Stærsta innköllun Toyota til þessa

Nokkra klukkutíma mun taka að gera við hvern bíll.
Nokkra klukkutíma mun taka að gera við hvern bíll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innköllun Toyota á Íslandi á 4.309 Yar­is og Corolla bif­reiðum af ár­gerðum 2001 til 2006 er sú stærsta sem fyrirtækið hefur gert og með þeim stærri sem fyrirtækið hefur gert á heimsvísu. Í heildina verða 5.688 bílar kallaðir inn hér á landi og mun taka nokkrar klukkustundir að gera við hvern bíl. Einnig er um að ræða bifreiðar af gerðinni RAV4 og Hilux.

Ástæða inn­köll­un­ar­inn­ar er galli í ör­yggis­púðum, röng hleðsla í drif­búnaði ör­yggis­púðanna get­ur rifið gat á drif­búnaðinn sjálf­an sem veld­ur því að púðinn blæs ekki rétt út við árekst­ur og virkni hans verður ekki eins og til er ætl­ast.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota, segir að ferlið sé nokkuð tímafrekt enda þurfi að huga að mörgu. Tilkynna þarf um innköllunina, tilgreina ástæðu og finna út úr því hvar bílarnir eru í dag.

Á heimsvísu er um að ræða fimm milljónir bíla. Einnig þarf að finna út hversu langan tíma tekur að gera við hvern bíl. „Menn vanda sig mikið við þetta þannig að allt tekur þetta langan tíma,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Toyota kallar inn 4.309 bíla á Íslandi

Nú vinnur Toyota á Íslandi að því að fara yfir hvar bílarnir eru og hvort þeir eru í umferð. Páll segir að skráningarkerfið hér á landi sé gott og því verði auðvelt að finna út hverjir eigi bílana. Allir eigendurnir fá bréf á næstum vikum og mánuðum en ekki verða allir bílarnir kallaðir inn í einu.

Eigendur fá boð um að hafa samband við næsta þjónustuaðila og panta tíma en nokkrar klukkustundir getur tekið að gera við hvern bíl. Viðgerðin er eigendunum að kostnaðarlausu.

Aðspurður segir Páll að bílarnir sem kallaðir verða inn hafi ekki virkað sem skildi. „Það eru tilfelli þar sem þessir loftpúðar hafa ekki virkað rétt en Toyota rekur ekki nein slys til þeirra bíla sem nú er verið að kalla inn. Það hefur ekkert slys orðið hér á landi svo við vitum til,“ segir Páll.

Hann bætir við að eigendur bílanna þurfi síður en svo að vera hræddir við að keyra bíla sína. Toyota leggi mikið upp úr öryggi  og ef grunur vaknar um að eitthvað gæti komið upp á eru bílarnir kallaðir inn.

mbl.is