýrslna hefur hann haft samband við 439 heimildarmenn um allt land, meðal annars fjölda aðstandenda fólks sem látist hefur í slysum. Hann segist hafa unnið að þessu í minningu þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi og ekki síður í hluttekningu við aðstandendur.

Sá gagnabanki sem Óli hefur skráð verður afhentur Rannsóknarnefnd samgönguslysa til þess að haldið verði áfram að uppfæra hann. „Hann á að nýtast íslensku þjóðinni áfram,“ segir Óli.

Merkilegt framtak

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sagði framtak Óla merkilegt. Taldi hann sig geta fullyrt að þetta væri eini gagnagrunnurinn í heiminum þar sem skráð væru öll banaslys frá upphafi bílaaldar í heilu landi. Sagði hann að Óli hefði unnið óeigingjarnt starf og skilað vandaðri vinnu.

Út úr grunninum er hægt að vinna margskonar tölfræði og sýndi Óli dæmi um það á kynningarfundinum. Ágúst benti á að hægt væri að vinna frekari greiningar og myndi banaslysaskráin nýtast í baráttunni gegn umferðarslysum. Hann bætti því við að þótt slysum hefði farið fækkandi síðustu ár mætti ekki sofa á verðinum, nauðsynlegt væri að halda áfram úti öflugu umferðaröryggisstarfi.

Banaslys
» Fyrsta banaslysið í umferðinni varð 25. ágúst 1915 þegar níu ára drengur hljóp fyrir reiðhjól í Austurstræti og lést af völdum höfuðhöggs.
» Fyrsta banaslysið af völdum bifreiðar varð 29. júní 1919 þegar Margrét Helgadóttir frá Skógargerði varð fyrir bifreið í Bankastræti.
» Mannskæðasta árið í umferðinni var 1977. Þá létust 37 menn í 33 banaslysum.
» Síðustu árin hefur banaslysum farið fækkandi og á árinu 2014 létust fjórir í þremur slysum. Svo fáir hafa ekki látist frá því fyrir stríð.
» Í yfirliti Óla má sjá að fram til 1964 urðu flest banaslysin í þéttbýli en síðan hafa þau smám saman verið að færast út á þjóðvegina og nú er meirihluti slysanna í dreifbýli.
» Óli vekur athygli á því að mikill árangur hafi náðst í því að fækka banaslysum á börnum og ungmennum. Á árunum 1945 til 1974 létust mörg börn á hverju ári en þeim hefur fækkað mjög síðustu árin.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: