5% bíla eineygðir eða ljóslausir

Nauðsynlegt er að ökumenn kunni góð skil á virkni ljósabúnaðar …
Nauðsynlegt er að ökumenn kunni góð skil á virkni ljósabúnaðar bíla sinna. mbl.is/Ómar

Könnun VÍS á ljósabúnaði bíla á höfuðborgarsvæðinu sýnir brotalöm á notkun ljósa. Í myrkri voru 5% bíla eineygðir eða ljóslausir og gildir þá einu hvort það var að framan eða aftan. Í björtu var hlutfallið allt annað hvað afturljósin snertir, þar sem 6,3% bíla voru alveg ljóslausir og 3,6% eineygðir. Að framan var 1,3% bíla ljóslausir í björtu og 4,6% eineygðir.

Muninn á milli þess hvort bílar voru ljóslausir í björtu eða myrkri virðist að stórum hluta mega rekja til Evróputilskipunar um orkusparandi dagljósabúnað frá árinu 2011, að því er segir í frétt á vef VÍS.

„Ökumenn þurfa greinilega að huga betur að ljósabúnaði bíla sinna. Hér á landi er skylt að hafa lögboðin ljós, eða önnur viðurkennd ökuljós, kveikt allan daginn. Aðalljós skulu vera kveikt þegar skuggsýnt er eða skyggni lélegt. Orkusparandi dagljósabúnaður nýrra bíla tryggir ekki besta sýnileika þeirra í umferðinni. Á mörgum þeirra kvikna engin stöðuljós að aftan heldur eingöngu dagljós að framan, sem er mjög bagalegt út frá umferðaröryggi,“ segir VÍS.

mbl.is