Regluverk um tjónaökutæki endurskoðað

Því miður hefur mátt rekja nokkur alvarleg slys til lélegra …
Því miður hefur mátt rekja nokkur alvarleg slys til lélegra viðgerða á tjónabílum. Herða þarf eftirlit með skráningu og viðgerðum.

Reglugerð um skráningu og eftirlit með tjónaökutækjum verður tekin til endurskoðunar og hafist handa við það innan skamms. Þetta er á meðal þess sem kom fram á opnum fundi um umferðaröryggi, sem haldinn var í húsakynnum Sjóvár í Kringlunni.

Yfirskrift fundarins var Hvenær verður tjónaður bíll skráður tjónabíll, en að undanförnu hefur nokkuð verið fjallað um þá meinbugi sem eru á viðgerðum tjónabíla og einkum og sér í lagi á því hvernig eftirliti með þeim er háttað. Erindi á fundinum héldu þau Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Kristófer Ágúst Kristófersson, deildarstjóri tæknimála ökutækja hjá umferðarsviði Samgöngustofu, og Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár.

Endurmat og skráning

Farið var yfir þann fjölþætta vanda sem blasir við þeim sem að tjónabílum koma, hvort sem um er að ræða hagsmunafélög neytenda, lögreglu, Samgöngustofu, tryggingafélög, verkstæði eða bílapartasölur, svo einhverjir séu nefndir. Til að mynda álitamál í tengslum við sölu og kaup á bílum sem orðið hafa fyrir tjóni, skráningu tjónabíla, viðgerðarferli, bifreiðaskoðun og svo má sannarlega velta því fyrir sér hvernig eftirfylgni ætti að vera háttað með þeim bílum sem seldir eru á uppboðum eftir að þeir eru komnir á götuna á nýjan leik.

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja eru afar fáar málsgreinar sem taka til tjónabíla og ekki skýrt kveðið á um hvernig eftirliti með viðgerðum á þeim skuli háttað. Á þetta hafa ýmsir bent, meðal annars í þingsal. Í nóvember síðastliðnum beindi Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrirspurn til innanríkisráðherra um skráningu og eftirlit tjónabíla. Fyrirspurnin laut meðal annars að því hvort skýrar reglur og eftirlit væri með skráningu tjónabifreiða á opinberum uppboðum sem og lokuðum.

Blikur á lofti

Í kjölfar umræðna fóru hjólin að snúast og nú er staðan sú að innanríkisráðuneytið hefur falið Samgöngustofu að endurskoða regluverkið um tjónaökutæki.

„Það sem þarf að gera er að endurskoða regluverk um tjónaökutæki í heild sinni með hagsmunaaðilum til þess að öll viðfangsefni tjónaökutækisins komi fram,“ sagði Kristófer Ágúst Kristófersson, deildarstjóri tæknimála ökutækja hjá umferðarsviði Samgöngustofu, á fundinum í Sjóvá. Hann segir að hópurinn sem að þessum málum kemur sé býsna stór. „Það þarf því að halda mjög marga fundi til þess að allir komist að með sín málefni og nú er bara tímaspursmál hvenær við byrjum á þessu,“ segir hann.

Öll ökutæki heyra undir reglugerðina, ekki eingöngu bílar, eins og oft hefur verið túlkað og því ljóst að sjónarmið margra þurfa að koma fram við vinnslu reglugerðarinnar. „Það þarf mjög víðtækt samráð til þess að þetta geti virkað í okkar kerfi eftir það,“ segir Kristófer. Ekki liggur fyrir hvort breytingar verði skrifaðar inn í regluverkið og bætt verulega í það eða hvort skrifuð verði ný reglugerð sem taki sérstaklega til tjónaökutækja.

Vandvirkni allra hagur

Árið 2014 voru skráð fimm þúsund tjón á bílum og sjö hundruð manns slösuðust. Hér er aðeins átt við tjón sem urðu hjá tryggingatökum Sjóvár og greiddi tryggingafélagið rúmlega fimm milljarða króna vegna ökutækjatjóna.

Þetta eru háar tölur og ekki má gleyma að í raun og veru er eitt slys einu slysi of mikið. Það ætti því að vera sem flestra hagur að lækka þessar tölur til muna.

Með því að auka eftirlit með skráningum og viðgerðum á tjónaökutækjum mætti fækka áhættuþáttum því um það verður varla deilt að illa viðgerð tjónabifreið getur verið dauðagildra í umferðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: