Volkswagen helgar sig tvinntækninni

Volkswagen bindur vonir við öflugri rafgeyma og hallast því að …
Volkswagen bindur vonir við öflugri rafgeyma og hallast því að tvinntækni fyrir aflrás bíla sinna. Á það bæði við um VW og einnig Audi.

Rafgeymar fyrir rafbíla hafa þrjá ókosti, þyngdina, verðið og litla geymslugetu. Verðið á þeim hefur verið að lækka og rafgeymarnir verða helmingi ódýrari innan fárra ára, að mati sérfæðinga.

Þangað til nýjar leiðir til rafgeymasmíði verða uppgötvaðar og þróaðar verða geymarnir áfram þungir og forðageta þeirra takmörkuð. Þetta eru þó ekki meginástæður þess að Volkswagensamsteypan hefur látið rafbílasmíði mæta afgangi. Að vísu smíðar VW tvo rafbíla, e-Up og e-Golf, og er sá síðarnefndi metsölubíll í Noregi.

En á næstu árum ætlar VW frekar að helga sig tvinnbílum, eða þangað til orkumeiri rafgeymar verða að raunveruleika, segir forstjórinn Martin Winterkorn. Hann gagnrýndi þá sem telja daga dísilvélarinnar senn talda, sakaði þá um að sýna umhverfismálum fjandskap. Sagði VW-stjórinn að í ljósi strangari krafna um losun gróðurhúsalofts sem vænta mætti frá og með 2021 myndu tvinnbílar skipta miklu við að sigrast á viðmiðum þeim. Hann sagði að næstu kynslóðir Audi Q7-jeppans, A7 og A8, yrðu tvinnbílar. Volkswagen sigldi svo í kjölfarið með tvinnútgáfu af Touareg og flaggskipinu Phaeton.

Winterkorn lagði áherslu á það takmark VW-samsteypunnar að verða leiðandi á sviði rafbílasmíði í framtíðinni. Á grundvelli sveigjanlegrar undirvagnstækni (MQB-undirvagninn) gæti samsteypan rafvætt allt að 40 af núverandi smíðisgerðum. Fram til ársins 2020 áætlaði hún að verja 85 milljörðum evra til fjárfestinga í nýrri smíðistækni, nýjum bílamódelum og nýjum bílsmiðjum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: