Nú má ekkert gera undir stýri

Franska lögreglan að störfum. Ætli þessi hafi gúffað í sig …
Franska lögreglan að störfum. Ætli þessi hafi gúffað í sig croissant undir stýri, eða hækkað í botn þegar Johnny Halliday-smellur kom í útvarpið? mbl.is/afp

Um mánaðamótin gekk í gildi bann við því að vera með heyrnartól hvers konar undir stýri í Frakklandi. Gildir einu þótt þráðlaus séu og bannið nær ekki bara til bifreiðastjóra heldur einnig þeirra sem ferðast um á reiðhjóli, mótorhjóli eða skellinöðru. Þeim er einnig bannað að renna farsímum sínum og heyrnartólum inn undir höfuðhjálma sína.

Er þá ekki allt upp talið því að nýju viðbæturnar við umferðarlögin kveða líka á um bann við að borða samloku undir stýri bíls, að mála sig og meika og aka með hljómtækin hátt stillt. Viðurlög við broti á því banni varðar 75 evra sekt. Allar eru þessar ráðstafanir hugsaðar til að gera ökumönnum kleift að auka á einbeitingu sína að akstrinum og umferðinni.

Mega ekki drekka dropa

Áfram er sótt að þeim sem freistast til að aka undir áhrifum áfengis, ekki síst ungu fólki. Héðan í frá mega þeir nánast ekki innbyrða neina áfenga drykki fyrir akstur. Vínandamagnið í blóði má ekki fara upp fyrir 0,2 grömm á lítra. Gildir það magn fyrir fyrstu þrjú árin frá því ökumaður stóðst bílpróf. Sá sem brýtur gegn þessu missir í einu vetfangi helming skírteinispunkta sinna, eða sex punkta.

Margir kvarta undan því að franskir bílstjórar leggi bílum þar sem þeim sýnist og eins og þeim sýnist. Ríkisstjórnin hefur sagt slíku hátterni stríð á hendur. Verða þeir sektaðir um 135 evrur sem staðnir verða að því að leggja bíl á gangstéttum, í reiðhjólareinum eða gangbrautum. Er það hækkun um 100 evrur á brot.

Rútur og vörubílar í bann

Borgaryfirvöld í París hafa sagt mengun stríð á hendur og í því sambandi er rútum og vörubílum sem nýskráðir voru fyrir árið 2001 ekki lengur heimilt að aka inn fyrir borgarmörkin.

Loks er lagt til atlögu við annars konar mengun, reykingar í einkabílum. Frá og með 1. júlí sl. varðar það við frönsk lög að reykja í bíl þar sem barn undir 12 ára aldri er með í för. Skirrist menn við því banni blasir við 68 evra sekt, gómi laganna verðir viðkomandi.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: