Sjö bandarískustu ekki bandarískir

Dodge Grand Caravan er 75% norður-amerískur en samsetning hans fer …
Dodge Grand Caravan er 75% norður-amerískur en samsetning hans fer fram í Kanada.

Skylt er að gefa upp hversu hátt hlutfall íhluta í bílum sem seldir eru í Bandaríkjunum eru bandarískir. Sömuleiðis í hvaða landi vélar bílanna og gírkassi er smíðaður.

Aukinheldur krefst Þjóðvegaöryggisstofnun Bandaríkjanna þess að við skráningu sé tilgreint hvert sé það land sem 15% íhlutanna eða fleiri koma frá. Ennfremur að fram komi í skráningarskírteini hvar bíllinn var settur saman.

Bandaríska vefsetrið Motortrend hefur tekið saman lista yfir „bandarískustu“ bílana í flokki jeppa, fjölnotabíla og pallbíla, ef svo mætti segja. Á óvart kemur að sjö þeirra er frá erlendum bílsmiðum, svo sem Toyota og Honda. Allir eiga bílarnir það þó sameiginlegt að vera smíðaðir í Norður-Ameríku: þrettán í Bandaríkjunum og tveir í Kanada.

Sá bíll sem trónir í efsta sæti er Dodge Grand Caravan, stór fjölskyldubíll sem er 75% norður-amerískur en samsetning hans fer fram í Kanada. Pentastar V6-vélin, sem er 3,6 lítra, er ýmist fengin frá Bandaríkjunum eða Mexíkó en gírkassinn er smíðaður í Bandaríkjunum.

Í öðru sæti er þríeykið Buick Enclave, Chevrolet Traverse og GMC Acadia. Þrátt fyrir ólíkt útlit innra og ytra, sem höfðar mismikið til einstakra neytendahópa, er hér um sama bílinn að ræða undir yfirbyggingunni, með öðrum orðum sá hluti þeirra sem ekki sést. Þeir eru 75% amerískir, smíðaðir í sömu bílsmiðjunni og með bandarískar vélar og gírkassa.

Í þriðja sæti er svo Honda Odyssey, japanskur 7-8 sæta fjölnotabíll m.a. með innbyggðum ísskáp og þrýstijöfnun í farþegaklefa. Magn norður-amerískra íhluta er 75%, bíllinn samsettur í Bandaríkjunum og vélar og skipting fengnar í Bandaríkjunum,

Toyota Sienna er í fjórða sæti en með sama hlutfall norður-amerískra íhluta og bílarnir að framan, 75%. Hlutfall japanskra íhluta er 20% og er bíllinn samsettur í Bandaríkjunum. Vélin smíðuð þar í landi en gírkassinn ýmist þaðan eða frá Japan.

Fimmti amerískasti bíllinn er svo Chrysler Town & Country, söluhæsti fjölnotabíllinn í Bandaríkjunum. Hann er 74% amerískur, smíðaður í Kanada, vélarnar frá Bandaríkjunum eða Mexíkó en gírkassinn bandarískur.

Í sjötta sæti er Jeep Cherokee með 71% íhluta innanlands sem er hærra en í nokkrum öðrum jeppa eða jepplingi Fiat-Chrysler. Í sjöunda sæti er Jeep Wrangler, Wrangler Unlimited með 70% en ólíkt öðrum bílum á listanum er gírkassinn þýskur. Í áttunda sæti er lúxusjepplingurinn Acura RDX frá Honda, einnig með 70% hlutfall. Í níunda sæti er svo Honda CR-V með 70% skerf norður-amerískra íhluta og 15% japanskra. Fyrir Norður-Ameríkumarkaðinn er hann smíðaður í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Aflrás smíðuð í Bandaríkjunum. Honda Crosstour er bíll sem reynir að vera allt í senn, hlaðbakur, stallbakur og jepplingur. Hann er með sama hlutfall íhluta og Acura en vélar og gírkassi ýmist frá Japan eða Bandaríkjunum. Í næsta sæti er svo þriðja kynslóðin af Honda Pilot sem kemur á markað í sumar en hann er 70% norður-amerískur, settur saman þar með vélar og gírkassa sem smíðaður er í Bandaríkjunum.

Í næstu tveimur sætum eru pallbílar, Toyota Tundra og Dodge Durango. Sá fyrrnefndi er 70% norður-amerískur og 15% japanskur. Hannaður, þróaður og smíðaður í Bandaríkjunum, þar á meðal bæði vélin og gírkassinn líka. Í Durango er hlutfall heimahluta 67% og mexíkóskra 16%.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: