Framleiðendur setja öryggið á oddinn

Erna Gísladóttir, forstjóri BL.
Erna Gísladóttir, forstjóri BL. mbl.is/Golli

BL ehf þarf að innkalla 1.989 Nissan og Subaru bifreiðar sem framleiddar voru á árunum 2004 til 2007. Er það vegna möguleika á loftleka á loft­púðahylki farþega­meg­in sem get­ur or­sakað að raki kom­ist inn í loft­púðann með þeim af­leiðing­um að ef púðinn virkj­ast við óhapp get­ur hann ekki blásið rétt upp. Mögu­leiki er á að púðinn losni frá fest­ingu sinni.

„Við fáum innköllunina frá framleiðanda,“ segir Erna Gísladóttir, forstjóri BL ehf. Í samtali við mbl.is. „Við erum með háar öryggiskröfur og fylgjum þessum innköllunum eftir. Við fáum lista frá framleiðanda með upplýsingum um hvaða bílar þetta eru og sendum þeim ábyrgðarbréf. Síðan er fylgst með því að þetta skili sín til bíleiganda.“

Erna segir að hver og einn bíll verði skoðaðir og skoðað hvort að þurfi að skipta um loftpúðahylki. Eftir skoðun fá eigendur bíla sína aftur. Erna segir þetta mjög stóra innköllun, sú stærsta sem hún man eftir. „Það er ekki algengt að þetta gerist. En framleiðendurnir vilja setja öryggið á oddinn í þessu. Þó ekkert hafi gerst vilja þeir vera alveg vissir um að allt sé í lagi.“

Að sögn Ernu er nú verið að fá varahluti í hús og skipuleggja aðgerðir. Ekki er búið að senda út bréf til eigenda þeirra bíla sem verða innkallaðir. „En þegar að því kemur pantar fólk bara tíma. Sumir koma strax og aðrir eftir einhvern tíma, það verður bara vonandi gott flæði.“

Fyrri frétt mbl.is:

BL innkallar 1.989 bifreiðar

mbl.is