Kodiak heitir nýr jeppi Skoda

Skoda Kodiak verður stærðinni yfir Yeti.
Skoda Kodiak verður stærðinni yfir Yeti.

Skoda er um þessar mundir að þróa nýjan sjö manna jeppa sem verður stærðinni fyrir ofan jepplinginn Yeti. Áætlað er að frumsýna nýja jeppann í París næsta haust.

Komnar eru á kreik sögur af því hvað bíll þessi muni heita og hefur því meðal annars verið fleygt að nafnið verði annað hvort Skoda Snowman eða Skoda Polar.

Hvort tveggja væri sennilega við hæfi, en samkvæmt heimildum þýska bílaritsins Autobild hefur Skoda nú nýverið ákveðið nafnið. Muni hinn nýi jeppi heita Skoda Kodiak.

Hann er byggður upp af MQB-undirvagninum frá Volkswagen. Hann verður með drifi á framhjólum sem staðalbúnað en bíll með drifi á öllum fjórum mun einnig verða í boði.

Lítið hefur verið látið uppi um tæknilega hlið jeppans. Búist er við að Skoda brúki í honum sama vélaval og á við um Octavia og Superb-bílana. Þar á meðal eru 2ja lítra dísilvél og 1,8 lítra bensínvél sem tengjast annað hvort sex hraða handskiptingu eða sjö hraða DSG-skiptingu.

Kodiak mun byrja að renna af færiböndum bílsmiðjunnar í Kvasyni í Tékklandi undir árslok og koma þá á markað í Evrópu. Hann kemur til með að keppa um hylli kaupenda við annan bíl úr stalli Volkswagensamsteypunnar, Tiguan.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: