Mesta rallmót ársins um helgina

Hart sótt á Djúpavatnsleið í Reykjavíkurrallinu.
Hart sótt á Djúpavatnsleið í Reykjavíkurrallinu. mbl.is/Styrmir Kári

Reykjavíkurralið fer fram um helgina og eru útlendir keppendur í meirihluta, en þeir eru allir breskir. Íslenskar áhafnir taka þátt enda mikið í húfi í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn í ralli í öllum flokkum.

Gestirnir að utan eru allir á einhvers konar Land Rover bifreiðum.  Breski herinn er að koma hingað í tuttuasta skiptið og er með ólíkindum hve samkeppnishæfar bifreiðar þeirra eru, en fyrir utan öryggisþættina eru þetta lítt breyttar bifreiðar. 

Þá eru hér þrjár bifreiðar frá Bowler Motorsport, sem eru að keppa í Bowler Land Rover Defender Challange.  Gaman verður að sjá hvernig þeim reiðir af.  Þá er hér Walesbúi sem smíðaði sinn rallyjeppa í vetur og var ákveðinn að keppa í ár.  Hann hefur komið nokkur undanfarin ár eftir að hafa verið i aðstoðarliði Daníels Sigurðarsonar er hann keppni í Bretlandi fyrir nokkrum árum.

Rallið hófst síðdegis í gær við Perluna með sérleiðum hjá Hvaleyrarvatni,  Djúpavatnsleið og loks sérleið í Helluhverfi í Hafnarfirði.

Í dag er ekið frá Sigöldu að Frostastaðavatni og síðan niður Dómadal og Næfurholt áður en áð verður að Hellu. Síðan er leiðin ekin tilbaka og endað í Helluhverfinu.

Á morgun, laugardag, er skroppið í Húsafell um Hengil og gamla veginn um Tröllháls áður en síðasta sérleið er ekin um Djúpavatn og haldið í lokamark að Perlunni rétt um 14:00

Á keppnisleiðum rallsins verður að loka vegum og gera að einstefnu.  Því getur umferð raskast eilítið við það, en yfirleitt tekur þetta snöggt af.  Hægt er að sjá hvar og hvenær lokað verður á vefsetri rallsins.

Reykjavíkurrallið hófst við Perluna.
Reykjavíkurrallið hófst við Perluna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is